Hafdís Björg Kristjánsdóttir einkaþjálfari og Kristján Einar Sigurbjörnsson áhrifavaldur, betur þekktur sem Kleini, kynntust fyrst í World Class fyrir nokkrum árum. Ástin bankaði upp á fyrir alvöru nýlega en henni fylgdi sömuleiðis óumbeðin athygli sem þau takast á við saman.
„Við vorum oftast að æfa á sama tíma í ræktinni og í raun byrjuðum við strax að laumu-flörta. Fyrir tilviljun var ég stopp á rauðu ljósi og leit til hliðar og sá hana og ákvað að biðja hana að skrúfa niður rúðuna sem hún gerði. Þá fór ég að segja henni hvað mér fannst um hana og að ég hefði áhuga á henni og þá roðnaði þessi elska og við ákváðum að skiptast á númerum,“ segir Kristján þegar hann er spurður hvernig þau kynntust.
„Við vorum að spjalla og aðeins að hittast en það varð ekkert, við fórum sitt í hvort sambandið og héldum áfram með lífið. Svo byrjuðum við aftur að spjalla og þá gerðist þetta mjög hratt,“ segir Hafdís en Kristján bætir við að þau hafi verið komin með ágætis grunn til að byggja á.
„Það var eiginlega búið að setja okkur í samband áður en við vorum búin að ákveða það, það var eiginlega það óþægilega við það. Ég hefði viljað hafa smá stjórn á þessu en það gerðist sem átti að gerast og ég held við höfum höndlað það ágætlega,“ segir Hafdís.
Hvernig takist þið á við þessa athygli?
„Í mínu tilfelli truflar það mig mjög takmarkað, því sama hvað maður segir eða gerir þá mun fólk alltaf hafa mismunandi skoðanir þar sem ég er opinber manneskja og hvað væri litla samfélagið okkar án góðra slúðursagna?“ segir Kristján.
„Ég tek þetta miklu meira inn á mig en hann. Ég fer í fósturstellinguna og fer að ritskoða allt sem ég geri og segi. Við höfum innsta hringinn okkar inni í öllu og þá finnst manni ekki eins og maður þurfi að leiðrétta kjaftasögur sem eru komnar. Það vita allir hvað er í gangi, það ætti ekki að skipta máli hvað þau heyra af því þau vita hvað er að gerast,“ segir Hafdís sem var í upphafi sambands þeirra að eyða orku í að útskýra og leiðrétta sögusagnir.
Farið þið eftir einhverjum reglum í sambandinu?
„Já, þetta er allt öðruvísi þegar það er fylgst svona mikið með öllu sem við erum að gera. Þegar það er mikið áreiti getur verið erfitt að vera í sambandi. Það eru ekki allir sem höndla það,“ segir Hafdís.
„Það eru margir ósáttir við að við séum saman og margir sáttir. Við tökumst á við allt og förum aldrei ósátt að sofa,“ segir Kristján sem er stundum kallaður Dr. Phil að sögn Hafdísar.
„Reglurnar okkar eru þær að það er ekkert sem við felum og ekkert sem kemur okkur á óvart af því það skapar bara togstreitu. Við erum saman mestmegnis af tímanum þar sem við erum komin í rekstur saman og rekum stórt heimili. Við höfum meira að segja rætt að sameina samfélagsmiðlana okkar til þess að auðvelda samstörfin og reksturinn í gegnum þá, og þar að auki er líka hugsunin að það myndi minnka óumbeðið áreiti um helming teljum við,“ segir Hafdís.
Hafdís og Kristján eru nýtrúlofuð og segja þau söguna á bak við trúlofunina skemmtilega.
„Við vorum nýbúin að hefja rekstur saman, húsbílaleigu, og Kristján var búinn að skreyta fyrsta sendilinn með blómum, kertaljósum og öðru álíka og ætlaði að biðja mín í sendlinum. Nokkrum vikum áður höfðum við verið að tala um að gera eitthvað öll saman, fara í bústað eða eitthvað álíka, en ég er svo hvatvís að ég tek ákvarðanir með stuttum fyrirvara. Ég hringi í hann og segi honum að við séum að fara í bústað núna, án þess að vita að hann var búinn að setja allt upp og ætlaði að biðja mín það kvöld. Ég skildi ekkert í því af hverju hann reyndi að fresta bústaðarferðinni og var ekki alveg til í að stökkva á þetta því vanalega er hann alltaf til í allt svona enda jafnhvatvís og ég. Svo ég varð smá fúl yfir því hvað hann var núll spenntur yfir þessari skyndiákvörðun en ég skil það í dag og við hlæjum að þessu reglulega þegar við rifjum þetta upp,“ segir Hafdís þegar hún lýsir aðdragandanum.
„Ég var búinn að gera og græja allt í bílnum og var að fara að setja ferlið af stað á næstu mínútum þegar hún hringir og segir mér frá bústaðnum, svo ég hafði um 30 mínútur til að taka allt saman, pakka fyrir bústað og sækja hana og láta eins og allt væri eðlilegt,“ segir Kristján.
Um það bil tveimur vikum seinna gerði Kristján tilraun tvö til þess að biðja Hafdísar og þá gekk betur. „Hann hringdi í mig og sagði að bíllinn væri straumlaus og ég þyrfti að koma og gefa honum start. Ég fór þangað og hann bað mig um að trúlofast sér inni í sendlinum. Hann hélt fyrir augun á mér, setti tónlist í gang, mjög rómantískt,“ segir Hafdís.
Hafdís er menntaður einkaþjálfari og þjálfaði í mörg ár en nú hefur hún opnað heilsusetur í Faxafeni. „Þar er alls konar þjónusta í boði bæði fyrir heilsu og útlit. Trimform og Heilsu-Sweat eru vinsælustu meðferðirnar og hafa verið i mörg ár. Trimform þar sem verið er að vinna með rafmagnsblöðkur er mikið notað í endurhæfingu hjá fólki sem hefur lent í slysi eða íþróttameiðslum og til þess að auka lífsgæðin, sama hvort það er vegna veikinda, meiðsla eða bara til þess að styrkjast eða grennast,“ segir Hafdís.
„Ástæðan fyrir því að ég fór að æfa var að ég fékk svo mikið fæðingarþunglyndi. Heimilislæknirinn sem ég var send til var gömul frjálsíþróttakempa, hún sagði mér að fara að æfa, hætta að spá í þunglyndislyfjunum. Ég fór að finna mikinn mun á andlegri líðan og ég fór að æfa meira. Ég fann mig og þetta hjálpaði mér. Þetta hefur alltaf verið mín hvatning, líka með strákana, að þeir fari ekki í eitthvert rugl eða rútínuleysi, að þeir fái útrásina og hreyfinguna, þetta er svo andlegt.“
Að lyfta í ræktinni er hluti af daglegri rútínu þeirra Hafdísar og Kristjáns og mæta þau saman þegar þau geta. Vinnudagar þeirra eru ekki alltaf eins frá degi til dags og er því mismunandi hvenær þau mæta.
„Það fer eftir dögum. Ef dagurinn er vel þéttur þá mætum við bara 5:30,“ segir Kristján og segir Hafdís gott að byrja daginn á því taka æfingu snemma. Það kemur þó fyrir að þau mæti seint á kvöldin ef dagurinn raðast þannig.
Finnst ykkur ekkert óþægilegt að það sé ekki alltaf sama rútínan?
„Ég þrífst best þegar það er ekki alltaf sama rútínan,“ segir Hafdís.
„Ég á erfitt með það að þurfa að upplifa sömu dagana aftur og aftur, svo að hafa smá rútínumix hentar mér mjög vel og heldur mér meira á tánum,“ segir Kristján.
Eruð þið ströng þegar kemur að mataræði?
„Við tökum tarnir, eins og í sumar vorum við það ekki. Núna finnum við að með haustinu, þegar allir detta í rútínu og gírinn, að það er auðveldara að vera strangari í mataræði. Það er ekki eins og við séum nammigrísir að missa okkur. Í staðinn fyrir að fá sér nammi vilja strákarnir fá sér melónu eða mangó, aðeins öðruvísi ávexti,“ segir Hafdís.
„Við kunnum að gera hollan og góðan mat. Við borðum mikið af kjöti en ef okkur langar í eitthvað þá fáum við okkur það,“ segir Kristján sem sérhæfir sig í að elda mat í air fryer.
Til þess að hlaða batteríin og hugsa um andlegu hliðina reynir parið að gera sem mest úr tímanum sem það hefur saman. „Við fórum mikið á húsbíl bara við tvö þó það sé ekki nema klukkutíma út úr bænum. Við förum til að kúpla okkur aðeins út og tökum ekki símana með. Við erum með leynisíma sem strákarnir eru bara með númerið í ef eitthvað er, fjölskyldan getur alltaf náð í okkur,“ segir Hafdís.
Er það ekki erfitt?
„Því fylgir smá rasssviti til að byrja með en það venst hægt og rólega. Við erum líka komin með þá reglu að ef við förum til útlanda eða í frí þá skiljum við símann eftir heima. Þeir eru alveg takmarkaðir fyrir utan kannski myndavélina. Við viljum vera saman þegar við erum saman,“ segir Kristján.
„Við erum að stefna á að flytja út. Á næsta ári er markmiðið okkar að vera komin út,“ segir Hafdís þegar þau eru spurð hvernig framtíðin líti út. Þau horfa annaðhvort til Danmerkur eða Ítalíu.
Af hverju?
„Þar eru miklu fleiri tækifæri í því sem við viljum gera,“ segir Kristján.
Tilhugsunin um að komast í burtu frá áreitinu á Íslandi finnst þeim ekki slæmt heldur. „Það leiðinlegasta sem ég geri er að fara í búðina. Áður en ég kynntist honum fór ég ekki í búðina fyrr en korter í lokun en eftir að ég byrjaði með honum snarversnaði það,“ segir Hafdís sem hélt að hún væri komin með félagsfælni en sálfræðingur tók fyrir það. Það er hins vegar auðvelt að skríða inn í skelina þegar áreitið er mikið.
Hvað er fólk að gera?
„Stara, kalla, taka myndir. Það er alltaf verið að snerta á manni andlitið. Ég veit ekki hversu oft ég hef þurft að slá á putta,“ segir Kristján sem er nokkuð rólegur yfir áreitinu á meðan Hafdís á erfiðara með að segja fólki að fara. Hafdís og Kristján hafa til að mynda verið beðin um myndir uppi á spítala. Erlendis hafa þau hins vegar fundið fyrir meiri friði og upplifað hvernig það er að hverfa í fjöldann.