„Hann gaf mér ofboðslega fallegt hálsmen með hjarta“

Felix Bergsson.
Felix Bergsson. mbl.is/Árni Sæberg

Felix Bergsson, leikari, söngvari og útvarpsmaður, stendur þétt við bakið á eiginmanni sínum, Baldri Þórhallssyni forsetaframbjóðanda, í baráttunni um embætti forseta Íslands. Felix segist vera Baldri ævinlega þakklátur fyrir að hafa tekið fyrsta skrefið á skemmtistaðnum 22 árið 1996. 

Hvenær og hvernig kynntust þið?

„Við kynntumst á  fimmtudagskvöldi inni á skemmtistaðnum 22. Ég hafði séð hann ásýndar nokkrum sinnum en þorði aldrei að tala við hann. Heppilega þá tók hann af skarið og við höfum verið að blaðra saman síðan eða í 28 ár.“

Hvað var það sem vakti áhuga þinn?

„Mér fannst þetta bara fallegur maður sem bar með sér hógværð og húmor. Baldur er með fallegustu augu sem ég hef séð. Svo þegar við byrjuðum að spjalla kom fljótt í ljós að við áttum svo margt sameiginlegt, en við höfðum báðir verið í löngu sambandi með konu og eignast með henni barn. Við vorum á svipuðum aldri þegar við loksins komumst út úr skápnum.

Við áttum sameiginlega vini og áttum líka sameiginlega sýn á lífið. Þá vorum við báðir haldnir mikilli útþrá og forvitni um heiminn í kringum okkur. Það var því mjög margt að ræða og ég varð strax yfir mig ástfanginn af honum.“

Var þetta ást við fyrstu sýn?

„Já, ég held það bara. Að minnsta kosti varð ég strax mjög áhugasamur um að kynnast honum betur og hann stóð undir öllum mínum væntingum.“

Manstu fyrstu gjafirnar sem þið gáfuð hvor öðrum?

„Nei, ég man nú ekki eftir fyrstu gjöfunum en þær voru ansi margar á fyrsta árinu. Hann gaf mér ofboðslega fallegt hálsmen með hjarta frá Jens gullsmið og það ber ég enn.

Svo keyptum við fallega hringa saman á Camden-markaðnum í Lundúnum sumarið 1996. Þeir hringar hafa fylgt okkar alla tíð og raunar létum við síðar setja þá í gull. Það eru giftingarhringarnir okkar.“

Baldur Þórhallsson forsetaframbjóðandi ásamt eiginmanni sínum Felix Bergssyni.
Baldur Þórhallsson forsetaframbjóðandi ásamt eiginmanni sínum Felix Bergssyni. mbl.is/Óttar

Hvað einkennir líf ykkur saman?

„Líf okkar er gott. Við erum fjölskyldumenn og ekkert er betra en að vera með fjölskyldu okkar, börnunum okkar og barnabörnum, foreldrum, systkinum og vinum. Svo elskum við að ferðast og sérstaklega til fjarlægra staða. 

Ætli við getum ekki sagt að líf okkar einkennist af einhvers konar blöndu af rólegheitum og ævintýrum.“

Hvað finnst ykkur skemmtilegast að gera saman?

„Við gerum nú eiginlega allt saman. Skemmtilegast er að upplifa eitthvað nýtt saman, ferðast eða kynnast barnabörnunum. Svo finnst okkur mjög gaman að fara í góða líkamsrækt og stundum Crossfit-tíma.

Við elskum líka að halda skemmtileg matarboð með vinum okkar og þar er klúbburinn Pik Nik píurnar í sérstöku uppáhaldi en í þeim hópi eru bara hommar og lesbíur.“

Lýstu fullkomnu kvöldi?

„Fullkomið kvöld hefst með stóru matarboði þar sem börnin okkar, tengdabörnin og barnabörnin koma til okkar á Túnsberg. Þá er glatt á hjalla. Ég steiki fisk og við sitjum og röbbum og syngjum kannski smá með krökkunum. Svo skellum við Baldur okkur í bíó eða leikhús og upplifum eitthvað nýtt. Rétt náum í ísbúðina fyrir lokun og komum okkur svo heim í bælið. Helst sofnaðir fyrir miðnætti. Það er fullkomið kvöld.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál