Fjölmiðlamaðurinn Björn Ingi Hrafnsson hefur breyst töluvert síðastliðin 17 ár. Hann benti sjálfur á þessa staðreynd á samfélagsmiðlum sínum og birti fjórar myndir sem teknar voru við mismunandi tilefni síðastliðin 17 ár.
Með myndbirtingunni vildi Björn Ingi sem er fyrrverandi borgarfulltrúi meðal annars benda á að það væri líf eftir stjórnmál en það styttist óðum í sveitastjórnarkosningar.
„Myndir teknar yfir sautján ára tímabil. Sendi þeim sem standa nú í kosningabaráttu góða strauma, hvar í flokki sem fólk er. Allir eru að gera sitt besta. Og það er sko líf eftir pólitík, þótt kollvik hækki eitthvað ofurlítið og gráu hárin taki yfir,“ skrifar Björn Ingi á samfélagsmiðlum sínum.
Björn Ingi hefur fengið góð viðbrögð við myndunum sínum. Hann verður fimmtugur á næsta ári og þykir bara bera aldurinn nokkuð vel þrátt fyrir að kollvikin hafi aðeins hækkað eins og hann bendir á.