Lögmaður konu, sem höfðað hefur skaðabótamál gegn Eddu Falak, telur endurbirtingu á tilteknu hljóðbroti úr þáttum Eddu vera sjálfstætt brot sem leitt geti til refsi- og bótaábyrgðar hjá þeim sem endurbirtir hljóðbrotið.
Lögmaður konunnar sendi áhrifavaldinum Helga Ómarssyni skilaboð eftir að hann deildi umræddu hljóðbroti á Instagram. Helgi endurbirti svo skilaboð lögmannsins hjá sér.
Konan er móðir konu sem fór í viðtal hjá Eddu Falak á síðasta ári. Í þættinum var spilað hljóðbrot af samskiptum mæðgnanna og því deilt á samfélagsmiðlum þáttanna sömuleiðis.
Telur konan að birting þess sé brot á friðhelgi einkalífs hennar og að samræður þeirra séu teknar úr samhengi.
Fer hún fram á fimm milljónir króna í miskabætur frá Eddu Falak vegna birtingarinnar, en hefur ekki farið fram á við hana að það verði tekið út úr viðtalinu eða samfélagsmiðlum.
Helgi Ómars tjáði sig um málið í gær og gagnrýndi harðlega málarekstur konunnar gegn Eddu.