Setti sjálfan sig í fyrsta sæti og þá gerðust töfrarnir

Kári Sverriss ljósmyndari breytti um takt fyrir tveimur árum og …
Kári Sverriss ljósmyndari breytti um takt fyrir tveimur árum og fór að hugsa betur um sjálfan sig.

Kári Sverriss ljósmyndari ákvað að breyta um takt í lífinu fyrir tveimur árum og fara að hugsa betur um sjálfan sig. Í kjölfarið byrjaði hann í einkaþjálfun og tók mataræði sitt í gegn. Hann segir að það hafi ýmislegt annað gerst í kjölfarið sem hefur haft áhrif á vinnuna hans en þessa dagana undirbýr hann ljósmyndasýningu sem opnuð verður á Hafnartorg Gallerý á Menningarnótt. Eins og svo marga unga einstaklinga þá dreymdi Kára um að verða ríkur og frægur þegar hann var yngri en nú hugsar hann öðruvísi. 

„Það er fyndið að hugsa til þess að fyrir mörgum árum fólst drifkrafturinn á bak við starfið mitt að verða eitthvað nafn eða jafnvel að eignast fullt af peningum, en í dag elska ég að skapa, kynnast fólki og gera eitthvað sem skilur eftir sig. Ég vil meina að ég leggi alltaf allt mitt í öll verkefni og ég elska að sjá hugmyndir verða að veruleika. Það má eiginlega segja að það sem drífur mig áfram í starfi í dag er leggja mitt að mörkum að stuðla að jákvæðari og fallegri veröld hvort sem um ræðir starfsvettvang í kringum heimili, myndir, auglýsingar og þar fram eftir götunum,“ segir Kári aðspurður um drifkraftinn sem hann býr yfir. 

Kári vinnur töluvert erlendis í ljósmyndaverkefnum.
Kári vinnur töluvert erlendis í ljósmyndaverkefnum.

Breytti um stefnu

„Fyrir tveimur árum síðan þá hafði ég í fyrsta skipti í langan tíma, eftir margra ára vinnutörn, tíma til þess að stoppa og hugsa, hver er ég, hvar er ég staddur, hvert vill ég fara og hvernig vil ég haga lífinu upp ú þessu. Starfið, og allir aðrir í kringum mig, höfðu ávallt verið í fyrsta sæti og hafði hvorki andlega né líkamlega heilsan haft forgang. Ég ákvað á þessum tímapunkti að núna væri komin tími til að byrja að forgangsraða hvernig ég vildi haga lífi mínu og setja andlegu og líkamlegu heilsuna mína í fyrsta sæti. Mín kenning er nefnilega sú að ef þessir tveir þættir fá að vera í forgangi þá hafi það áhrif á allt annað í lífinu eins og ástina, fjölskylduna og starfið.

Í kjölfar þess tók ég þá ákvörðun að koma mér í besta form lífs míns, jafnvel þó að ég væri kominn yfir fertugt. Og viti menn, einn dag í einu, þá gerðust stórkostlegir hlutir hjá mér bæði andlega og líkamlega. Það sem mér þykir merkilegt við þetta ferli er að þegar ég byrjaði að taka til í kringum mig þá raðaðist allt upp fyrir mér á ótrúlega heilnæman og heilbrigðan máta og raunin varð sú að allt varð betra og einfaldara. Allt sem var ekki að þjóna mér hvarf og þær venjur sem höfðu einhvern tímann virkað, virkuðu ekki lengur. Ég lit svo á að til að vaxa og ná nýjum settum markmiðum þurfti ég að gera breytingar og það þýddi ekkert fyrir mig að vera í sömu rútínunni og búast við því að allt breytist að sjálfum sér.
Þetta geta verið átök að fara í slíkar breytingar, en það skiptir líka máli að hreinlega sleppa takinu og leyfa lífinu svolítið að stjórna ferlinu,“ segir Kári. 

Kári æfir fjórum til fimm sinnum í viku.
Kári æfir fjórum til fimm sinnum í viku.

Kári segir að það skipti mjög miklu máli að líkaminn sé í góðu standi ef fólk ætlar að ná árangri í vinnunni. 

„Í dag lít ég svo á að líkaminn minn sé kjarninn í öllu. Til þess að ná árangri á öllum sviðum þá þurfti ég að byrja á kjarnanum. Fyrir tveimur árum síðan þurfti ég að taka verkjatöflur annað slagið út af bak- og liðverkjum og það gerðist ítrekað að eftir langa vinnudaga lá ég í rúminu sólahring eftir ef ég komst upp með það. En það að lenda ítrekað í þessum verkjum var líka kveikjan að því að ég vildi gera breytingar í lífinu mínu. Með breyttum venjum, betri líkamlegri og andlegri líðan, þarf ég ekki að taka verkjatöflu í dag. Ég upplifi vellíðan og set andlega og líkamlega heilsu alltaf í fyrsta sæti sama hvaða verkefni lífið færir mér hverju sinni. Þess heldur finnst mér hiklaust að sjálfsást eigi að verða „trend“ og að því sé algjörlega troðið í „tísku“ hjá öllum. Ég er svo handviss þess efnis að við yrðum flest öll hamingjusamari og besta útgáfan af okkur sjálfum,“ segir Kári. 

Hvernig æfir þú? 

„Ég stunda líkamsrækt fjórum til fimm sinnum í viku og huga vel að matarræðinu alla daga. Vissulega leyfi ég mér óhollustu á milli, en vel það af varkárni. Of mikill sykur eða ofneysla á salti gerir mér ekki gott. Ég þoli ekki boð og bönn. Það sem átti sér stað í mínu tilfelli er að ég hreinlega hætti að hafa áhuga á óhollum mat og venjum. Mér líður best þegar ég borða hollt, stunda hreyfingu og huga að andlegri heilsu og vellíðan,“ segir hann. 

Kári segir að lífið verði svo miklu auðveldara þegar hann sjálfur er í góðu skapi. 

„Að vera í góðu andlegu og líkamlegu formi gerir lífið auðveldara hjá mér. Öll verkefni sem lífið færir mér verða skemmtilegri. Ég upplifi að ég er í betra skapi, léttari í lund, næ betri fókus og hef almennt meiri lífsorku og er glaðari. Ég vakna undantekningalaust hamingjusamur af því að ég legg inn fyrir því á hverjum degi. Ef ég vakna ekki hamingjusamur þá byrja ég daginn á að spyrja mig hvað get ég gert til þess að breyta því. Hamingjan er í mínum höndum og er í þeim lífsstíl sem ég hef sett mér,“ segir hann. 

Kári elskar að byrja daginn á því að lesa einn …
Kári elskar að byrja daginn á því að lesa einn eða tvo kafla í bók á morgnana áður en hann heldur út í daginn.

Hvað getur þú sagt mér um sýninguna sem þú ert að undirbúa?

„Um er að ræða persónulega sýningu um lífið og er framhald að sýningunni sem ég var með í fyrra Listin að vera ég. Markið sýningarinnar var að hvetja fólk til þess að líta inn á við og gera sér grein fyrir því hvað það er sem gerir fólk hamingjusamt í lífinu og hvernig er listin þeirra að vera þau. Þessi sýning er með öðrum áherslum. Ástæðan er sú að nú þegar ég hef náð tökum á því að staldra við hef ég öðlast tækifæri til þess að líta í kringum mig og taka eftir öllu því látlausa, einfalda og fallega í hinu daglega lífi. Maður er oft fastur í annaðhvort fortíðinni eða of upptekin af því sem framtíðin ber í skauti sér. Allt of margir sem hafa ekki tök á því eða hreinlega gleyma að staldra við og njóta, lifa í núinu og leyfa sér að vera.  

Sýningin í ár verður meira „visual“. Ég ætla að leyfa áhorfendum sýningarinnar að sjá hvernig ég sé fólkið í kringum mig, ásamt því að sýningin fjallar einnig um ferðalagið mitt „Að vera ég“.Markmiðið með sýningunni er að fá fólk til að staldra við, hægja á sér, meta litlu hlutina,“ segir Kári sem var ekki hár í loftinu þegar hann vissi að hann vildi vinna skapandi vinnu þegar hann yrði stór.

„Ég get sagt með sanni að vinnan er ástríðan mín og er ótrúlega heppinn að fá að starfa það sem mig hefur alltaf dreymt um. Ég vissi frá unga aldri að ég myndi vinna við eitthvað skapandi. Ég vissi bara ekki hvað það yrði. Í dag hef unnið sem ljósmyndari í fullu starfi í rúmlega 12 ár og fyrir fjórum árum fór ég að taka að mér verkefni við að hjálpa fólki að gera upp húsnæði þeirra eða stílisera heima hjá þeim. Ég hef alltaf verið mikill fagurkeri og elska að hafa fínt í kringum mig. Það mætti ef til vill segja að ég sé einhvern veginn allt í myndum, þannig að þetta verksvið bættist inn í vinnuflóruna hjá mér og ég hreinlega elska þetta,“ segir Kári en lesendur Smartlands muna líklega eftir því þegar hann gerði upp íbúð og fengu lesendur að fylgjast með ferlinu. Kári segir að þetta fari vel saman, að ljósmynda og stílisera heimili fólks. 

„Ljósmyndaverkefnin koma oft í törnum og hef ég því stundum einhverja daga inn á milli sem eru rólegri. Þá get ég tekið að mér að hjálpa fólki að gera upp heimilin sín eða stílisera þau. Raunin er sú að í dag elska ég öll verkefni sem eru skapandi og tek þeim fagnandi,“ segir ljósmyndarinn sem hefur myndað svokallaðar ofurfyrirsætur fyrir þekktustu tískutímarit heimsins á milli þess sem hann tekur myndir af heimilum og mat og skýtur auglýsingaherferðir fyrir Eucerin og MAC svo einhver fyrirtæki séu nefnd. 

Kári gerir töluvert að því að stílisera heimili milli þess …
Kári gerir töluvert að því að stílisera heimili milli þess sem hann er í ljósmyndaverkefnum.

Hvað er framundan?

„Ég er búinn að vera undirbúa mörg spennandi og stór verkefni. Ég hef því verið mikið erlendis á vinnufundum og myndatökum. Einnig hef ég verið að vinna að því að koma mér upp starfsstöð erlendis, en raunin er sú að ég ætla að vera búsettur á tveimur stöðum og með því að koma upp þeirri starfsstöð þá er langþráður draumur að rætast hjá mér. En það hefur verið draumur í mörg ár að geta skipt tímanum mínum upp til að geta unnið um allan heim en vera með annan fótinn á Íslandi. Verkefnin mín í dag eru mörg og eru ekki einskorðuð við Ísland. Þess vegna er sniðugt að geta haft starfsstöð í landi þar sem er stutt i allar áttir. Núna er ég að vinna að verkefni fyrir húsgagnaverslunina Tekk sem verður kynnt í haust undir vörumerkinu Appreciate the Details,“ segir Kári en hann bjó til Instagram-reikninginn þegar hann gerði upp íbúð á sínum tíma.

Þessa dagana leitar Kári að einstaklingum til að taka þátt í sýningunni. 

„Ég er að leita að fólki sem telur sig hafa einstakan stíl og sögu að segja í gegnum útgeislun þess lífs sem þau lifa. Ég er að leita af öllu, en ekki þessu hefðbundna og týpíska, ég er að leita af einstaklingum sem geta sett fingurinn á það sem gerir þá að þeim,“ segir hann og segist taka við skilaboðum í gegnum Instagram-reikning sinn. 

Kári kann að meta mjúka liti inni á heimilinu. Þessi …
Kári kann að meta mjúka liti inni á heimilinu. Þessi mynd er tekin heima hjá honum.
Kári segir að það hafi gert sér mjög gott að …
Kári segir að það hafi gert sér mjög gott að byrja í ræktinn af fullum krafti.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda