Stjúpmóðir í vanda því kærastinn vill fara með öll börnin í frí

Theodor Francis Birgisson svarar spurningum lesenda Smartlands.
Theodor Francis Birgisson svarar spurningum lesenda Smartlands. Samsett mynd

Theodor Francis Birgisson klínískur félagsfræðingur hjá Lausninni svarar spurningum lesenda Smartlands. Hér fær hann spurningu frá konu sem er nýfarin að búa með kærastanum sem á tvö börn af fyrra sambandi. Þau greinir á um margt og nú vill hann fara með öll börnin í frí til Spánar. 

Sæll T. 

Ég byrjaði með manninum mínum fyrir fimm árum og fórum við nýlega að búa. Hann á tvö börn af fyrra sambandi og ég eitt. Við erum mjög mikið að reyna að búa til eina stóra hamingjusama fjölskyldu og það gengur bara alls ekki neitt. Ég upplifi að stjúpbörn mín hafi engan áhuga á mér og svo finn ég að dóttir mín hefur takmarkaðan áhuga á kærastanum mínum. Við parið, fullorðna fólkið, hlökkum alltaf mjög mikið til þegar þau fara til hinna foreldra sinna. Svo fáum við samviskubit yfir því að hugsa svona og gerum þá eitthvað fáránlegt fyrir börnin eins og millifæra á þau af tilefnislausu og eitthvað rugl.

Stjúpbörn mín bera okkur látlaust saman við lífið sem þau eiga hjá mömmu sinni og mér finnst þau alltaf óbeint vera að segja að allt sé betra þar. Betri matur og allt meira grand. Ég upplifi okkur oft sem einhverja fátæklinga þótt við höfum það ágætt þannig séð.

Nú er sumarið framundan og kærastinn minn vill að við förum öll saman með börnin í frí til Spánar (sem við höfum ekki efni á). Ég veit að þetta verður ekki gaman en af því stjúpbörnin eru að fara til Tene með móður sinni þá er eins og við þurfum að gera eitthvað með þeim líka. Þekkir þú svona togstreitu á milli fráskilinna foreldra?

Kveðja, E

Sæl kæra E og takk fyrir þessa spurningu.

Það er ekki bara að ég þekki til svona aðstæðna, þetta er nánast „staðalútbúnaður“ í samsettum fjölskyldum. Þar sem skilnaðartíðni á Íslandi er mjög há, þá eru flestar fjölskyldur sem stofnaðar eru hér á landi samsettar fjölskyldur. Rannsóknir sýna okkur að ef allt gengur áfallalaust tekur það um þrjú ár að skapa góða dýnamík í samsettum fjölskyldum.

Ég hef hins vegar aldrei hitt fjölskyldu þar sem allt gengur áfallalaust og það á líka við um samsettar (stjúp) fjölskyldur. Það sem er mikilvægast er að þú og kærastinn þinn tali saman og séu í sama liði. Það að búa til minningar er mjög mikilvægt en það þarf ekki að fara til útlanda til þess og alls ekki fara í „samkeppni“ við hina fjölskylduna. Ef þið hafið ekki efni á að fara til Spánar þá myndi ég mæla með að fara í ferðalag í uppsveitir Árnessýslu, þar sem sólin skín alltaf. Að búa til minningar snýst um samveru óháð staðsetningu. Annað sem ég mæli alltaf með er að fjölskyldan tali reglulega saman, til dæmis í kvöldmatartímanum, þar sem rætt er um þau mál sem brenna á öllum fjölskyldumeðlimum. Auðvitað fer það eftir aldri barnanna hvernig við tölum við þau, en það er mikilvægt að börnin finni að þau eru hluti af fjölskyldunni og þar af leiðandi eiga þau líka að fá að koma með sín sjónarmið.

Það er síðan ykkar fullorðna fólksins að taka ákvarðanir sem þið teljið bestar fyrir ykkur öll, og ef ekki er hægt að standast væntingar barnanna þá þarf að stilla af væntingarstjórnunina.

Mikilvægast af öllu er samtalið og það þið séuð samstillt. Það sem börn þurfa einna helst er stöðuleiki og umhyggja, ef þið skapaði þannig andrúm þá eruð þið á réttri leið. Gangi ykkur vel með þetta spennandi en um leið mjög svo krefjandi verkefni.

K.kv Theodor

Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Theodor spurningu HÉR. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda