„Það var eins og ég væri með vanstillt útvarp inni í mér“

Lífið hefur breyst mjög mikið síðan Bergrún Íris hætti að …
Lífið hefur breyst mjög mikið síðan Bergrún Íris hætti að drekka. Ljósmynd/Aðsend

Rithöfundurinn og myndskreytirinn Bergrún Íris Sævarsdóttir hætti að drekka áfengi fyrr á árinu eftir að hafa farið í örlagaríka ferð til Anda lúsíu. Hún heyrir betur í sjálfri sér – sinni innri rödd – og suðið er farið.

Hvað varð til þess að þú hættir að drekka áfengi?

„Það var bara hreinlega komið nóg. Ég slasaðist á öxl í fyrra og gat ekki teiknað, sem setti mig alveg út af laginu. Í kjölfarið komu allt of margir dagar þar sem ég fékk mér bjór sem verkjalyf.“

Varstu búin að hugsa þetta lengi?

„Ég hef lengi verið forvitin um edrúmennsku, lesið bækur á borð við Sober Curious, hlustað á hlaðvörp og var oft með stillt á alka-útvarpið. Ég taldi mér reyndar trú um að það væri af því að fólk sagði svo skemmtilega frá, þetta væri í raun bara hálfgert uppistand. Innst inni var ég hins vegar afbrýðisöm út í þetta hugrakka fólk sem þorði ekki bara að hætta að drekka heldur gat tekið ábyrgð á eigin lífi, rifjað upp mistökin sín og hlegið að þeim fyrir framan annað fólk. Það fannst mér mjög aðdáunarverður eiginleiki.“

Bergrún Íris slasaðist á öxl og átti erfitt með að …
Bergrún Íris slasaðist á öxl og átti erfitt með að teikna. Í kjölfarið byrjaði hún að drekka of mikið. Ljósmynd/Rakel Ósk Sigurðardóttir

Hvernig hefur lífið breyst eftir að þú hættir að drekka?

„Lífið hefur breyst mjög mikið. Ég ber miklu meiri virðingu fyrir sjálfri mér, sýni mér meiri sjálfsást og mildi, og ber mig ekki stanslaust niður fyrir að hafa fengið mér of mikið daginn áður. Í mörg ár hafði ég unnið alls kyns sjálfsvinnu og reynt að vinna í gömlum áföllum en sú vinna er miklu erfiðari þegar þú drekkur ofan í hana. Áfengið sljóvgar öll skilningarvit, líka á meðan þú ert ekki í glasi. Ég heyrði aldrei almennilega í innri röddinni minni. Það var eins og ég væri með vanstillt útvarp inni í mér og heyrði bara óskýrt suð. Núna, þegar ég er edrú, heyri ég hátt og skýrt í minni innri rödd, veit betur hvað mér finnst og hvað ég vil út úr lífinu.“

Finnur þú mikinn mun?

„Það er auðvitað stórkostlegt að losna við þynnkuna en áhrif drykkju eru fjandi lúmsk og rista mun dýpra en einhver þynnkueinkenni. Ég sef betur, er miklu betri í húðinni og hugsa skýrar. Það er vissulega nýtt fyrir mér að fara allsgáð í gegnum tilfinningarnar mínar gagnvart gömlum áföllum. Því fylgir að ég þarf að finna fyrir tilfinningunum í raun og veru og get ekki deyft þær. Ég fer þess vegna enn dýpra í depurðina en ég er vön en er líka miklu fljótari að jafna mig, því ég fer í gegnum hluti í stað þess að ýta þeim bara neðar og dýpra í kerfið, þar sem áföllin geta orðið að líkamlegum kvillum og sársauka.“

Hafðir þú reynt áður og ekki tekist?

„Ég hafði margoft reynt að hafa stjórn á drykkjunni minni og minnka hana. Ég var alls ekki leiðinleg í glasi og reyndar yfirleitt hrókur alls fagnaðar. Þessi ákvörðun kom flestum í kringum mig mjög á óvart enda átti fólk bágt með að trúa því að ég hefði átt við vandamál að stríða. Það má ekki gleyma því að þröskuldur hvers og eins er ólíkur. Ef þú drekkur af því þér líður illa og líður illa af því að drekka, þá er það nóg til að leita sér hjálpar. Ég fór sjálf í göngudeildarmeðferð hjá SÁÁ og sæki fundi hjá félagasamtökum þar sem ég hef eignast marga góða vini sem eru til staðar, því það að vera edrú er ákvörðun sem þarf að taka aftur og aftur, á hverjum einasta degi.“

Það kom mörgum á óvart þegar Bergrún Íris hætti að …
Það kom mörgum á óvart þegar Bergrún Íris hætti að drekka. Ljósmynd/Aðsend

Sjokk að ekki mátti drekka

Í febrúar fór Bergrún Íris í örlagaríka ferð upp í fjöll Andalúsíu sem skipulögð var af Þórhildi Magnúsdóttur sem heldur úti samfélaginu Sundur saman á Instagram. Spurð að því hvað hafi leitt hana þangað segir hún að sig hafi langað í sól og jóga.

„Mig dauðlangaði að komast í jógaferð í sólinni. Það var svo smá sjokk að sjá dagskrána því þar stóð að áfengi og önnur hugbreytandi efni væru ekki leyfð. Mér fannst tilhugsunin um heila viku edrú bara drulluerfið. Ég ætlaði mér samt alls ekki að hætta að drekka, enda var ég að burðast með nóg annað sem mig langaði að vinna í á meðan á ferðinni stóð.“

Hvað gerðist í ferðinni sem breytti þér?

„Þórhildur er frábær kennari og hópurinn sem ég var með samanstóð af einlægu og opnu fólki. Við hlógum og grétum saman og mér tókst að finna skýrleika varðandi helling af hlutum. Ég fann samt að það var einhver fyrirstaða. Á síðasta deginum unnum við með hugrekki og það var þá sem ég gafst loksins upp. Í hópnum var dásamleg kona sem hefur verið edrú í mörg ár. Hún greip mig mjög fallega. Það höfðu myndast einhverjir óútskýranlegir töfrar þessa viku og allt í einu fannst mér rétti tíminn kominn. Við fórum svo nokkrar edrú saman út að dansa kvöldið eftir, sem var ofsalega skemmtilegt. Leiðinlegu lögin eru reyndar svakalega löng á dansgólfinu þegar ég er ekki búin að fá mér, en það hefur vanist og nú get ég skemmt mér stórkostlega án þess að vera í glasi,“ segir hún.

Hugsunin varð skýrari og líðanin betri þegar áfengið var komið …
Hugsunin varð skýrari og líðanin betri þegar áfengið var komið út úr kerfinu. Ljósmynd/Aðsend

Tók stökkið

Bergrún Íris hefur komið víða við á ferli sínum. Hún lærði teikningu og hafði myndlýst nokkrar barnabækur þegar hún þorði að draga eigin handrit upp úr skúffunni.

„Einn örlagaríkan dag gekk ég inn á skrifstofu Bókabeitunnar með handritið að Vinur minn, vindurinn. Síðan þá hef ég myndlýst ríflega 60 bækur og nú fyrir jólin koma út fjórar bækur eftir mig.

Sú fyrsta, Langelstur á bókasafninu, kom út í vor en hún er allt í senn skáldsaga, þrauta- og litabók og bókmenntafræði fyrir börn, þar sem Eyja og Rögnvaldur ræða um mismunandi bækur sín á milli. Næst kemur Veikindadagur, hrollvekja fyrir unglinga sem er myndlýst af stórkostlegum myndhöfundi, Sigmundi Breiðfjörð. Svo kemur út Kennarinn sem sneri aftur en hún er síðasta bókin í Kennara-seríunni sem slegið hefur í gegn hjá breiðum aldurshópi. Sokkalabbana vann ég með leikaranum Þorvaldi Davíð. Sú bók er fyrir yngstu krílin og er dásamleg saga um tilfinningar sem mun eflaust hafa góð áhrif á mörgum heimilum.“

Nú hefur þú notið velgengni á bókmenntasviðinu og hlotið Íslensku bókmenntaverðlaunin og fleira í þeim dúr. Breytti miklu fyrir þig að fá slík verðlaun?

„Það var mikill heiður og ég varð virkilega hissa, en hef síðan þá gengist við því að Langelstur að eilífu átti verðlaunin alveg skilið. Hún vann líka Vestnorrænu bókmenntaverðlaunin, sem var mjög skemmtilegt. Sögurnar um Eyju og Rögnvald hafa notið mikilla vinsælda og meira að segja verið settar á svið. Það var stærra og merkilegra en öll verðlaun að sjá Eyju og Rögnvald lifna við á sviði. Mig hafði dreymt um að Siggi Sigurjóns myndi leika Rögnvald og þegar það rættist fannst mér ég geta dáið hamingjusöm. Við fengum svo tvær litlar leikstjörnur til að leika Eyju til skiptis, þær Nínu Sólrúnu og Iðunni Eldeyju, og þar með gat leikritið ekki klikkað. Það er hægt að sjá leikritið á Sjónvarpi Símans og gaman að Rögnvaldur lifir enn góðu lífi, þrátt fyrir að hafa dáið í þriðju bók.“

Bergrún Íris er vinsæll myndskreytir og rithöfundur.
Bergrún Íris er vinsæll myndskreytir og rithöfundur.

Bréf frá lesendum ylja

Hvað er það við rithöfundarstarfið sem heillar þig?

„Frelsið, sköpunin og leikurinn. Það að geta hreyft við lesendum og haft áhrif á unga huga. Ég las mikið sem barn og þekki það vel að söguhetjur geta orðið eins og raunverulegir vinir. Það er dásamlegt að geta gefið börnum landsins bækur sem fjalla um hluti sem skipta þau máli.“

Er starf höfundarins aldrei einmanalegt?

„Ég er svo heppin með útgáfu en hjá Bókabeitunni starfa þrjár dásamlegar konur og við höfundarnir eigum í miklum og góðum samskiptum. Ég tilheyri þannig virkum og öflugum vinnustað sem heldur partí, fer í ferðir saman og á vinnufélaga sem eru til staðar þegar ég þarf eyra og álit á verkunum mínum. Mér líkar einveran hins vegar vel og elska að fara út á land eða til útlanda til að skrifa í algjörri einangrun.“

Hvað drífur þig áfram í þinni vinnu?

„Hér fæ ég að vitna í orð 13 ára stúlku sem sendi mér þessi skilaboð um daginn, því það er nákvæmlega þetta sem hvetur mig áfram í mínu starfi:

„Bækurnar þínar hafa hjálpað mér í gegnum mjög mikið. Alltaf þegar mér líður illa les ég alltaf bækurnar þínar og þá líður mér miklu betur. Þú ert svo skapandi og hæfileikaríkur rithöfundur. Þú ert líka svo góð í að skapa persónur. Ég er brún manneskja, sem ólst upp á litlum stað þar sem ég var eini krakkinn með dökkan húðlit. Mér leið svo vel þegar ég sá að Óli Steinn (í kennarabókunum) var líka brúnn. Þú ert líka svo góð í að setja þig í spor annarra. Stundum gleymi ég að það ert þú sem skrifar textann en ekki annar unglingur.““

Hvernig skipuleggur þú dagana?

„Ég skipulegg mig bara dag frá degi, enda eru dagarnir jafn ólíkir og þeir eru margir. Nú er ég að sigla inn í mikið upplestrartímabil þar sem ég mun heimsækja 30 skóla á 17 dögum! Það verður fjör. Þá daga þarf ég að passa sérstaklega vel upp á næringu og hreyfingu því það getur tekið á að halda athygli mörg hundruð skólabarna. Þau gefa hins vegar svo ótrúlega mikið til baka að ég svíf yfirleitt út úr skólunum, brosandi frá eyra til eyra.“

Hverjar eru fyrirmyndir þínar í lífinu?

„Foreldrar mínir eru efst á lista. Þau eru bæði hætt að vinna og ferðast nú helling um Evrópu á húsbíl og njóta lífsins. Þau sinna barnabörnunum sínum af svo mikilli ást og umhyggju og kunna bæði að leika sér og hafa gaman. Það finnst mér fallegt. Þau taka mér eins og ég er, styðja við bakið á mér, þykjast aldrei vita betur en ég þegar ég segi þeim hvernig mér líður og kunna að biðjast afsökunar og bæta fyrir mistök úr fortíðinni. Það er virkilega aðdáunarverður eiginleiki að kunna að hlusta og vera alltaf til í endurskoðun.“

Hvernig fólk viltu hafa í kringum þig?

„Fólk sem kemur fram við börn af virðingu, fólk sem setur mörk og virðir mörk annarra, fólk sem gengst við mistökum sínum og fólk sem er og leyfir öðrum að vera.“

Hvernig fólk finnst þér vera langáhugaverðast?

„Ég elska að tala við fólk sem er einlægt og opið, skammast sín ekki og lærir af fortíðinni sinni án þess að berja sig niður. Pant vera þannig!“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál