Heilsuræktarparið Ingi Torfi Sveinsson, stofnandi ITS macros, og Linda Rakel Jónsdóttir, framkvæmdastjóri fyrirtækisins, gengu í hjónaband á laugardaginn var. Hjónin hafa verið áberandi í heilsugeiranum en þau hjálpa fólki að létta sig með því að fylgjast með neyslu á aðalorkuefnum líkamans, þ.e. próteini, kolvetnum og fitu, sem á ensku eru oft nefnd macros.
Brúðkaupið fór fram í Golfskálanum á Akureyri. Upphaflega ætluðu hjónin að láta gefa sig saman fyrir utan veislusalinn en þá fór að rigna. Athöfnin var því færð inn í salinn þar sem veisluhöld fóru fram eftir athöfnina sjálfa.
Útvarpsstjarnan á K100, Kristín Sif Björgvinsdóttir, var veislustjóri í brúðkaupinu ásamt Ásdísi Elvu. Þær stýrðu veislunni með glæsibrag. Svo komu Friðrik Dór, Stebbi Jak og Greta Salóme og héldu uppi stuðinu.