Upplifði versta dag lífsins 24. júlí 2022

Rósa Björk Ásmundsdóttir missti pabba sinn í sumar þegar hann …
Rósa Björk Ásmundsdóttir missti pabba sinn í sumar þegar hann varð bráðkvaddur aðeins 46 ára gamall. mbl.is/Kristinn Magnússon

Rósa Björk Ásmundsdóttir hefur upplifað meira en margir þrátt fyrir að vera ekki nema 25 ára gömul. Í sumar missti hún pabba sinn sem varð bráðkvaddur 46 ára gamall. Í dag býr hún ein með yngri systkinum sínum í íbúð hans í Vesturbænum og er að reyna að finna út úr lífinu með sorgina í bakpokanum. 

Ásmundur Einarsson og Rósa Björk Ásmundsdóttir.
Ásmundur Einarsson og Rósa Björk Ásmundsdóttir.

Rósa Björk var 19 ára gömul fór hún út í heim og lærði leiklist í New York. Síðasta vor kom hún heim því atvinnuleyfið var útrunnið. Þremur mánuðum seinna umturnaðist veröld hennar þegar pabbi hennar varð bráðkvaddur.

Rósa Björk hefur alltaf verið sjálfstæð og þyrst í upplifa heiminn. Hún var ekki nema 19 ára þegar hún flutti til Parísar til að læra leiklist. Hún bjó í borginni í eitt ár en flutti sig svo yfir til New York. Þar hélt hún áfram að læra leiklist og útskrifaðist þaðan 2021. Þegar fólk útskrifast úr leiklistarskóla í New York fær það atvinnuleyfi í eitt ár. Þetta ár nýtti Rósa Björk vel, lék í auglýsingum og vann að listinni með vinum sínum í stórborginni.

„Það er mjög erfitt að koma sér á framfæri. Þess vegna valdi ég að vinna með vinum mínum í verkefnum. Við gerðum til dæmis stuttmynd stuttu áður en ég flutti heim. Ég gerði stuttmyndina með fólki í kvikmyndabransanum og fólki úr skólanum mínum. Myndin verður sýnd á kvikmyndahátíðum hérna heima og líka úti. Við erum til dæmis að sækja um að koma myndinni á Riff,“ segir Rósa Björk og er þá að tala um stuttmyndina Good Mourning.

„Myndin fjallar um sorg en hún er um vinahóp sem missir bestu vinkonu sína. Þessi vinahópur kemur saman í myndinni og ver saman helgi í sumarbústað til að heila sig. Það verða allskyns grátbroslegar uppákomur. Planið var að klára myndina á Íslandi en þetta er samstarf tveggja heima,“ Rósa Björk.

Rósa Björk vinnur úr sorginni í gegnum listina.
Rósa Björk vinnur úr sorginni í gegnum listina. mbl.is/Kristinn Magnússon

Rósa Björk kom heim til Íslands í maí og fór að vinna sem leiklistarkennari í Leynileikhúsinu. Hún ætlaði að nota sumarið til að vinda ofan af sér eftir mikið álag og hark síðustu ára. Hún ákvað til dæmis að sleppa því að vera í tveimur vinnum en síðustu ár hafði hún unnið á Landakoti þegar hún kom heim í sumarfrí. Hún hafði unnið mikið í fríum til að fjármagna skólavistina erlendis. Hlutirnir æxluðust þó öðruvísi en áætlað var.

„Ég átti mjög góðan júní. Í ágúst var Katrín Anna systir mín að fara að keppa í Makadóníu. Planið var að við pabbi myndum horfa á hana spila þar í landi. Ég ætlaði að búa mér til ferð úr þessu. Byrja á því að fara til Frakklands að hitta blóðföður minn og ömmu mína og afa sem búa í Frakklandi,“ segir Rósa Björk. Blóðfaðir hennar hefur aldrei verið stór hluti af tilveru hennar því upp úr sambandi móður hennar og hans slitnaði áður en Rósa Björk fæddist. Maðurinn sem hún kallar pabba heitir Ásmundur Einarsson. Hann kom inn í líf hennar þegar hún var eins og hálfs árs en þá hófu þau móðir hennar ástarsamband. Hún man því ekkert eftir lífinu öðruvísi en með pabba sínum sem er í raun stjúpfaðir hennar.

