Ætlar að klára skattaskýrsluna í páskafríinu

Bjarni ætlar að njóta þess að slappa af í páskafríinu.
Bjarni ætlar að njóta þess að slappa af í páskafríinu. Ljósmynd/Sunday & White Studio

Leikarann Bjarna Snæbjörnsson ættu flestir landsmenn að þekkja, en hann hefur svo sannarlega sett svip sinn á íslensku leiklistarsenuna undanfarin ár. Bjarni sló í gegn með sjálfsævisögulega söngleiknum Góðan daginn, faggi og heillar nú unga sem aldna sem hluti af leikarahópi söngleiksins Frosts, sem frumsýndur var á Stóra sviði Þjóðleikhússins þann 1. mars síðastliðinn. 

Bjarni gaf okkur smá innsýn í páskaplönin, en hann ætlar að njóta frísins með uppáhalds fólkinu sínu, slappa af, hvíla raddböndin fyrir komandi sýningar og klára skattaskýrsluna.

Hvernig leggst fríið í þig?

„Það leggst glimrandi vel í mig. Ég er búinn að vera svo upptekinn undanfarið við að æfa og sýna Frost í Þjóðleikhúsinu að ég er heldur betur tilbúinn í góða hvíld.“

Hvað ætlar þú að gera um páskana?

„Hvíla mig, klára skattaskýrsluna, fara í náttúruferð með Bjarma mínum og hundum, hitta gott fólk, sofa, fara í ræktina og sauma út.“

Bjarmi ásamt heimilishundum þeirra Bjarna.
Bjarmi ásamt heimilishundum þeirra Bjarna. Ljósmynd/Aðsend

Skreytir þú fyrir páskana?

„Nei, ég er rosalega lélegur skreytikarl. Bjarmi er miklu betri í því og það er best að ég sé ekki fyrir honum þegar hann er kominn í ham. Ég geri fastlega ráð fyrir að gulir túlípanar muni finna sig í vasa á borðstofuborðinu á næstu dögum.“

Hvað er í matinn á páskadag?

„Það verður án efa einhver „djúsí“ hnetusteik og mikið af gómsætu meðlæti.“

Hvort er betra páskaöl eða jólaöl?

„Bæði betra. Er þetta ekki sama sykursullið með mismunandi markaðsáherslum?“

Færðu þér páskaegg? Ef svo, geymir þú það fram á páskadag?

„Já, ég á örugglega eftir að kaupa mér vegan páskaegg. Ég verð að viðurkenna að ég er agalegur með hefðir, þannig að oft kaupi ég ekkert en ef og þegar ég kaupi þá er ég alveg líklegur til þess að borða það strax.“

Ert þú og fjölskyldan þín með einhverjar skemmtilegar páskahefðir?

„Bara að hvílast vel og njóta frísins. Páskarnir snúast oftast um það. Við hittum vanalega foreldra mína og systkini í mat og fáum öll lítil páskaegg með málshætti. Svo þegar málshátturinn er lesinn þá þarf að bæta við setningunni... „í rúminu.“ Þannig verður klassískur málsháttur allt í einu miklu fyndnari, t.d. „Sjaldan er ein báran stök í rúminu.“

Manstu eftir einhverju sniðugu sem gerðist um páskana?

„Ég ólst upp á Tálknafirði og man vel eftir að hafa eytt heilu og hálfu dögunum á skíðum í fjallinu beint fyrir ofan bæinn. Þar var risastór kaðall tengdur við traktor sem við krakkarnir notuðum til þess að ferja okkur á fjallið. Það var svo gaman.

Ég man einnig eftir þó nokkrum magakveisum á páskadag eftir að hafa hámað í mig páskaegg í morgunmat og hádegismat á meðan ég lá yfir á barnaefninu á RÚV.“

Bjarni ásamt bræðrum sínum, Jónasi og Steinari.
Bjarni ásamt bræðrum sínum, Jónasi og Steinari. Ljósmynd/Aðsend

Er einhver bók, bíómynd eða þáttaröð sem þú ætlar að byrja á/ljúka við í páskafríinu?

„Við Bjarmi vorum að byrja að horfa á Palm Royale sem lofar mjög góðu. Við klárum þá seríu örugglega fljótt. Svo hlakka ég mikið til að horfa á Skvís sem eru nýir íslenskir þættir hjá Sjónvarpi Símans.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda