Draumur Baltasars rættist í Afríku

Leikarinn Idris Elba og Baltasar Kormákur við tökur á kvikmyndinni …
Leikarinn Idris Elba og Baltasar Kormákur við tökur á kvikmyndinni Beast í Suður-Afríku á síðasta ári. Ljósmynd/Universal Studios

Leikstjórinn Baltasar Kormákur Baltasarsson segir það hafa verið draumi líkast að fá að verja sex mánuðum í Afríku við tökur á kvikmyndinni Beast. Fyrsta stiklan fyrir kvikmyndina kom út í vikunni en myndin verður frumsýnd hinn 10. ágúst á Íslandi.

„Þetta er um fjölskyldu. Foreldrarnir hafa skilið að borði og sæng fyrir nokkru síðan. Konan verður svo veik og fellur frá. Hún hafði lofað dætrum sínum tveimur að fara með þær til Afríku til þorpsins þaðan sem hún er og pabbinn ákveður að fara í þessa ferð með þær í staðinn,“ segir Baltasar um kvikmyndina.

Í ferðinni gerir ljón eitt þeim lífið leitt og lenda þau í miklum hremmingum. „Þetta er svaka hasar og ofboðsleg spenna en undirtónninn er líka falleg fjölskyldusaga.“

Fílaárás við stráhús

Kvikmyndin var að mestu tekin upp í Suður-Afríku, nánar tiltekið í Limpopo héraði í grennd við Kruger-þjóðgarðinn í norðausturhluta landsins. Baltasar hafði aldrei komið áður til Afríku og segir upplifunina hafa veri kynngimagnaða.

Í Limpopo dvaldi hann í stráhúsi sem hann segir hafa verið mikið líf í. „Það var alltaf eitthvað ofan í klósettinu eða uppi á þakinu,“ segir Baltasar og minnist þess svo þegar villtur fíll ætlaði að ráðast að honum.

„Ég gekk bara bak við hús og þá sá ég tvo villta fíla. Annar þeirra réðst að mér og ég þurfti einhvern veginn að standa þá af mér. Það var alveg geggjað að finna náttúruna svona nálægt sér.“

Elba fer með aðalhlutverk.
Elba fer með aðalhlutverk. Ljósmynd/Universal Studios

Fjölbreytileiki í fyrirrúmi

Baltasar segir það hafa einkennt framleiðslu myndarinnar að fólk úr öllum áttum hafi unnið við hana.

„Allir kynþættir og öll kyn. Það var fjöldi kvenna við tökurnar, og í stöðum sem við höfum ekki oft séð áður. Það er staðfesting á því hversu jákvætt það er, þegar það tekst að hafa hópinn svo fjölbreyttan,“ segir Baltasar. Aðstoðarkona hans við tökurnar var Harpa Elísa Þórsdóttir.

Elba og Baltasar nátengdir

Með aðalhlutverk í kvikmyndinni fer leikarinn Idris Elba. Baltasar segir að þeir hafi hist reglulega í gegnum árin og alltaf langað til að vinna saman. „Þetta var fullkomið verkefni fyrir okkur og bara rosalega ánægjulegt að fá að gera þetta með honum,“ segir Baltasar. Hann segir þá Elba ná vel saman og eiga mikið sameiginlegt. „Hann er bara eins og „a brother from another mother“ eins og maður segir.“

„Það er mjög fyndið að á Íslandi finnst bæði körlum og konum hann alveg svakalega heitur,“ segir Baltasar og hlær. Lögmálið gildir eflaust ekki bara um Ísland enda var hann valinn kynþokkafyllsti karlmaður heims af tímaritinu People árið 2018.

Innbrot í Höfðaborg

Spurður hvort það skili sér í gæðum kvikmyndarinnar að hann hafi fengið að upplifa Afríku á þann hátt sem hann gerði, segir Baltasar að hann telji svo vera.

„Við lentum í því í Höfðaborg að það var brotist inn í húsið hjá okkur. Fólk skreið um á gólfinu og það þurfti að læsa okkur inni í herberginu. Það var ýmislegt sem kom upp á. En í hjartanu er bara þakklæti og gleði, fyrir að fá að gera þetta og fá að vera þarna,“ segir Baltasar.

