Berglind Pétursdóttir er þekktust fyrir að vera dagskrárgerðarkona í Vikunni með Gísla Marteini en hún er líka mikil sumarkona. Berglind stendur fyrir sumarkonufestivali á fimmtudaginn í samstarfi við RVK Bruggfélag þar sem nýr sumarlegur lite-bjór verður kynntur. Hátíðin fer fram á nýjum bar RVK Bruggfélags, Tónabíó, en barinn er staðsettur í gömlum húsakynnum Vinabæs.
„Ég varð 35 ára í vor og finnst ég loksins vera komin á almennilegan sumarkonualdur, sonur minn er að detta inn á unglingavinnualdurinn og frelsi mitt er í raun algjört þar sem það eru engin sumarnámskeið sem ég þarf að gera nesti fyrir eða íþróttamót sem þarf að gista á. Þetta er mikilvægt fyrir mig sem sumarkonu, þegar sumarið framundan er svona stútfullt af skemmtilegum viðburðum,“ segir Berglind.
Hvernig er sumarkonan í ár?
„Sumarkonan er söm við sig, hún elskar að hafa gaman og njóta lífsins. Þetta sumarið hefur þó orðið ein stærðarinnar breyting á henni því hún er farin að drekka miklu meiri bjór. Freyðivín og hvítvín hentar einfaldlega miklu verr í krefjandi aðstæður eins og árbakka og garðpartý sem eru einmitt heimavellir sumarkonunnar. Fólk virðist líka vera farið að átta sig á því að sumarkonan getur verið af öllum kynjum og virkilega gaman að sjá hversu margir íslenskir karlmenn eru farnir að taka sumarkonuna í sjálfum sér í sátt.“
Af hverju er hún óþekk?
„Hún er óþekk að því leyti að hún sýnir sjálfri sér þá mildi að það má alltaf vera svakalega gaman hjá henni. Þetta telst samt eiginlega bara til óþekktar á einhverjum gamaldags mælikvarða, því auðvitað er þetta bara eðlileg nútímahegðun.“
Hvað ætli þið að gera á SumarkonuFestivalinu?
„Við ætlum að leyfa fólki að smakka á þessum dýrðlega nýja sumardrykk og hlusta á tónlist í nýjum húsakynnum Tónabíós (þar sem áður var Vinabær), þar sem RVK Bruggfélag starfrækir nú glæsilega bruggstofu. Hér er gullið tækifæri til þess að skoða þennan frábæra nýja hverfisbar og auðvitað setja upp sumarkonuhattinn í Skipholti sem þykir vera ein fallegasta gata landsins. Fullkomið fyrsta stopp fyrir fimmtudagskvöld með vinkonunum í bænum!“
Hvernig varð hugmyndin að bjórnum til?
„Þessi hugmynd varð til í spjalli í partýi, sem eru oftast langbestu hugmyndafundirnir. Einar Örn, einn eiganda brugghússins var minn fyrsti yfirmaður þegar ég hóf störf í auglýsingabransanum fyrir næstum 15 árum síðan og því kom enginn annar til greina til að gera minn fyrsta bjór með. Mér var svo boðið í hádegissbjórsmökkun þar sem málið var tekið áfram og Ragnhildur Stella á Hér&Nú, einn færasti bjórdósahönnuður landsins hannaði dósina fyrir okkur. Bara það besta fyrir okkar konur.“
Hvað þarf hin íslenska sumarkona að gera í sumar?
„Það er nú bara þetta venjulega sumarprógramm. Á milli Ítalíu- og Teneferða verður okkar kona að kíkja í bústað með vinkonuhópnum, mæta í nokkur gæsapartý, vera síðust heim úr svona fimm til sex brúðkaupum, skreppa í nokkra veiðitúra og svo kannski taka eina helgi í glamping með kallinum. Þegar hún á lausa stund nýtir hún tímann til að skjótast á hlöðutónleika á landsbyggðinni og baka sig á útisvæðinu á flottustu börunum, ef hún hreinlega límist hreinlega ekki föst við pulluna í nýja garðsófanum á pallinum hjá vinahjónunum í hverfinu.“
Hvað ætlar þú að gera í sumar?
„Ég ætlaði nú einna helst að vera bara að drekka þennan nýja bjór, kannski ég drekki í mig kjark til að hlaupa í Reyjavíkurmaraþoninu á Menningarnótt bara. Svo er þetta bara íslenska sumarnóttin, rómantík og pulsa á grillinu alveg til miðnættis á síðasta degi sumars, þá er kominn tími til að finna til starfsmannaskírteinið og mæta aftur til vinnu,“ segir Berglind.