Siggi Sveins bjargaði golfbílnum

Sigurður þurfti að taka á öllu sínu til að ná …
Sigurður þurfti að taka á öllu sínu til að ná golfbílnum upp úr snjónum. Samsett mynd

Sigurður Sveinsson, markakóngur og fyrrverandi landsliðsmaður í handbolta, hélt af stað í óvenjulega en án efa eftirminnilega björgunaraðgerð til að endurheimta Skolla.

Í Mosfellsbæ, við rætur Helgafells, fannst Skolli, golfbíll Sigurðar, nú á dögunum. Bílnum hafði verið stolið úr gámi við Golfklúbb Mosfellsbæjar í nóvember á meðan Sigurður var á fullu að jafna sig eftir að hafa gengist undir aðgerð á hné. 

„Þannig er mál með vexti að ég fór í hnéskiptaaðgerð í nóvember og var því frá í þó nokkurn tíma. Golfbíllinn er geymdur í læstum gám við golfskálann í Mosfellsbæ og fyrir viku síðan þá ætlaði ég að dytta að honum, hlaða geyminn og fleira en þá var hann horfinn,“ segir Sigurður. 

Ekki að áfellast

Á þriðjudag tilkynnti Sigurður, jafnan kallaður Siggi Sveins, að Skolli væri kominn í leitirnar. „Ég birti færslu á Facebook og í kjölfarið bárust mér ótal símtöl og póstar, þar á meðal frá tveimur aðilum sem könnuðust við að hafa séð bílinn.

Einn sagðist hafa rekist á bílinn þegar hann var úti að ganga með hundinn sinn þann 13. nóvember síðastliðinn. Sá tók myndir og sendi á lögregluna,“ segir Sigurður sem viðurkennir að vera örlítið vonsvikinn yfir framtaksleysi lögreglunnar. 

Sigurður þurfti að ganga dágóðan spöl til að komast að …
Sigurður þurfti að ganga dágóðan spöl til að komast að bílnum. Ljósmynd/Aðsend

„Sjálfur vissi ég ekki af þjófnaðinum á þessum tímapunkti, en lögreglan hefði ef til vill getað sent fyrirspurn á Golfklúbb Mosfellsbæjar og forvitnast um hvort einhver þekkti til bílsins. Þá hefði málið verið leyst á engum tíma,“ segir Sigurður sem er þó ekki að áfellast lögregluna, en þegar bíllinn fannst upphaflega var snjólaus jörð en þegar hann sjálfur kom að honum var Skolli á kafi í snjó og er nú illa farinn. 

Skolli er skemmdur

Aðspurður segir Sigurður að Skolli sé í heldur slæmu ásigkomulagi. Hann hefur átt bílinn í rúm átta ár. 

„Ég er mikill golfari og þurfti á golfbíl að halda af því að ég var slæmur til heilsunnar eða lappirnar voru slæmar.

Bíllinn er bara gömul græja sem ég hef haft mikla ánægju af að dútla við í gegnum árin. Nú er hann bara skemmdur, ég sé alla vega að húsið er farið af,“ útskýrir hann. „Það er ekkert skrýtið, bíllinn hefur verið þarna síðustu mánuði, kaldur og yfirgefinn.“

Skolli hefur staðið við Helgafell í Mosfellsdal síðan í nóvember.
Skolli hefur staðið við Helgafell í Mosfellsdal síðan í nóvember. Ljósmynd/Aðsend

Fékk góða hjálp

Það var svo sannarlega ekki auðvelt verk að ná honum. „Ég fór sjálfur á miðvikudag og ætlaði að reyna hvað ég gat en endaði bara á að snúa við. Fyrsta björgunartilraunin fór því í vaskinn,“ segir Sigurður.

„Ég sá strax að það þurfti gröfu eða eitthvað álíka til að ná Skolla upp úr snjónum,“ segir Sigurður sem hélt aftur á staðinn og nú með góða hjálp og heljarinnar vinnuvél meðferðis. „Ég fékk góða hjálp frá kunningja mínum sem kann á svona vélar. Hann var tilbúinn að hjálpa mér,“ segir Sigurður og hlær. 

„Björgunaraðgerðir tókust vel. Það þurfti góð tæki til að ná þessu í gegn, en allt fór þetta vel á endanum. Skolli karlinn er nokkuð illa til reika. Þjófurinn hafði þó vit fyrir því að skilja eftir eina kalda dós af orkudrykk og ekki veitti af eftir allan moksturinn,“ segir Sigurður að lokum.

Skolli er kominn heim!
Skolli er kominn heim! Samsett mynd
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda