Arnar Gauti endurhannar B5

Arnar Gauti Sverrisson mun endurhanna B5. Sverrir Einar Eiríksson og …
Arnar Gauti Sverrisson mun endurhanna B5. Sverrir Einar Eiríksson og Vesta Minkute hafa fest kaup á staðnum. Ljósmynd/Samsett

Athafnamaðurinn Sverrir Einar Eiríksson, sem rekur Nýju vínbúðina, hefur fest kaup á skemmtistaðnum Bankastræti Club ásamt unnustu sinni, Vestu Minkute. Sverrir segist vilja færa staðinn í átt að því sem B5 var á sínum tíma og gera staðinn meira eins og næturklúbb í Lundúnum. 

„Við höldum heimili í Lundúnum og Reykjavík og fannst vanta að færa hingað til höfuðborgarinnar stemninguna í næturlífi Lundúna,“ segir Minkute. 

„Markmið okkar er að endurvekja stemninguna sem var áður á B5, sjarmann og glamúrinn sem einkenndi staðinn, sem á sínum tíma var besti næturklúbbur borgarinnar,“ segir Sverrir. 

Um þessar mundir er unnið að endurbótum á staðnum. Hljóð- og ljósakerfi verða endurnýjuð og úrvalið á barnum verður stóraukið. Lagt verður upp með gott og vandað úrval af vínum fyrir flöskuborð. Sverrir og Minkute hafa ráðið Arnar Gauta Sverrisson innanhússráðgjafa til þess að endurhanna staðinn. Þau segja að það sé gert til þess að bæta upplifun gestanna. Þau lofa því líka að á staðnum verði boðið upp á bestu og vinsælustu plötusnúðana og lofa gæðakokteilum á góðu verði. 

„Heilsa og öryggi gesta okkar er algjört forgangsmál,“ segir Sverrir og bætir því við að auk plötusnúða verði vinsælustu tónlistarmenn landsins fengnir til að spila á staðnum. 

Sverrir hefur áður látið til sín taka í viðskiptalífinu, bæði heima og erlendis.

„Ég hef í nærri aldarfjórðung stundað ýmiss konar viðskipti, þó mest fasteignaviðskipti hér og í Bretlandi,“ segir Sverrir sem auk þess hefur komið að kaupum og sölu á gulli og demöntum. Hann hefur stundað lánastarfsemi, veitinga- og gistihúsarekstur, rekið starfsmannaleigu og fleira.

„Flest hefur gengið vel en vissulega hefur ekki allur rekstur gengið upp með þeim hætti sem lagt var upp með í byrjun. Við látum hins vegar snurðu á þræði á einum stað ekki stöðva okkur í að gera góða hluti annars staðar,“ segir Sverrir og bætir því við að þau Minkute hafi mikla trú á því að byggja megi upp skemmtistaðinn á ný, enda sé saga hans mestan part farsæl og löng.

„Staðsetningin er frábær í hjarta miðbæjarins. Við ætlum að tryggja að allir skemmti sér vel og fari glaðir heim,“ segir Sverrir. 

Sverrir Einar Eiríksson og Vesta Minkutu.
Sverrir Einar Eiríksson og Vesta Minkutu.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál