Sara fann ástina aftur eftir andlát Piana

Sara Miller, áður þekkt sem Sara Piana, ætlar að skilja …
Sara Miller, áður þekkt sem Sara Piana, ætlar að skilja Piana-pakkann eftir í fortíðinni. Hún er nýgift og spennt fyrir því hvað framtíðin ber í skauti sér. mbl.is/Kristinn Magnússon

Framtíðin er björt hjá Söru Piana sem flutti hingað heim haustið 2020 eftir tíu ára búsetu í Bandaríkjunum. Eftir nokkur erfið ár eftir fráfall fyrrverandi eiginmanns síns, vaxtaræktarmannsins Rich Piana, segist Sara hafa fundið sjálfa sig aftur. Hún er tekin aftur saman við Chris Miller, og eru þau ný búin að gifta sig og er hún búin að taka upp eftirnafnið Miller. 

Þrátt fyrir að hafa átt góð ár í Bandaríkjunum var Sara komin með algjörlega nóg af lífinu þar eftir allt sem hún þurfti að ganga í gegnum. „Sambandslitin við Rich, mannorðið eyðilagt ásamt því að fá yfir 350 hótanir að fólk ætlaði að drepa mig útaf lygum sem var sagt um mig, það var alveg ömurlegt. Ég gekk í gegnum erfiða tíma eftir andlát hans og allt sem fylgdi því. Ég áttaði mig á því að ég þyrfti að fókusera á sjálfa mig og vinna úr þessu. Mig langaði að fara heim til Íslands og vera nær fjölskyldu minni,“ segir Sara í viðtali við mbl.is. 

Sara segir að lífið sé yndislegt þessa dagana og að hún sé glöð að vera komin aftur heim, hún hafði saknað fjölskyldunnar. „Mér fannst mjög skrítið að koma aftur til Íslands og margt breyst síðan ég fór út. Ég er mikill Ameríkani í mér þannig þessi breyting hefur verið mikil þar sem allt er smærra hér á landi,“ segir Sara. 

Sara er mikill ameríkani í sér og fannst skrítið að …
Sara er mikill ameríkani í sér og fannst skrítið að koma aftur heim til Íslands eftir tíu ár í Bandaríkjunum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Morðhótanir og mannorðið eyðilagt

Samband Söru og Rich Piana vakti mikla athygli á sínum tíma, ekki síst eftir að hann lést skyndilega árið 2017. Leiðir þeirra höfðu skilið fyrir andlátið en sögn Söru voru þau enn gift. Sara bjó í Texas en hann bjó í Flórída með fyrrverandi kærustu sinni Chanel Jansen, sem hann byrjaði aftur með í sömu viku og Sara fór frá honum. 

„Ég og Rich töluðum ekki saman eftir að ég fór frá Kaliforníu því hann var sár og reiður að hjónabandið gekk ekki upp, hann lagði ekkert á sig til að laga það. Hann var stjórnsamur og var mjög erfitt að vera í sambandi með honum því miður, ég bara gat ekki meir. Ég gerði mitt besta en það var aldrei neitt nógu gott. Það er ekki hægt að hjálpa fólki sem vill ekki hjálpa sér sjálft,“ segir Sara.

Sara og Rich Piana.
Sara og Rich Piana.

Samskiptin voru því engin vikurnar fyrir andlátið, en Sara segir að fyrrverandi kona hans Jane hafi unnið fyrir hann á þessum tíma. Hún hafi logið miklu upp á Söru.

„Hún þoldi mig ekki, hún gróf undan sambandinu okkar frá upphafi. Hún var alltaf svo hrædd um að ég myndi taka alla peninga og allt af honum en síðan endaði hún á því að taka allt eftir hann dó með því að falsa erfðaskránna sem að mér skilst að rithandarsérfræðingar hafa staðfest að sé fölsuð,“ segir Sara en erfðaskráin er nú í höndum rannsóknarlögreglu sem rannsakar enn andlát hans. 

Vissi ekki að hann væri á spítala

Rich Piana lá í dái í þrjár vikur á spítala áður en hann lést. Sara vissi ekki að hann væri kominn inn á spítala fyrr en vinafólk þeirra lét hana vita. 

„Jane tók yfirhöndina í öllum málum enda skilur enginn af hverju hann hneig niður né féll frá, þetta er allt talið mjög grunsamlegt. Þegar ég fór frá honum, þá fór Jane í það að losna við mig og lagði inn pappíra til að fá giftinguna okkar ógilda. Af óskiljanlegri ástæðu fékk hún það í gegn. Ég réði því lögmann til að fá ógildinguna afturkallaða þar sem hún átti engan rétt á að skipta sér af okkar sambandi. Þetta var á milli mín og hans. Við vorum því gift þegar Rich féll frá, ég er með gögn því til sönnunar.“

Sara var nánasti ættingi hans þegar hann lést og hefur gert allt til að hjálpa móður hans og fjölskyldu að fá einhver svör varðandi andláti. Hefur hún þurft að skrifa undir eyðublöð til að fá pappíra afhenta og láta rannsóknarlögreglu fá.

Sárar ásakanir

Sara segir að þó þau hafi ekki verið saman þegar hann lést hafi hún brotnað alveg niður. Þrátt fyrir að samband þeirra hafi ekki gengið upp hafi hún viljað honum allt það besta. 