Miklu verra ástand en á Íslandi

Kvikmyndin var tekin upp í miðjum kórónuveiruheimsfaraldri og segir Baltasar að þau hafi fundið vel fyrir því í Suður-Afríku. Þá var Universal, sem framleiðir kvikmyndina, með strangar reglur og þurftu allir í tökuliðinu að fara í skimun daglega. „Það var miklu verra ástand í Afríku heldur en var á Íslandi. Meðal annars vegna fátæktarinnar og ástandsins almennt. Það voru mörg dauðsföll á svæðinu.“

Hann segir að maður, sem hafði unnið sem bílstjóri fyrir þau, hafi látist vegna veirunnar skömmu eftir að hann lauk störfum sínum hjá framleiðslufyrirtækinu. Þótt smitið hafi ekki tengst framleiðslu kvikmyndarinnar, hafi það minnt þau á alvarleika faraldursins og hversu nálægt þetta var þeim. Hópurinn slapp þó alveg við smit, enda segir Baltasar þau hafa verið í hálfgerðri einangrun og mikið utan stóru borganna.

„Maður gleymir þessu öllu. Ég man bara eftir ljónunum og öpunum og sólinni. Ég er kannski orðinn hálfgerð Pollýanna, en ég man eftir þessu.“

Baltasar er þakklátur fyrir að hafa fengið tækifæri til að …
Baltasar er þakklátur fyrir að hafa fengið tækifæri til að dvelja svo lengi í Afríku við gerð myndarinnar. Ljósmynd/Universal Studios

Tekin úti í frumskóginum

Baltasar segir að hann hafi ákveðið að taka myndina að mestu leyti upp úti, í stað þess að nota kvikmyndatökuver. Sambærilegar kvikmyndir séu oft teknar upp í tökuverum og svo er gríðarleg tæknivinna unnin eftir á.

„Ég tók upp margar, langar senur í einu lagi. Þannig að það þurfti að skipuleggja þetta rosalega vel og það er mikil nákvæmnisvinna. Ég gerði mér ekki auðvelt fyrir, en þetta var samt mikið ævintýri,“ segir Baltasar sem leitaði ráða hjá leikstjóranum Alejandro González Innárritu en hann vann Óskarsverðlaun fyrir kvikmyndina The Revenant. Í henni er bjarnarárás sem þykir mjög góð og fékk Baltasar góð ráð frá honum.

Myndina tók Baltasar í löngum skotum.
Myndina tók Baltasar í löngum skotum. Ljósmynd/Universal Studios

„Við vorum með ljón með okkur meira og minna allan tíman. Vegna dýraverndarsamtakanna P.E.T.A. og fleiru mátti ekki nota það í myndinni, en það er í lagi að gera það svona,“ segir Baltasar. Ljónið var notað til þess að eftirvinnslan yrði sem raunverulegust og tekur sem dæmi að skilja hvernig sólin speglast í feldi ljónsins við ákveðnar aðstæður.

Ekki að eltast við verðlaun

Aðspurður hvernig gengi myndin muni hljóta í haust og hvort að þetta verði kvikmyndin sem hann landi Óskarsverðlaunum fyrir, segist Baltasar lítið vera að reyna elta verðlaun.

„Ég vona bara að fólk njóti hennar og hafi gaman af. Ég er ekkert að hugsa mikið um það. Ég er bara að reyna að gera myndir sem mér finnst gaman að gera og vonandi hefur fólk gaman af. Hitt kemur bara þegar það kemur,“ segir Baltasar.

Snerting í haust

Baltasar er enn að vinna kvikmyndina og var í Lundúnum þegar blaðamaður hringdi í hann. Eftir að Beast kemur út í haust segir hann allt benda til þess að hann komist í að byrja að vinna kvikmynd eftir bók Ólafs Jóhanns Ólafssonar, Snerting. „Það verða bráðlega stórar fréttir af því. Vonandi kemst ég sem fyrst af stað með það.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda