Tónlistarmaðurinn Patrik Atlason fékk afa sinn til liðs við sig þegar hann kynnti nýjan umboðsmann sinn í dag. Afinn er enginn annar en Helgi Vilhjálmsson, sem yfirleitt er kallaður Helgi í Góu. Hann hefur sett svip sinn á samfélagið síðan hann hóf viðskipti enda framleitt allt sem fólk elskar að háma í sig eins og kúlur, hraun og lakkrís.
Patrik nýtur vinsælda sem tónlistarmaður og leggur mikið upp úr því að vera flottastur. Í viðtali við Smartland á dögunum sagði hann frá því að hann vilji aldrei vera eins og fífl til fara.
„Ég reyni að klæða mig þannig að ef einhver næði mynd af mér þá væri ég ekki eins og fífl. Það er erfiðast í vinnunni. Ég vinn hjá fjölskyldufyrirtækinu Góu,“ sagði Patrik í viðtali við Smartland nýlega um fatastílinn og tók fram að hann væri barnabarn Helga í Góu. „Það er erfitt að vera í vinnunni í fersku „outfitti“.“
Birgitta Líf Björnsdóttir er kynnt sem nýr umboðsmaður Patriks og er faðir hennar, Björn Leifsson eigandi World Class, einnig í mynd. Segja má að þarna séu fjölskylduveldi að renna saman í eina sæng. Bifreið Björns Leifssonar kemur einnig við sögu í myndbandinu en hann er skráður eigandi ökutækisins sem Birgitta Líf keyrir um á eins og kom fram á Smartlandi fyrir nokkrum árum.