Fyrirsætan Kate Moss opnaði sig á dögunum um Calvin Klein nærfataauglýsingu hennar frá árinu 1992, en þar sat Moss fyrir með leikaranum Mark Wahlberg. Hún segir minningar sínar frá myndatökunni ekki vera góðar.
Í samtali við BBC sagðist Moss hafa verið „berskjölduð og hrædd“ við hlið leikarans Wahlberg í tökunum. „Hann var mjög karlmannlegur og allt snérist um hann. Hann var með stórt fylgdarlið á bak við sig. Hann var bara þannig fyrirsæta,“ rifjaði Moss upp.
Moss var 18 ára gömul þegar myndatakan átti sér stað, en henni fannst hún án efa hafa verið hlutgerð. „Ég held þeir hafi spilað á berskjöldun mína. Ég var frekar ung og saklaus, svo Calvin elskaði það.“ Hún segist hafa fundið fyrir miklum kvíða fyrir myndatökuna, sem hafi leitt til þess að læknir ávísaði henni kvíðalyfi.