„Ég þurfti ekki bara að ganga í gegnum það að hann hafi fallið frá heldur einnig allan viðbjóðinn sem var sagt um mig í kjölfar þess. Ég er enn að fá hræðileg skilaboð um að ég hafi drepið Rich ásamt því að hafa notað hann fyrir græna kortið, sem er ekki rétt,“ segir Sara.

Þegar Sara lítur til baka er hún stolt af því hvernig hún tókst á við andlátið og allt það sem því fylgdi. 

„Ég gekk í gegnum áföll, reiði, kvíða, þunglyndi og svo að lokum skilning. Mér leið mjög illa á þessum tíma og fór oft ekki úr húsi, vildi ekki gera neitt og fannst eins og ég hafi bara gefist upp. Ég þurfti ekki bara að ganga í gegnum sorgina heldur einnig að mannorð mitt hafi verið eyðilagt af lygum og viðbjóði á netinu. Þetta er mannskemmandi, en núna þegar ég horfi til baka þá er ég stolt af sjálfri mér að hafa komist í gegnum þetta. Þetta ferli er ekki auðvelt en allt er hægt ef viljinn er fyrir hendi og þarf maður að minna sig á að maður fær bara eitt líf og er því mikilvægt að gera sitt besta fyrir sjálfan sig og þá sem maður elskar,“ segir Sara.

„Ég þurfti ekki bara að ganga í gegnum það að …
„Ég þurfti ekki bara að ganga í gegnum það að hann hafi fallið frá heldur einnig allan viðbjóðinn sem var sagt um mig í kjölfar þess. Ég er enn að fá hræðileg skilaboð um að ég hafi drepið Rich ásamt því að hafa notað hann fyrir græna kortið, sem er ekki rétt,“ segir Sara. mbl.is/Kristinn Magnússon

Kom til hennar á miðilsfundi

Sara leitaði sér aðstoðar hjá sálfræðingi og mælir með að fólk leiti til fagfólks eftir áföll, það sé engin skömm í því. 

„Ég fór einnig til miðils, Rich kom í gegn hjá henni og hann baðst afsökunar á því að hafa ekki elskað mig eins og ég hafi átt skilið. Það var ótrúlegt að heyra þetta og gaf það mér frið varðandi svo margt á milli okkar. Eftir þetta erfiða tímabil ákvað ég að láta þetta ekki draga mig meira niður og að Rich hefði viljað að ég myndi gera mitt besta og ná langt í lífinu. Ég reyndi að hugsa um alla þá góðu tíma sem við áttum saman. Þetta gerði mig sterkari og ákvað ég að horfa á þetta með björtum augum,“ segir Sara. 

Hún segist hafa lært mikið á þessum árum og þroskast mikið. Maður þurfi að ganga í gegnum ýmislegt til að geta lært af mistökunum og orðið sú manneskja sem manni er ætlað að vera. 

„Eins og ég segi alltaf, „you live and learn“. Ég væri ekki sú manneskja sem ég er í dag án þessarar lífsreynslu. Það þýðir ekki að lifa í fortíðinni og vorkenna sjálfum sér. Maður þarf að halda áfram með líf sitt og lifa sem besta útgáfan af sjálfum sér.“

Chris Miller og Sara gengu í hjónaband nýlega.
Chris Miller og Sara gengu í hjónaband nýlega.

Skilur Piana-pakkann eftir í fortíðinni

Eftir að Sara fór frá Rich tók hún saman við Chris Miller og voru þau saman í fjögur ár áður en að hún flutti heim. 

„Við Chris tókum saman aftur, við vorum aðskilin í smá tíma þar sem mig langaði heim og þurfti tíma til að vinna í mér en gerðum okkur svo grein fyrir því að við elskum hvort annað af öllu hjarta og getum ekki hugsað okkur að lifa án hvors annars. Það er góð tilfinning að hafa fundið sinn besta vin og sálufélaga til að fara í gegnum lífið með,“ segir Sara og ljóstrar því upp að þau séu nýgift og mjög hamingjusöm. 

„Ég breytti því eftirnafni mínu í Miller og hef því skilið „Piana pakkann“ eftir í fortíðinni. Nú eru nýir og æðislegir tímar framundan.“

„Ég breytti því eftirnafni mínu í Miller og hef því …
„Ég breytti því eftirnafni mínu í Miller og hef því skilið „Piana pakkann“ eftir í fortíðinni. Nú eru nýir og æðislegir tímar framundan.“ mbl.is/Kristinn Magnússon

Stofna fyrirtæki og fjölskyldu

Sara er í viðskiptafræði í Háskóla Íslands en hún hefur alltaf haft mikinn áhuga á viðskiptum og fyrirtækjarekstri. Hún segir námið skemmtilegt og áhugavert og stefnir á að stofna fyrirtæki meðfram skólanum. 

Hvað framtíðin ber í skauti sér segist Sara sjá fyrir sér að eiga alltaf heimili hér á Íslandi, en að þau Chris stefni á að kaupa fasteign í Evrópu og ferðast á milli. Fyrirtæki er ekki það eina sem þau langar til að stofna, heldur langar þau líka til að stofna fjölskyldu, helst sem fyrst. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda