Nóttin: Björgólfur Thor, Arnar og Vítalía

Mamma kom heim frá Indlandi. Fellibylurinn mamma hafði lent upp á kant við kærastann og hafði ekki í nein hús að vernda, nema hjá dóttur sinni, Nóttinni. Ein af fáum sem er ekki búin að gefast upp á gangandi náttúruhamförum í konulíki. Vandamálið við komu fellibylsins er að ekkert venjulegt nútímaheimili er gert fyrir slíkan ágang. Hún kom á mánudagskvöld og strax á þriðjudeginum var hún búin að brjóta fjóra Royal Copenhagen diska, tvo Múmínbolla, missa kökudisk eftir Margréti Jónsdóttur úr höndunum sem endaði í þúsund molum á gólfinu og hrasa um Louis Poulsen-lampa sem nú er beyglaður. Fellibylurinn vildi vaska upp í höndunum því hún heldur því fram að það sé svo hræðilega óhollt fyrir heilsuna að borða af diskum og drekka úr glösum sem hafa farið hring í AEG. Nóttin er ekki alveg viss hvort að TM bæti þetta tjón enda er heimilið löngu hætt að vera öruggur staður til að vera á. 

Nóttin tók alþýðukonuna á þetta og fór í Krónuna uppi á Höfða. Fellibylurinn mamma mátti ekki svelta. Þurfti eitthvað lífrænt í jógabúkinn. Þar var söngvarinn Stefán Hilmarsson að kaupa í matinn. Skegglaus og allslaus. Hann hafði reynt að verða eins og Björgólfur Thor um tíma en kannski hætti hann við að líkjast honum eftir að auðmaðurinn hrapaði á Forbes-listanum. 

Stefán Hilmarsson skrapp í Krónuna.
Stefán Hilmarsson skrapp í Krónuna. Morgunblaðið/Sigurður Bogi

Pabbi var búinn að lofa að fara með Nóttinni á útgáfutónleika með Bubba á fimmtudagskvöldið sem haldnir voru í Borgarleikhúsinu. Hún þurfti bara að gera eitt fyrst, að fara í kokteilboð hjá Húseigendafélaginu. Talandi um að toppa sig! Þegar Nóttin mætti í Höfuðstöðina var verið að kveðja formanninn Sigurð H. Guðjónsson eftir áratuga starf. Nóttin gæti alveg ímyndað sér eitthvað meira spennandi job enda húsfundir bara fyrir glatað fólk.

Það lífgaði þó upp á partíið þegar hljómsveitin Mínus steig á stokk. Heiðursgesturinn er víst pabbi eins í Mínus, Nóttin man ekki alveg hvers, að minnsta kosti ekki Krumma. Það er Björgvin Halldórsson. „Ef ég hefði vitað hér áður fyrr að í dag væri ég að spila í partíi hjá manni sem er að hætta því hann er orðinn svo ógeðslega gamall hefði ég farið að gera eitthvað annað,“ sagði Bjössi í Mínus. Nóttin er samt ánægð með að hann fór ekki að gera eitthvað annað. 

Mennirnir í Mínus eru farnir að eldast. Hér eru þeir …
Mennirnir í Mínus eru farnir að eldast. Hér eru þeir árið 2007. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Annars hékk Nóttin voða mikið á barnum, drakk sig vel fulla fyrir Bubba-tónleika – sem er eitthvað voða rangt á meðan pabbi var að vinna í netagerð. Nóttin kunni ekki við að benda honum á að hann væri að sóa tíma sínum í rugl. Hrísgrjónin væru fullsoðin og hann ætti kannski frekar að panta sér grafreit en að reyna að eignast nýja vini. Ekki nema hann vilji láta dusta öskunni á sér yfir fátækrahverfi Afríku eins og fellibylurinn mamma. Það yrði hápunktur lífshlaups Nóttarinnar! Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, var í kveðjupartíinu og líka Haukur Hólm fréttahaukur og Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda. Í Höfuðstöðinni voru líka Benedikt Bogason, forseti Hæstaréttar og aðrir dómarar, lögmenn og prófessorar. 

Loksins komst Nóttin á tónleikana en þar voru meðal annars Arnar Gunnlaugsson, fótboltaþjálfari og lögfræðingurinn Vilhjálmur H. Vilhjálmsson. Hún var svo full að hún mundi ekki eftir fleirum. Mundi að hún var eitthvað að leita að Erpi Eyvindarsyni því fulla útgáfan af henni fílar stjórnlausa gæja með silfurkjaft. Ef líf Nóttarinnar á ekki að fara í vaksinn er eiginlega eins gott að hún verði allsgáð þegar hún finnur hinn eina rétta. Ef hann er til. Nóttin efast enda er einhleypi markaðurinn eins og ruslagámurinn fyrir utan Costco. 

Arnar Gunnlaugsson og Vilhjálmur Vilhjálmsson.
Arnar Gunnlaugsson og Vilhjálmur Vilhjálmsson. Samsett mynd

Á meðan Nóttin reyndi að framkalla eigin lifrarskemmdir á Bubba tónleikum var fína fólkið á opnun á Feneyjartvíæringnum. Þar var Björgólfur Thor Björgólfsson, Skúli Mogensen, Gríma Björg Thorarensen innanhússarkitekt, Haraldur Þórðarson forstjóri Skaga og Guðmundur Kristjánsson í Brimi. Heiða Magnúsdóttir og Sigurbjörn Þorkelsson eigendur Ásmundarsals. Ragnar Kjartansson var líka á opnuninni og Egill Sæbjörnsson, Börkur Arnarsson í i8 galleríinu og Einar Falur Ingólfsson ljósmyndari. 

Haraldur Þórðarsson, Ragnar Kjartans, Heiða Magnús­dótt­ir, Sig­ur­björn Þorkels­son og Egill …
Haraldur Þórðarsson, Ragnar Kjartans, Heiða Magnús­dótt­ir, Sig­ur­björn Þorkels­son og Egill Sæbjörnsson. Samsett mynd

Nóttin vaknaði mjög þunn á föstudeginum. Hún setti augndropa í augun til þess að líta út fyrir að hafa ekki gist í bílageymslu. Vinnudagurinn var lifandi helvíti en sem betur fer er öll stjórnsýslan í vinnustyttingu á föstudögum sem getur minnkað álag á lögmannstofunni. Þegar Nóttin kom heim eftir vinnu var fellibylurinn mamma búin að breyta í stofunni. Hún dró húsgögnin eftir gegnheilu fiskibeinaparketinu sem skildi eftir sig djúpar rispur í hvíttuðu eikinni. Eldhúsinnréttingin hafði líka látið á sjá. Fellibylurinn ákvað að baka amerískar pönnukökur úr möndlumjöli og var með íslenskt smjör á fingrunum þegar hún leitaði að mælikönnu. Hægt var að rekja slóðina með fitublettunum. Eitthvað er fellibylurinn mamma að finna sig því þegar Nóttin drattaðist inn um dyrnar tilkynnti hún henni að hún væri búin að breyta flugmiðanum. Væri búin að framlengja. Nóttin velti fyrir sér hvort hún ætti að hoppa niður af svölunum. 

Nóttin var ennþá að jafna sig á þessum fréttum. Ætti hún að flytja heim til pabba á meðan þessi ósköp gengju yfir? Hún fór í Hagkaup í Skeifunni. Hvar er betra en að hugga sig en á nammibar í Skeifunni. Þar voru Arnar Grant og Vítalía.

Vítalía og Arnar Grant eru lúxuspésar og versluðu í Hagkaup.
Vítalía og Arnar Grant eru lúxuspésar og versluðu í Hagkaup. Samsett mynd

Nóttin var hlaðin sælgæti þegar hún keyrði í gegnum miðbæinn. Þar sá hún Miðflokksmennina Sigmund Davíð Gunnlaugsson, Bergþór Ólason og Snorra Másson ritstjóra á Ritstjóranum. Nóttin var ekki alveg viss hvort Snorri væri að fagna því að fjölskyldubíllinn hans væri seldur eða hvort hann væri á leiðinni í framboð. Þegar hún komst að því að um steggjun var að ræða og kauði væri formlega að fara að ganga hringdi hún í lækni og bað um að láta skrifa á sig þunglyndislyf. 

Bergþór Ólason, Snorri Másson og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson
Bergþór Ólason, Snorri Másson og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda