Tónlistarmaðurinn Jón Jónsson og Hafdís Björk Jónsdóttir tannlæknir eru búin að vera kærustupar í 20 ár. Frá þessu greinir Jón á Instagram og skrifar fallega um eiginkonu sína.
„Hún er minn stærsti stuðningsmaður og harðasti gagnrýnandi. Togar mig á hærra plan og gerir mig betri á allan hátt. Elska þig, ástin mín,“ skrifar Jón á Instagram.
Ást þeirra Jóns og Hafdísar hefur svo sannarlega borið ávöxt, nánar tiltekið fjóra, en þau eignuðust sitt fjórða barn saman á þessu ári, soninn Friðrik Nóa. Fyrir áttu þau Jón Tryggva, Mjöll og Sigríði Sól.
Jón og Hafdís fögnuðu fimm ára brúðkaupsafmæli á þessu ári. Þau gengu í það heilaga í Dómkirkjunni árið 2017.
Smartland óskar þeim til hamingju með ástina!