Söng- og leikkonan Katla Þórudóttir Njálsdóttir segir það ekki tekið út með sældinni einni að stunda leiklistarnám við Listaháskóla Íslands. Oft hafi hún þurft að taka á honum stóra sínum og yfirstíga erfið verkefni og vandræðalegar aðstæður. Námið segir hún þó hafa haft gríðarlega jákvæð og þroskandi áhrif á sig sem manneskju.
„Ég hef líka greint þetta með þetta nám því þarna eru nokkrir áfangar þarna sem maður er bara: „vá, ég ætla að tileinka mér þetta allt“ en svo eru sumir þar sem maður er bara: „guð minn góður ég lít út eins og hálfviti og ef einhver nemandi úr HR myndi labba framhjá stofunni akkúrat núna þá myndi hann hringja á einhverja stofnun,“ segir Katla kímin.
„Við vorum í Grotowski ef þið vitið ekki hvað Grotowski er þá er það æfing sem heitir, ég veit ekki hvort ég megi segja þetta, „fuck the wall“, þar sem þú átt í rauninni bara að ríða veggnum,“ lýsir Katla.
Hún viðurkennir að hafa hrist hausinn yfir Grotowski-æfingunum í fyrstu en síðar í náminu öðlast skilning á tilgangi þeirra og fundið árangurinn sem af þeim hlaust á eigin skinni. Æfingunum er ætlað að þjálfa líkamlega tjáningu og raddbeitingu en hvort tveggja er lykilatriði í leiklist.
„Þetta er leiktækni og þú átt að öskra héðan og María Ellingsen er að kenna þetta og ég elska hana og ég elskaði þennan áfanga. Þetta voru tvær vikur þar sem ég kom heim og þurfti bara að fara strax að sofa því þetta tók svo á,“ útskýrir hún.
„Við stóðum bara í hring og vorum bara öskrandi. Svo lögðumst við bara í jörðina og byrjuðum bara að grenja,“ segir Katla og leikur það sem fram fór í áfanganum með miklum tilþrifum og dramatík líkt og sjá má í meðfylgjandi myndskeiði.
„Þetta er svo magnað og ég veit hvað þetta hefur kennt mér,“ segir Katla. „Ég er að ná að tileinka mér það að gera hluti án þess að spyrja mig hvort þetta sé að fara hjálpa mér eða hvort ég líti út eins og hálfviti,“ segir Katla sem hefur átt það til í gegnum tíðina að vera of meðvituð um sjálfa sig og viljað gera allt upp á tíu.
„Ég hef líka fengið góð ráð frá kennaranum mínum þar sem hún segir mér að vera asnaleg. Hún hefur fundið það að ég er með þessa fullkomnunaráráttu og hún sagði bara: „vertu ljót, vertu asnaleg, ekki vanda þig,“ segir hún.
„Ég er búin að finna það á þessu námi að ég þarf ekki að ritskoða allt sem ég er að gera, fara bara blint inn í hlutina og gera þá bara.“
Katla stefnir á að útskrifast úr Listaháskólanum eftir ár. Þrátt fyrir að þá verði stórum áfanga náð segist Katla eiga eftir að sakna námsins. Hún segir skólann nú þegar hafa mótað sig að einhverju leyti fyrir lífstíð þrátt fyrir að náminu sé ekki einu sinni lokið.
„Þetta er búið að kenna mér æðruleysi held ég og það er mjög mikilvægt í listum því þú getur þurft að taka þátt í einhverju verki sem þú fílar ekki neitt en þú þarft samt að gera það af því þetta er vinnan þín,“ segir Katla og er þakklát samnemendum sínum, kennurum og skólanum fyrir tækifærið til að fá að vaxa og dafna í faginu.
„Við höfum öll talað um það í bekknum að við höfum fundið rosalegan mun á persónuleikanum okkar síðan við byrjuðum í þessum skóla,“ segir Katla sem hafði heyrt þess getið að skólinn gæti haft lífsbreytandi áhrif á nemendur.
„Og það er alveg rétt.“