Sigvaldi Kaldalóns, eða Svali eins og hann er jafnan kallaður, var þekktur fjölmiðlamaður þegar hann ákvað að flytja til sólríku eyjunnar Tenerife sem er við Afríkustrendur. Í desember 2017 flutti Svali út með eiginkonu og börn. Síðan þá hefur hann rekið fyrirtækið Tenerifeferðir þar sem hann ferðast með fólk um eyjuna. Nú er komið að kaflaskilum því það eru ekki allir í fjölskyldunni jafnánægðir og hann sjálfur.
„Þetta er búinn að vera algjörlega frábær vetur hjá okkur í fyrirtækinu. Aldrei farið með jafn marga farþega og núna á þessum fyrri hluta ársins og hlutirnir líta vel út þar.
En annað gildir um drengina, þeir eru eiginlega alveg búnir að fá nóg af Tenerife og vilja komast heim til Íslands. Skiljanlega, þeir eru svo sannarlega búnir að láta á þetta reyna og því okkur bæði ljúft og skylt að leyfa þeim að fara heim,“ segir Svali á Facebook-síðu sinni.
Hann nefnir að synirnir séu spenntir fyrir menntaskóla og bílprófum sem þýði breytingar á högum hans.
„Þetta þýðir flakk hjá mér fram og til baka á þessu ári. Stoppa reyndar í tvo góða mánuði í sumar á klakanum og ætlum við að reyna að ferðast eins og hægt er á þeim tíma og njóta íslenskrar náttúru.“
Svali segir frá því að Jóhanna eiginkona hans sé að byrja að klippa aftur en hún er hárgreiðslukona að mennt.
„Jóhanna er að byrja að klippa aftur á Unique og ég verð með annan fótinn á Bylgjunni í vor og sumar. Starfa auðvitað áfram með fyrirtækið en með öðru sniði en verið hefur. Þannig að aftur verða hlutirnir aðeins í lausu lofti en það er allt í góðu, við erum að verða nokkuð vön því,“ segir hann.