Páskarnir snúast um að slaka á og njóta hjá Laufeyju Haraldsdóttur leikkonu og spurningahöfundi í Gettu betur. Um páskana finnst henni ómissandi að borða páskaegg úr mjólkursúkkulaði og málsháttur með góðum boðskap klikkar heldur ekki.
Hvað ætlar þú að gera um páskana?
„Ekkert sérstakt planað, líklega borða góðan mat með góðu fólki.“
Hvað borðar þú í morgunmat?
„Venjulega fæ ég mér bara það sem mig langar í, til dæmis Cheerios, ristað brauð eða smoothie. Um páskana fæ ég mér oftast líka bita af páskaeggi í morgunmat.“
Hvaða borg er í uppáhaldi hjá þér?
„London er í miklu uppáhaldi því ég bjó þar í mörg ár og á góða vini þar. Þar er líka lestarkerfi, sem gerir allar borgir betri.“
Ef þú gætir farið hvert sem er um páskana hvert væri ferðinni heitið?
„Til Nýja-Sjálands.“
Hvað gerir þú til að halda þér í formi?
„Jóga og gönguferðir. Svo kíki ég stundum í ræktina eða sund ef ég nenni.“
Áttu uppáhaldsflík?
„66 Norður-flíspeysan er í miklu uppáhaldi því ég er svo mikil kuldaskræfa.“
Hvaða þætti ertu að horfa á?
„Daisy Jones & the Six.“
Hvaða bók er á náttborðinu þínu?
„Lessons in Chemistry eftir Bonnie Garmus.“
Hvaða hlutur er ómissandi í þínu lífi?
„Síminn er því miður nánast gróinn fastur við höndina á mér.“
Gönguskíði eða svigskíði?
„Svigskíði. Ég hef farið á skíði um páska einhvern tímann, í Hlíðarfjalli ef ég man rétt.“
Páskaegg úr mjólkursúkkulaði eða dökku súkkulaði?
„Mjólkursúkkulaði, auðvitað!“
Áttu uppáhaldsmálshátt?
„Það eru svo margir klassískir! Enginn verður óbarinn biskup er alltaf skemmtilega skrítinn. Blindur er bóklaus maður er líka með góðan boðskap, mikilvægt að lesa til að skilja heiminn betur.“