Milljarðamæringur fékk tvo laxa í Grímsá

Mark Dixon milljarðarmæringur var staddur á Íslandi á dögunum þar …
Mark Dixon milljarðarmæringur var staddur á Íslandi á dögunum þar sem hann landaði tveimur löxum í Grímsá. Ljósmynd/Samsett

Breski milljarðamæringurinn og ástríðuveiðimaðurinn Mark Dixon, for­stjóri og stofn­andi IWG sem rek­ur meðal ann­ars fyr­ir­tæk­in Reg­us, Spaces, HQ og Signature, kom til Íslands á dögunum. Þótt um viðskiptaferð hafi verið að ræða lét hann tvo daga eftir sér til þess að renna fyrir fisk í Grímsá.

„Ég er að koma hingað í fyrsta skipti og Ísland er mjög áhugavert land. Maður hafði einhverja hugmynd um Ísland. Landslagið og náttúruna en þetta er samt alls ekki eins og maður hafði ímyndað sér,“ sagði breski frumkvöðullinn og milljarðamæringurinn Mark Dixon í sinni fyrstu Íslandsheimsókn í síðustu viku.

Tómas Ragnarsson og Mark Dixon við veiðar í Grímsá.
Tómas Ragnarsson og Mark Dixon við veiðar í Grímsá.

34 ára vegferð

Dixon stofnaði alþjóðlegu skrifstofuleiguna Regus í Brussel fyrir 34 árum og vöxturinn hefur verið slíkur að rúmum þremur áratugum síðar býður Regus, eða International Workplace group, upp á aðstöðu á yfir 6000 stöðum í ríflega 120 löndum. Og Dixon sem byrjaði smátt var metin á 1,437 milljarða punda samkvæmt lista The Sunday Times yfir auðfólk árið 2021. Í dag er hann metinn á 1 milljarð dala, samkvæmt Forbes. 

„Þið eruð alls staðar og ég hef auðvitað hitt marga Íslendinga sem eru frábært fólk en að koma hingað loksins hefur verið meiriháttar,“ segir Dixon sem kom hingað fyrst og fremst í viðskiptaerindum en þar sem hann er mikill veiðimaður gaf sér þó tvo daga til þess að renna fyrir fisk í Grímsá.

„Ég hlakka mikið til og vonast eftir rétta veðrinu, smá heppni og fjörugum fiskum,“ sagði Dixon um fyrirhugaða veiðiferð en taldi ekki óhætt að úttala sig frekar um veiðimennskuna enda gæti slíkt tal orðið til þess að hann kæmi til baka með öngulinn í rassinum.

Tómas Ragnarsson og Óskar Páll Sveinsson voru með í för.
Tómas Ragnarsson og Óskar Páll Sveinsson voru með í för.

Heillaðist af íslenskri náttúru 

Slyngum viðskiptajöfrinum varð þó að ósk sinni og hann landaði tveimur vænum löxum en Regus-hollið allt tók ellefu fiska samanlagt. Dixon var því hæstánægður með ferðina í Grímsá og Íslandsheimsóknina eins og hún lagði sig.

„Hann var rosalega ánægður með veiðiferðina og bara allt sem fyrir augu bar. Hvort sem það var í íslenskri náttúru eða því sem við höfum verið að byggja hér upp,“ segir Tómas Ragnarz, eigandi Regus á Íslandi, sem tók á móti Dixon og leiddi hann um íslenska náttúru og þau skrifstofusetur sem hann hefur þegar opnað undir merkjum Regus.

Mark Dixon var stórhrifinn af Íslandi.
Mark Dixon var stórhrifinn af Íslandi.

Dixon og Tómas hafa, í takt við stefnu Regus, sett sér það sameiginlega markmið að bjóða upp á fyrsta flokks skrifstofuaðstöðu í öllum landshlutum. Regus er nú þegar með staði í Keflavík, Borgarnesi, Stykkishólmi, á Siglufirði, Ísafirði, Akureyri, og Egilsstöðum. Á höfuðborgarsvæðinu er félagið síðan með skrifstofukjarna á Hafnartorgi og í Suðurhrauni 10 í Garðabæ en Tómas segir nýtinguna á þeim stöðum undanfarið hafa verið um 90-96%.

Nýjasta viðbótin verður síðan 1.550 fermetra skrifstofuhúsnæði við Kirkjusand sem fyrirhugað er að opna 1. janúar 2024 og þar með verða skrifstofusetrin hérna í það minnsta fjórtán.

Erna, Mark Dixon og Tómas Ragnarsson.
Erna, Mark Dixon og Tómas Ragnarsson.

Fór óvart að búa til vín

Dixon segir Regus enn eiga hug hans næstum allan og hann sé mjög virkur í stefnumótun og umfangsmiklum daglegum rekstri fyrirtækisins. Hann hafi að vísu slysast út í vínrækt og sem eigandi Chateau de Berne vínekrunnar er hann annar stærsti vínframleiðandinn í Provence í Frakklandi með um fimm milljón flöskur á ári.

„Þetta er helgarvinnan mín en vandinn er að hún er orðin ansi mikil,“ segir Dixon og hlær. „Þannig að nei, nei. Þetta er alls ekki tómstundagaman. Þetta byrjaði kannski þannig en hefur undið þannig upp á sig að þetta er orðið alveg brjálað,“ segir Dixon sem framleiðir einnig geitaost og er með hótel og veitingastaði á vínekrunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda