Fjölmiðlahjónin Snærós Sindradóttir og Freyr Rögnvaldsson eru gestir í hlaðvarpinu Betri helmingurinn með Ása. Snærós starfar á Rúv en Freyr er blaðamaður á Stundinni. Þau kynntust í rútu fyrir 14 árum og Snærós segir að það hafi ekki orðið aftur snúið.
„Við kynntumst í rútu,“ segir Snærós og lýsir því hvernig henni leið þegar hún sá Frey fyrst.
„Það þyrmdi yfir mig. Þennan mann verð ég að fá,“ segir hún og segist aldrei hafa efast. Hún segist muna nákvæmlega í hverju hún var, í hverju hann var, og segir að það hafi verið mjög mikið út úr karakter hjá þeim báðum að vera stödd í teiti í rútu. En allt getur gerst.
Í þættinum ræða þau allt milli himins og jarðar. Þau tala um verkaskiptingu á heimilinu, fjölmiðlana og hvernig þau láta hlutina ganga sem best með ástina í forgrunni.
Hægt er að hlusta á þáttinn í heild sinni á hlaðvarpsvef mbl.is.