Helgi Ómarsson áhrifavaldur og ljósmyndari, sem er með sitt svæði á bloggsíðunni Trendnet.is, var staddur á Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum sem fram fór um síðustu helgi. Helgi segir frá því á instagramsíðu sinni að læknar telji að honum hafi verið byrluð ólyfjan. Hann segir að þetta hafi verið hræðileg lífsreynsla.
Helgi segist hafa upplifað allan tilfinningaskalann og hafi verið efins um það að deila þessari lífsreynslu. Hann játar að það hafi verið stutt í skömmina.
„Síðustu þrír sólarhringar hafa verið frekar mikill tilfinningarússíbani,“ segir Helgi á instagram.
Hann segist hafa skemmt sér konunglega á Þjóðhátíðinni en aðfaranótt mánudagsins var hann staddur við litla sviðið í Herjólfsdal. Hann var með brúsa meðferðis sem innihélt áfenga blöndu sem hann vökvaði sig með hægt og rólega.
„Ég var á litla sviðinu og það var sjúklega gaman,“ segir Helgi. Auk þess að vera með sína blöndu tók hann skot hjá félaga sínum og fékk sér sopa úr röri. Hann segist hafa verið algerlega grunlaus um að það væri eitthvað annað í drykknum en áfengi.
Helga leið furðulega eftir þetta og segir að allt hafi orðið rosalega skrýtið. Hann fór afsíðis til að reyna að kasta upp en hafi upplifað sig máttlausan og endað einhvers staðar úti á túni í fáránlega skrýtnu ástandi.
Hann segist alltaf passa sig þegar hann drekkur og gæti þess vel að verða ekki ölvaður. Hann drekki alltaf lítið magn og mikið vatn inn á milli þegar hann er að fá sér. Helgi segir að áhrifin þetta kvöld hafi verið allt öðruvísi og nokkuð sem hann hafi aldrei upplifað áður.
„Alveg rosalega ólík. Pjúra panic, líkamlegt kraftleysi og alls konar annað rugl voru búin að taka yfir,“ skrifar hann á Instagram.
Helgi komst undir læknishendur í sérstöku læknatjaldi sem er í dalnum á Þjóðhátíð. Læknarnir sem voru á vakt telja að honum hafi verið byrluð ólyfjan. Þótt hann hafi verið efins um að deila þessari reynslu segist hann hafa viljað skila skömminni og líka styðja þá sem hafi upplifað eitthvað svipað.
Helgi segir þessa lífsreynslu hafa kennt sér margt, sérstaklega að fara varlega í skemmtanalífi. Hann hvetur fólk til þess að vera meðvitað.
„Allar heimsins bestu og innilegustu þakkir til gæsluvarða Þjóðhátíðar,“ skrifar Helgi.