Konan sem höfðaði mál gegn Eddu Falak vegna birtingar hljóðbrots í hlaðvarpsþáttunum Eigin konur kvartaði til fjölmiðlanefndar vegna hljóðbrotanna í september á síðasta ári. Þetta staðfestir lögmaður konunnar við mbl.is
Hefur kvörtun hennar legið inni á borði fjölmiðlanefndar síðan þá en nefndin tók þá ákvörðun að fresta því að taka efnislega afstöðu í málinu þar til niðurstaða dómstóla í máli konunnar gegn Eddu lægi fyrir.
Óskaði konan eftir því að fjölmiðlanefnd tæki ákvörðun um að banna miðlun þáttarins á grundvelli 52. gr. laga um fjölmiðla. Til vara óskaði konan eftir því að nefndin myndi banna spilun á upptökunum, sem hún telur hafa verið aflað með ólögmætum hætti.
Í dómsmáli sínu gegn Eddu krefst konan fimm milljóna í skaðabætur vegna birtingar upptökunnar, sem hún telur brjóta gegn friðhelgi einkalífs síns.