Leikaraparið Þórdís Björk Þorfinnsdóttir og Júlí Heiðar Halldórsson eru trúlofuð. Parið trúlofaði sig í uppáhalds byggingunni sinni, Samkomuhúsinu á Akureyri, þar sem þau hafa bæði starfað.
Þórdís og Júlí hafa verið vinir í mörg ár og voru meðal annars saman í bekk á leikarabraut í Listaháskóla Íslands. Sumarið 2021 fundu þau ástina í örmum hvors annars og í nóvember sama ár keyptu þau sér íbúð saman þar sem þau búa nú. Þórdís á einn son úr fyrra sambandi og Júlí Heiðar á einnig einn son úr fyrra sambandi.
Árið 2020 léku þau saman í leikritinu Vorið vaknar hjá Leikfélagi Akureyrar. Þórdís lék í vetur í leikritinu Skugga Sveinn á Akureyri. Júlí er sérfræðingur í fræðslumálum hjá Arion banka auk þess sem hann gefur reglulega út tónlist. Nýverið gaf hann út lagið Brenndur.
Smartland óskar þeim innilega til hamingju!