Stærsti draumurinn að giftast Hilmari

Sandra Björg Helgadóttir og Hilmar Arnarson giftu sig síðata sumar.
Sandra Björg Helgadóttir og Hilmar Arnarson giftu sig síðata sumar. Ljósmynd/Eygló Gísla

Þjálfarahjónin Sandra Björg Helgadóttir og Hilmar Arnarson kynntust í iðnaðarverkfræði í Háskóla Íslands. Hjónin sem búa í Bandaríkjunum giftu sig á Íslandi á blautum en fallegum föstudegi síðastliðið sumar. Sandra er stofnandi Absolute Training og
stundar MBA-nám í Los Angeles. Hún segir að upphaflega hugmyndin hafi verið að ganga í hjónaband í Kaliforníu.

„Við byrjuðum að skoða mögulega staði hérna í LA og fundum nokkra sem heilluðu okkur, til dæmis í Santa Barbara, en þegar við fórum að stíga fyrstu skrefin í að spyrjast fyrir og þess háttar, þá varð þetta ansi bandarískt og við tóku langir spurningalistar og mikið ferli. Ég prófaði einn daginn að senda á Sjáland og Háteigskirkju, og fékk svar samdægurs um verð og allar upplýsingar. Ég fann fyrir svo miklum létti og fann á þeim tímapunkti að það væri það rétta í stöðunni fyrir okkur. Eftir fyrsta árið okkar hérna úti fór söknuður til vina og ættingja líka að segja til sín og við urðum alltaf ánægðari og ánægðari með ákvörðunina um að halda brúðkaupið á Íslandi því okkur langaði að sem flestir myndu komast, og það er jú gefið að forföll eru meiri í brúðkaup erlendis og hvað þá til LA,“ segir Sandra um ákvörðunina að halda heim til Íslands og fagna ástinni þar.

Hilmar og Sandra í brúðkaupsveislunni sem fór fram á föstudegi.
Hilmar og Sandra í brúðkaupsveislunni sem fór fram á föstudegi. Ljósmynd/Eygló Gísla

Var í draumakjólnum í kirkjunni

Hvernig var undirbúningurinn fyrir stóra daginn?

„Undirbúningurinn hjá okkur hófst sennilega svona tíu mánuðum fyrir brúðkaup, þó ég hafi verið að undirbúa þetta í huganum í 25 ár. Þetta fór mjög hægt af stað hjá okkur, en í janúar fórum við að leggja meiri tíma í undirbúning, brúðkaupið fór fram 22. júlí 2022. Ég er með bloggsíðu, sandrahelga.com, þar sem ég hef sett inn blogg um undirbúningsferlið okkar og fleiri skemmtilegar upplýsingar um brúðkaupið. Mér finnst rosalega gott að skipuleggja svona hluti vel og reyna að vera tímanlega. Ég var með Excel-skjal sem ég studdist við sem ég útbjó út frá helstu bloggfærslum sem ég fann. Sólrún Diego er náttúrulega snillingur í to-do-listunum svo ég studdist við hennar lista og bætti einhverju við sem átti við hjá okkur.“

Sandra segir að þau hafi verið með mjög sterkar skoðanir um hvernig allt ætti að líta út. Það hafði auk þess sína kosti að vera í LA meðan á undirbúningnum stóð, þangað sótti hún hugmyndir sem og á Pinterest. „Við sáum til dæmis grasveggi, ljósaskilti, arkir og fleira sem við vildum vera með í brúðkaupinu. Mér fannst persónulega ótrúlega gaman að undirbúa þetta í útlöndum. Það gerði okkur kleift að panta allskonar skemmtilegt frá Amazon og öðrum minni verslunum sem sérhæfa sig í svona persónulegum brúðkaupsvarningi. Við keyptum sérmerkt glös fyrir okkur brúðhjónin, ljósaskilti, gras á grasveggina, slæður til að skreyta örkina og margt fleira. Enda fórum við með fimm fullar ferðatöskur heim.“

Kjóllinn og slörið er frá Galia Lahav.
Kjóllinn og slörið er frá Galia Lahav. Ljósmynd/Eygló Gísla

Hvernig gekk að velja föt fyrir svona mikilvægan dag?

„Það gekk mjög vel á endanum en byrjaði brösuglega hjá mér. Ég byrjaði greinilega aðeins of seint að leita mér að kjól miðað við hina hefðbundnu amerísku brúði. Það jók töluvert stressið hjá mér og ég endaði með nokkra kjóla sem kom sér þó vel á stóra deginum. Ég endaði með að vera í fimm kjólum, aðallega vegna þess að það rigndi svo svakalega á okkur í myndatökunni, svo vorum við dregin út í aðra myndatöku á Sjálandi og þá blotnaði kjóll númer tvö. Svo ég var komin í þriðja kjólinn fyrir fyrsta dansinn. Við vinkonurnar vorum síðan með smá dansatriði þar sem ég skellti mér í stuttan kjól og endaði svo í kjól sem ég kalla „midnight gown“.

Við vorum svo lánsöm að fá gesti til okkar til LA en Arnfríður systir mín kom út og hjálpaði mér við valið. Svo komu bestu vinir okkar, Tara og Elfar, sem fóru með okkur sitt í hvoru lagi að taka lokaákvörðunina og gefa góð ráð. Ég hefði mjög mikið verið til í að hafa mömmu með og fleiri vinkonur en þær fengu myndbönd og myndir í staðinn. Þetta er svo skemmtilegt ferli og ég mæli eindregið með að njóta sem mest og hafa gaman af.

Kjóllinn, skórnir og slörið sem ég var í þegar ég gekk upp að altarinu er frá Galia Lahav sem var algjörlega draumakjóllinn minn og slörið sem fylgdi honum toppaði algjörlega heildarmyndina. Hilmar keypti sín föt í Suit Supply hérna í LA.“

Sandra áður en herlegheitin hófust.
Sandra áður en herlegheitin hófust. Ljósmynd/Eygló Gísla

Veislan einn stór hápunktur

Þóra Björg Sigurðardóttir prestur gaf Söndru og Hilmar saman og var athöfnin persónuleg og skemmtileg. „Ég mun aldrei gleyma sjóninni þegar kirkjan opnaðist og ég var að fara að ganga inn kirkjugólfið. Ég hef aldrei séð eins fallegan hóp af fólki. Það voru allir svo fínir og í svo litríkum fallegum fötum. Mér fannst í rauninni koma á óvart hvað athöfnin var skemmtileg. Þóra Björg frænka mín er prestur og gaf okkur saman, hún skapaði alveg einstaklega gott andrúmsloft og mikla gleði í athöfninni. Hún hafði óskað eftir texta um okkur frá vinum okkar og heitum frá okkur hvoru til annars. Þessir litlu hlutir gera svo ótrúlega mikið,“ segir Sandra.

Kampavínsturn beið hjónanna þegar þau mættu í veisluna.
Kampavínsturn beið hjónanna þegar þau mættu í veisluna. Ljósmynd/Eygló Gísla

Í veislunni var boðið upp á gott partí en það var ekki síst framlag fjölskyldu og vina sem gerði hana að eftirminnilega. „Þegar ég hugsa um veisluna var hún bara einn risastór hápunktur. Það er nánast ómögulegt að velja eitthvað eitt. Það sem stendur upp úr er dásamlegt skemmtiatriði þar sem pabbi og systkini mín dönsuðu við uppáhaldslögin mín. Við Tara höfum dansað saman í mörg ár og hún hafði tekið fjölskylduna í danskennslu fyrir þetta atriði og þau dönsuðu og sungu eins og þau væru stórstjörnur, sem þau eru í mínum huga. Svo fannst mér alveg magnað augnablik þegar við mættum á Sjáland, í veisluna sjálfa, það stóðu allir og biðu eftir okkur, með kampavínsturn til að hella í og allt í sápukúlum. Það er svo fallegt hvað allir leggja sig fram við að gera þennan dag fullkominn fyrir brúðhjónin. Þegar við komum inn í sal hélt Hilmar svo skemmtilega ræðu og bauð alla velkomna og rifjaði upp þegar hann hitti pabba í fyrsta sinn. Það var ótrúlega skemmtileg byrjun á veislunni.“

Fjölskyldan var með óvænt dansatriði.
Fjölskyldan var með óvænt dansatriði. Ljósmynd/Eygló Gísla

Voruð þið með það ofarlega í huga hvernig gestirnir myndu skemmta sér?

„Ég viðurkenni að ég átti erfitt með að gefa veislustjórahlutverkið alveg frá mér því mér finnst mjög mikilvægt í svona veislu að gestirnir njóti sín vel. Það var því mikið lagt í að skoða niðurröðun á borð, skipulagið á dagskránni og þess háttar.“

Dansað var fram á nótt.
Dansað var fram á nótt. Ljósmynd/Eygló Gísla

Skipta góðir veislustjórar máli?

„Já heldur betur. Við vorum með bestu vini okkar, Ester og Árna Björn, sem veislustjóra sem stýrðu þessu svo ótrúlega vel, og þau eru svo fáránlega skemmtileg að við vissum að þetta myndi ekki klikka. Þau létu án efa alla okkar drauma rætast á þessum degi og sáu til þess að allt gekk eftir áætlun. Þetta er ekki auðvelt hlutverk en kúnstin er að láta brúðhjónin ekki þurfa að hafa áhyggjur af neinu þannig að þau fari nánast eins og strengjabrúður í gegnum daginn. Þeim tókst það stórkostlega og voru með öll smáatriði úthugsuð.“

Hjónin fengu góðar hugmyndir erlendis.
Hjónin fengu góðar hugmyndir erlendis. Ljósmynd/Eygló Gísla

Fóru í slökun daginn eftir

Fékkstu einhver góð ráð fyrir daginn sem nýttust sérstaklega vel?

„Heimsins besta ráðið er að það er allt eins og það á að vera. Ég mæli með að stunda sjálfsvinnu í gegnum undirbúningsferlið, hvort sem það er að skrifa í dagbók, stunda jóga, fara til sálfræðings eða vera í þjálfun hjá Absolute Training. Brúðkaup og brúðkaupsferli er mjög tilfinningarík upplifun. Það getur margt komið manni úr jafnvægi svo það er mikilvægt að vera með verkfæri sem maður getur gripið í til að njóta hverrar stundar sem best. Ég myndi byrja snemma á að finna kjól. Svo myndi ég bóka það mikilvægasta í tæka tíð. Það er mjög róandi og gefur manni rými til að njóta þess að dúllast í smáatriðunum.

Ég verð að gefa Rúrý það að hún gaf okkur besta ráðið, að færa brúðkaupsnóttina, það er að segja hótelgistinguna, á nóttina eftir brúðkaupið. Við giftum okkur á föstudegi, sem var æðislegt og dönsuðum til þrjú um nóttina. Eftir það fórum við heim og vöknuðum heima daginn eftir. Þaðan fórum við á Edition í Reykjavík í þriggja rétta kvöldverð, skoðuðum gestabókina og myndir frá brúðkaupsdeginum. Daginn eftir fórum við í morgunmat, nudd og spa. Þetta var alveg dásamlegt og lengdi brúðkaupsupplifunina um rúmlega sólarhring. Eftir nudd og dekur tékkuðum við út og fórum heim að opna allar gjafirnar yfir pizzu og rauðvíni.“

Það rigndi á hjónin í myndatökunum svo Sandra skipti um …
Það rigndi á hjónin í myndatökunum svo Sandra skipti um föt. Hún var sem betur fer með auka kjóla. Ljósmynd/Eygló Gísla

Sandra hvetur fólk til þess að láta drauma sína rætast á brúðkaupsdaginn, smáa sem stóra. „Hvort sem það er að vera með kampavínsturn eða vera í fimm kjólum. Ef þú átt þér brúðkaupsdrauma, þá er þetta þinn dagur til að láta þá alla verða að veruleika. Minn stærsti draumur var þó að fá að giftast Hilmari, draumaprinsinum mínum, og í samanburði við það voru allir hinir draumarnir smáatriði,“ segir Sandra.

Hjónin fóru á Edition daginn eftir.
Hjónin fóru á Edition daginn eftir. Ljósmynd/Eygló Gísla
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda