Drífa Björk Linnet Kristjánsdóttir, heildsali og ekkja Haraldar Loga Hrafnkelssonar, hefur barist fyrir því að fá lík hans afhent til þess að hægt sé að koma því til Íslands. Haraldur Logi lést í eldsvoða á Tenerife á Spáni 6. febrúar á þessu ári.
„Við erum smá að fagna. Við erum búnar að fá fréttir um það að við erum að fara að fá Halla til okkar. Ég var á fundi í morgun og aftur núna seinni partinn með útfararþjónustu og það lítur allt út fyrir að við getum fengið Halla til okkar,“ segir Drífa Björk á instagramsíðu sinni.
Hún segist hafa verið á tröppunum hjá lögreglunni síðan Haraldur Logi féll frá til þess að fá lík hans afhent. Hún segir frá því að líkið verði brennt á Tenerife og í framhaldinu verði það flutt til Íslands.
„Þeir ætla sem sagt af mannúðarástæðum að afhenda hann þrátt fyrir að málinu sé ekki lokið. Þeir eru ennþá að reyna að finna upptök eldsins. Við fjölskyldan erum búin að vera nánast á tröppunum hjá lögreglunni,“ segir Drífa Björk jafnframt.
Hún segir að það stefni í það að þeir muni skrifa á dánarvottorðið að Haraldur Logi hafi látist af slysförum þrátt fyrir að enn sé ekki búið að rannsaka málið til hlítar. Enn eigi eftir að finna upptök eldsins en í húsi hjónanna kviknaði þennan örlagaríka dag.
„Við fjölskyldan vöknum á sunnudagsmorgun við að það er kominn upp eldur í húsinu okkar á Tenerife,“ segir Drífa. Elsta dóttir hennar fer á fætur, sér eldinn og gerir móður sinni viðvart sem hringir svo í neyðarlínuna. Viðbragðsaðilar koma á svæðið, koma fjölskyldunni í öruggt skjól og slökkva eldinn.
„Þegar það er búið koma þeir til mín og segjast hafa fundið manninn minn í annarri af tveimur bifreiðum í bílskúrnum og hafi hann strax verið úrskurðaður látinn,“ sagði Drífa Björk á instagram í síðustu viku. Hún segir þau hafa farið strax á lögreglustöðina þar sem skýrsla var tekin af þeim og svo fór hún í að finna hótelherbergi fyrir þau. Húsið var óíbúðarhæft og báðir bílar þeirra ónýtir.
Næstu mánuðir fóru í bið að sögn Drífu. Þau fjölskyldan bjuggu á hóteli á Tenerife í þrjá mánuði og börnin héldu áfram skólagöngu sinni. Á meðan reyndi hún að fá svör frá spænskum yfirvöldum um hvenær hún gæti fengið lík eiginmanns síns afhent. Nú virðist vera að rofa til en Drífa Björk ætlar að halda minningarathöfn fyrir Harald 23. ágúst.