Hafdís Björg Kristjánsdóttir einkaþjálfari blés á sögusagnir um sambandsslit og tilkynnti að stutt væri í brúðkaup hennar og Kristjáns Einars Sigurbjörnssonar, eða Kleina, í kjölfar skilaboða sem Hafdís fékk frá blaðamanni á Vísi.
Hafdís birti skjáskot af skilaboðunum á Instagram-síðu sinni sem komu frá blaðamanni á Vísi, en Hafdís faldi þó nafn blaðamannsins. „Sæl kæra Hafdís, XXXXX XXXX heiti ég blaðamaður á Vísi. Nú ganga sögur um að þið Kristján séuð hætt saman. Er það rétt?“ stóð í skilaboðunum.
Í kjölfarið birti hún mynd af henni og Kleina og skrifaði við hana: „Við erum ekki hætt saman enda styttist í brúðkaup hjá þessum lúðum.“
Samband Hafdísar og Kleina hefur verið áberandi í fjölmiðlum, en þau rötuðu fyrst í fjölmiðla sem par í mars árið 2023. Þau ræddu um kynnin og ástina í einlægu viðtali sem birtist í Morgunblaðinu í september 2023, en þar sögðu þau ástina hafa verið áskorun.
„Við vorum oftast að æfa á sama tíma í ræktinni og í raun byrjuðum við strax að laumu-flörta. Fyrir tilviljun var ég stopp á rauðu ljósi og leit til hliðar og sá hana og ákvað að biðja hana að skrúfa niður rúðuna sem hún gerði. Þá fór ég að segja henni hvað mér fannst um hana og að ég hefði áhuga á henni og þá roðnaði þessi elska og við ákváðum að skiptast á númerum,“ sagði Kristján þegar hann var spurður hvernig þau kynntust.
Í ágúst 2023 voru Hafdís og Kleini svo trúlofuð og í kjölfarið fór Kleini í heljarinnar samfélagsmiðlapásu til að einbeita sér að markmiðum sínum. Hafdís fetaði svo í fótspor Kleina og tók sér líka hlé frá miðlunum um tíma.