Þrátt fyrir að Dorrit Moussaieff, fyrrum forsetafrú, hafi látið þau eftirminnilegu orð falla að Ísland væri „stórasta“ land í heimi þá virðist staðreyndin sú að allir eru skyldir öllum. Smæð Íslands verður einhvern veginn skilmerkilegri þegar litið er til fjölskyldutengsla flottasta fólksins sem landið hefur alið af sér. Stundum fellur eplið ekki langt frá eikinni líkt og sjá má á þessum lista sem Smartland tók saman yfir frambærilegustu feðgin landsins.
Illugi Jökulsson og Vera Illugadóttir
Fjölmiðlamaðurinn og rithöfundurinn Illugi Jökulsson hefur komið víða við í íslensku samfélagi. Illugi hefur lengi starfað við fjölmiðla, fengist við ýmsan skáldskap og gefið út fjöldann allan af bókum. Vera Illugadóttir, fjölmiðlakona, hefur stimplað sig inn sem hlaðvarpsdrottning landsins en hún er umsjónarmaður hlaðvarpsþáttarins Í ljósi sögunnar.
Páll Magnússon og Edda Sif Pálsdóttir
Stjórnmálamanninn og fyrrum útvarpsstjórann Pál Magnússon þekkja flestir landsmenn og Eddu Sif ekki síður. Bæði Páll og Edda Sif hafa sést á sjónvarpsskjám Íslendinga síðustu ár en á meðan Páll hefur alfarið snúið sér að bæjarpólitíkinni í Vestmannaeyjum heldur Edda Sif áfram að færa landsmönnum íþróttafréttir á RÚV.
Björgvin Halldórsson og Svala Björgvinsdóttir
Er það nokkuð ótrúlegt að tveir ástsælustu söngvarar landsins séu feðgin? Þau Björgvin Halldórsson og Svölu Björgvinsdóttur þarf vart að kynna fyrir neinum. Þau tvö eiga hvort sinn ferilinn í tónlistarbransanum hér á landi og sjá til þess að glæða lífi og ljósi í landann með jólatónleikum sínum, Jólagestir Björgvins, ár hvert þegar líða fer að jólum.
Arnar Björnsson og Kristjana Arnarsdóttir
Það er sennilega aldrei leiðinlegt í fjölskylduboðum hjá þeim Arnari Björnssyni og Kristjönu Arnarsdóttur en þau feðginin deila mörgum áhugamálum, líkt og íþróttum. Bæði Arnar og Kristjana hafa fært landsmönnum fréttir af öllu því helsta sem gerst hefur í heimi íþróttanna síðustu ár og starfa þau bæði innan veggja RÚV um þessar mundir.
Kristján Már Unnarsson og Ingunn Lára Kristjánsdóttir
Kristján Már Unnarsson hefur lengi verið einn fremsti fréttamaður á Íslandi og starfar á fréttadeild Stöðvar 2. Dóttir hans, Ingunn Lára Kristjánsdóttir, hefur einnig þreifað fyrir sér á sviði fjölmiðla og starfar nú sem blaðamaður á Fréttablaðinu.
Gunnlaugur Briem og Aníta Briem
Leikkonan Aníta Briem fékk að öllum líkindum tónlistarlegt uppeldi frá föður sínum en pabbi hennar, Gunnlaugur Briem, er einn þekktasti trymbill landsins. Þrátt fyrir það ákvað Aníta að einbeita sér að leiklistinni og hefur verið að gera það gott í kvikmyndaheiminum síðustu ár, hér heima og erlendis. Gunnlaugur er þekktastur fyrir að vera trommuleikari hljómsveitarinnar Mezzoforte og hefur unnið til fjölda verðlauna fyrir trommuslátt sinn í gegnum tíðina.
Árni Hauksson og Arnhildur Anna Árnadóttir
Fjárfestirinn Árni Hauksson og kraftlyftingarkonan Arnhildur Anna Árnadóttir eru svo sannarlega flott feðgin. Gera má ráð fyrir að Arnhildur Anna taki mun fleiri kíló í bekkpressu heldur en pabbi sinn en hún er ein af sterkustu konum Íslands.
Hrafn Gunnlaugsson og Tinna Hrafnsdóttir
Leiklist og leikstjórn hafa litað líf feðginanna Hrafns Gunnlaugssonar og Tinnu Hrafnsdóttur mörgum litum. Leikhús og kvikmyndir hafa verið þeirra ær og kýr undanfarin ár og hafa feðginin glætt íslenskri menningu miklu lífi. Tinna sýndi nýlega frumraun sína sem leikstjóri kvikmyndar í fullri lengd þegar kvikmyndin Skjálfti fór á hvíta tjaldið í íslenskum bíóhúsum og hefur fengið góðar viðtökur.
Atli Eðvaldsson og Sif Atladóttir
Feðginin Atli Eðvaldsson og Sif Atladóttir áttu það sameiginlegt að vera einstaklega leikin með bolta. Atli Eðvaldsson, fyrrum landsliðsþjálfari, fyrirliði og atvinnumaður í knattspyrnu lést árið 2019 eftir erfiða baráttu við krabbamein. Sif fetar í fótspor föður síns og er einn af lykilmönnum íslenska kvennalandsliðsins í knattspyrnu ásamt því að spila fyrir Selfoss í deild þeirra bestu.
Bjarni Benediktsson og Margrét Bjarnadóttir
Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins og Margrét Bjarnadóttir, kokkur, deila áhuga á stjórnmálum. Margrét gaf kost á sér fyrir Sjálfstæðisflokkinn í Garðabæ í síðustu bæjarstjórnarkosningum og náði kjöri. Má því segja að feðginin brenni bæði fyrir að bæta samfélagið og sjálfsagt kunna að skapast líflegar umræður um þjóðmálin þeirra á milli.
Ólafur Stefánsson og Helga Soffía Ólafsdóttir
Handboltakappann og hugsuðinn Ólaf Stefánsson kannast allir við. Þrátt fyrir að Ólafur hafi lagt handboltann á hilluna þá er hann hvergi nærri hættur að hafa áhrif og starfar nú sem kennari. Dóttir hans, tónlistarkonan Helga Soffía Ólafsdóttir, sem oftast er kölluð Heia, gaf út nýtt lag á dögunum sem hefur verið að gera það gott á helstu útvarpsstöðvum landsins. Lagið samdi hún til heiðurs konum sem hafa haft áhrif á hana í lífinu.
Stefán Baldursson og Unnur Ösp Stefánsdóttir
Eplið fellur ekki langt frá eikinni en feðginin Stefán Baldursson og Unnur Ösp Stefánsdóttir eru lifandi dæmi um það. Bæði Stefán og Unnur hafa látið ljós sitt skína á sviði leiklistarinnar en á árunum 1997-2004 var Stefán Þjóðleikhússtjóri. Unnur hefur verið mikið í sviðsljósinu undanfarið og sló hún rækilega í gegn í Verbúðinni síðastliðinn vetur.
Kári Stefánsson og Sólveig Káradóttir
Þrátt fyrir að Kári Stefánsson, forstjóra Íslenskrar erfðagreiningar, sé vafalaust oft og tíðum umdeildur maður þá treystu margir á hann þegar mest lét á tímum heimsfaraldursins. Kári er einn helsti sérfræðingur okkar Íslendinga sem yfirleitt veit sínu viti. Dóttur Kára, Sólveigu Káradóttur, er margt til lista lagt og getur hún skreytt sig mörgum titlum; fatahönnuður, fyrirsæta og sálfræðingur, svo eitthvað sé nefnt. Sólveig hefur verið búsett erlendis um árabil og var gift Bítlasyninum Dhani Harrisson í nokkur ár.
Bogi Ágústsson og Þórunn Elísabet Bogadóttir
Bogi Ágústsson er einn dáðasti frétta- og dagskrárgerðarmaður fyrr og síðar. Þjóðin tók andköf fyrr á árinu þegar Bogi tilkynnti um brotthvarf sitt úr fjölmiðlum eftir 45 ár í starfi, enda er Bogi ódauðlegur í huga þjóðarinnar. Þórunn Elísabet Bogadóttur hefur föður sinn sem sterka fyrirmynd og hefur hún starfað við hina ýmsu fjölmiðla. Til að mynda var hún í hlutverki aðstoðarritstjóra hjá Kjarnanum en starfar nú hjá RÚV, líkt og faðir hennar.