„Ég er hálffrönsk og kynntist blóðföður mínum ekki fyrr en ég var 18 ára. Þá gekk ég í gegnum mitt fyrsta „breiköpp“ og fór að velta því fyrir mér hvað skipti máli í lífinu. Mamma hafði nefnt við mig að ég gæti haft samband við blóðföður minn ef ég vildi. Ég fann hann á Facebook og hafði samband við hann. Ég var í MH á þessum tíma og úr varð að móðuramma mín og móðurafi fóru með mér til Parísar. Þetta var árið 2016 en þar hitti ég blóðföður minn í fyrsta skipti. Það var mjög vandræðalegt og óraunverulegt. Ég tengdi ekkert við hann,“ segir hún.

Rósa Björg Ásmundsdóttir og Ásmundur Einarsson.
Rósa Björg Ásmundsdóttir og Ásmundur Einarsson.

Blóðfaðir Rósu Bjarkar og móðir hennar kynntust þegar þau voru 18 ára. Móðir hennar hafði farið til Frakklands á vit ævintýranna til að læra frönsku. Samband þeirra endist ekki lengi og þegar Rósa Björk var eins og hálfs árs kynntist móðir hennar Ásmundi sem er að hennar mati hennar raunverulegi faðir. Rósa Björk eignaðist svo tvö systkini þegar Ásmundur og móðir hennar eignuðust tvö börn sem eru í dag 21 árs og 18 ára. Þau heita Einar og Katrín Anna. Samband móður hennar og Ásmundar entist þó ekki. 

„Þau skilja þegar ég er 13 ára og í byrjun vorum við systkinin viku hjá mömmu og viku hjá pabba. Svo gengur mamma í gegnum tímabundna erfiðleika og hafði ekki tök á því að vera aðra hvora viku með okkur systkinin. Úr verður að við fluttum öll þrjú til pabba. Mamma eignaðist síðan litla bróður okkar Ara og flytur með honum og barnsföður sínum til Danmerkur,“ segir Rósa Björk.

Ásmundur var nýbyrjaður aftur í hestunum þegar hann varð bráðkvaddur …
Ásmundur var nýbyrjaður aftur í hestunum þegar hann varð bráðkvaddur í hesthúsinu 24. júlí í sumar.

Eitthvað óþægilegt í loftinu

Rósa Björk á afmæli 10. júlí og hélt upp á afmælið sitt hérlendis í sumar áður en hún fór til Suður Frakklands til að heimsækja blóðföður sinn.

„Áður en ég fór í ferðina gaf pabbi mér stressbolta í afmælisgjöf því hann fann að mér leið ekki nógu vel. Við pabbi vorum alla tíð mjög náin og vorum bestu vinir. Ég hef alltaf verið svolítið kvíðin en á þessu augnabliki áður en ég lagði af stað í ferðalagið fann ég allt aðra tilfinningu en ég hafði fundið áður,“ segir Rósa Björk. Hún veitti því þó ekki athygli og hélt sínu plani.

Júlí leið og hún lagði af stað í ferðalagið til Frakklands til þess að hitta blóðföður sinn. Þann 24. júlí átti hún pantaða lestarferð frá Suður Frakklandi til Sviss þar sem hún ætlaði að hitta frænda sinn áður en hún færi til Makedóníu að hitta pabba sinn og systur sína. Hún var með símann uppi í herbergi á meðan hún naut síðasta kvöldverðarins með frönsku fjölskyldunni sinni áður en hún héldi ferðalaginu áfram. Það næsta sem gerist er að blóðfaðir hennar fær skilaboð frá frænku Rósu Bjarkar þess efnis að hún þurfi nauðsynlega að ná í hana. Rósa Björk segir að hún hafi strax vitað að eitthvað hræðilegt hefði komið fyrir. Hún hringir í frænku sína og þá eru henni færð þau tíðindi að pabbi hennar sé látinn.

„Pabbi var nýbyrjaður í hestamennsku aftur. Hann hafði verið mikill hestamaður og var nýbúinn að koma sér upp hestum í sveitinni sinni. Hann var einmitt staddur þar ásamt Katrínu systur minni og frænda mínum þegar hann verður bráðkvaddur,“ segir Rósa Björk. Hún þagnar í örlitla stund áður en hún heldur áfram. 

„Þegar ég fékk þessar fréttir hneig ég niður. Það sem er svo furðulegt er að þegar ég fékk þær fréttir að pabbi minn væri látinn, mikilvægasti maðurinn í lífi mínu, þá var ég stödd heima hjá blóðföður mínum. Manninum sem hafnaði mér og var aldrei inni í myndinni þegar ég var lítil. Hann tók mig í fangið og hélt utan um mig þegar ég var að syrgja manninn sem kom í hans stað.

Rósa Björk, Einar, Ásmundur og Katrín Anna.
Rósa Björk, Einar, Ásmundur og Katrín Anna.

Þessi minning þegar blóðfaðir minn er með mig í fanginu að reyna að hugga mig er svo súrrealísk. Þessi maður átti ekki að vera að hugga mig á versta augnabliki lífs míns,“ segir Rósa Björk og við tárumst báðar við þessa upprifjun.

Næstu klukkustundir eru þokukenndar í minningunni. 

„Ég bara grét og fannst ég ekki geta gert neitt. Þegar ég heyrði í systkinum mínum fann ég fyrir drifkrafti. Ég varð að komast heim. Ég fór beint í tölvuna og keypti lestarmiða til Parísar og flugmiða frá París til Íslands. Ég tróð bara öllu ofan í tösku en framundan var tíu tíma ferðlag. Ég gat ekki sofið og var því alveg stjörf á leiðinni. Einhvern veginn var eins og tíminn stæði í stað en samt ekki. Ég var í svo miklu sjokki. Mér leið eins og ég væri að horfa á sjálfa mig utan frá. Þegar ég kom loksins heim eftir þetta hræðilega ferðalag var allt breytt,“ segir hún.

Hér er Rósa Björk ásamt föður sínum og systkinum fyrir …
Hér er Rósa Björk ásamt föður sínum og systkinum fyrir nokkrum árum.

Sjálfstæði ofar öllu

Rósa Björk hefur alltaf verið mjög sjálfstæð. Hún veigraði sér ekki við að fara út í heim 19 ára til þess að elta draumana sína. Hún var meira og minni erlendis frá 19 ára aldri þar til hún kom heim síðasta sumar. Á þessum tíma bjó hún ýmist hjá pabba sínum og móðurömmu sinni þegar hún var á landinu. Í dag býr hún í íbúð föður síns ásamt systkinum sínum tveimur. Rósa Björk segir að staðan á lífi þeirra systkinanna sé skrýtin. 

„Ég finn að það er komið nýtt hlutverk fyrir alla. Þótt bróðir minn sé 21 árs og systir mín 18 ára þá finnst mér ég þurfa að bera ábyrgð á þeim. Við þrjú búum saman á heimilinu hans pabba og þótt það fari vel um okkur þá er þetta svolítið skrýtið um leið. Ég finn að ég vil bara vera á Íslandi núna og allir sem þekkja mig vel vita að þetta er mjög mikið út úr karakter,“ segir hún.

Aðspurð að því hvernig þau systkinin dragi andann segir hún að þau lifi á styrktarreikningi og svo vinnur hún við listsköpun. 

„Við héldum styrktarleik í Gróttu í sumar. Þá söfnuðust peningar inn á styrktarreikning. Fólk hefur verið mjög gjafmilt við okkur. Þessi reikningur mun hjálpa okkur í nokkra mánuði en það er mjög erfitt að vera í þessum aðstæðum. Auðvitað er heimilið hans pabba okkar heimili og það er gott að vera í nánd við orkuna hans. En við getum þó ekki lifað svona til lengri tíma,“ segir Rósa Björk. 

Rósa Björk var mjög náin föður sínum og sá ekki …
Rósa Björk var mjög náin föður sínum og sá ekki sólina fyrir honum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Talið berst að sorginni sem er í eðli sínum flókin og oftar en ekki óyfirstíganleg. Sérstaklega til að byrja með. Rósa Björk og systkini hennar hafa upplifað mikinn harm eftir að pabbi þeirra féll frá í blóma lífsins. Þegar hún er spurð að því hvernig hún hafi tekist á við sorgina segir hún að listsköpun hjálpi henni. Hún játar að þú þurfi að fá faglega hjálp til að halda áfram að vinna í missinum. 

„Ég er að vinna úr sorginni í gegnum listina. Ég er að kanna í Leynileikhúsinu og Dýnamík Sviðslistaskóla. Svo fékk ég úthlutað úr tónskáldasjóði Stef til þess að búa til tónlist sem ég er að vinna í með Hildi tónlistarkonu. Við byrjuðum að vinna saman áður en ég fór til Frakklands. Þá var viðlagið tilbúið og ég gerði hráan texta svo hún gæti haldið áfram með lagið. Ég sagði við hana að ég myndi örugglega fá innblástur í Frakklandi,“ segir Rósa Björk. 

Áður en hún fór til Frakklands sýndi hún pabba sínum lagið en þá var hún búin að taka upp demó. 

„Svo fór ég út og pabbi deyr,“ segir Rósa Björk og bætir við: 

„Annars skiptir mestu máli að ég yfirkeyri mig ekki. Ég er meðvituð um það. Ég finn að attitútið mitt er orðið meira svona kærulausara en ekki endilega á neikvæðan hátt. Ég er ennþá meðvirk þeim sem ég elska heitt og elska mína nánustu dýpra ef það er hægt, en á sama tíma hef ég minni þolinmæði fyrir kjaftæði og óþarfa drama. Lífið er núna,“ segir hún. 

Rósa Björk segir að síðustu mánuðir hafi verið eins og rússíbanaferð. 

„Að horfa til baka er alltaf sárt en líka sætt í leiðinni. Hver einasti staður sem ég sé og á minningu um, tengi ég við pabba. Það er eins og hugur minn leiti af honum handan við hvert horn. Það er gott en líka það erfiðasta sem ég hef gengið í gegnum. Að hugsa til þess að ég skrifi handrit af stuttmynd sem fjallar um að takast á við sorgina, komi síðan heim og hefji skrif á lagi um að finna tilgang lífsins án þinnar uppáhaldsmanneskju og segi próduserinum mínum Hildi að ég sé handviss um það að ég fái innblástur úr Frakklands ferðinni minni til að klára það; Þessi runa af atburðum sem leiðir síðan að versta degi lífs míns þann 24.júlí er mest yfirþyrmandi ástand sem ég hef upplifað,“ segir Rósa Björk. Hún ætlar ekki að gefast upp og ekki leggja árar í bát. Hún ætlar að halda áfram að lifa. Nú er hún til dæmis að vinna að nýju íslensku jólalagi með dúettinum sínum heró. Þar er súrleiki og sætleiki jólanna í forgrunni. Jólin endurspegla oftar en ekki lífið sjálft sem getur verið allskonar og umturnast á einum degi eins og Rósa Björk þekkir sjálf. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda