Undanfarna mánuði hafa verið töluverðar breytingar í fjölmiðlaheiminum. Árið byrjaði á því að Fréttablaðið hætti dreifingu, sem varð til þess að blaðið varð gjaldþrota í lok mars ásamt sjónvarpsstöðinni Hringbraut. Sjónvarpsstöðin N4 á Akureyri hætti útsendingum og Kjarninn og Stundin sameinuðust undir nafni Heimildarinnar. Á meðan fjölmiðlar sameinast, hætta eða fara í gjaldþrot, eru miklar mannabreytingar á öðrum fjölmiðlum. Tímaritið Vikan er gott dæmi um það.
Síðasta sumar var Steingerði Steinarsdóttur sagt upp störfum sem ritstjóra Vikunnar. Hún hafði gegnt ritstjórastarfinu í áratug og verið farsæl í starfi.
„Ég átti ekki von á þessu,“ sagði Steingerður í samtali við mbl.is síðasta sumar.
Eftir að Steingerði var sagt upp sem ritstjóra Vikunnar síðasta sumar virðist engin tolla í starfinu. Guðrún Óla Jónsdóttir var ráðin ritstjóri eftir að Steingerður hætti, en hún sagði starfi sínu lausu um síðustu áramót.
Þá var Valgerður Gréta Gröndal ráðin sem ritstjóri. Samkvæmt heimildum Smartlands er hún hætt. Á meðan hver ritstjórinn á fætur öðrum labbar út af Vikunni, auglýsir blaðamaður eftir samstarfsmanni í lokuðum hópi á félagsmiðlinum Facebook.
„Ég er að leita að blaðamanni til að vinna með mér á ritstjórn hjá Vikunni í 100% vinnu. Blaðið er búið að vera í mikilli uppbyggingu hjá mér síðustu mánuði, bæði hvað varðar útlit og efnistök. Langar mig að halda því áfram með manneskju sem hefur gott auga, en er einnig góð í mannlegum samskiptum og skrifum til að geta skapað áhugavert og sterkt efni fyrir blaðið. Ef þú heldur að þetta gæti verið þú, eða einhver sem þú þekkir, máttu endilega senda mér línu,“ skrifar blaðamaðurinn.