„Mér leið alltaf vel á þessu setti þrátt fyrir senurnar sem ég fékk sem voru miðað við aldurinn sem ég var á svolítið grófar. Vægast sagt,“ segir söng- og leikkonan Katla Þórudóttir Njálsdóttir um hlutverk sitt í þáttaseríunni Fangar sem kom út árið 2017.
Katla sem er 22 ára í dag var aðeins táningur þegar hún lék í Föngum. Þættirnir vöktu þjóðarathygli á þeim tíma og þóttu einstaklega átakamiklir og vel leiknir þættir sem náðu að fanga skuggahliðar íslensks samfélags.
„Það var þarna sjálfsvíg, eða sjálfsvígstilraun, og kynferðisbrot og ég veit ekki hvað og hvað,“ segir Katla og lýsir því með hvaða hætti hennar velferðar var gætt á meðan á erfiðum og viðkvæmum atriðum var unnið.
„Það fyndna við þetta allt saman er það að mér líður núna eins og ég sé 100 ára að segja þetta en á þessum tíma þá voru ekki komnir nándarþjálfarar sem er notast við núna,“ segir hún.
Nándarþjálfara lýsir hún sem sérþjálfuðum einstaklingi sem gegnir því hlutverki að stíga inn þegar viðkvæm atriði eru skotin eins og ofbeldissenur, nektar- og kynlífssenur og annað sambærilegt, til að tryggja það að leikurum og öðrum á setti líði eins og best verður á kosið á meðan á tökum stendur.
„Fyrir þá sem hafa séð Fanga þá fer ég sem sagt í sturtu í einni senu og afi minn í þáttunum á að koma inn í sturtuna með mér og byrjar að nudda á mér axlirnar og er að brjóta á mér. Hann kemur svo út úr sturtunni og er þá klæddur í slopp og er með standpínu. Allt svona mjög gróft,“ lýsir Katla einu atriði úr þáttaseríunni.
„Ég man þegar ég las þetta handrit fyrst þá vissi ég ekkert hvað ég átti að gera við þetta. Ég var bara 14 ára stelpa að skíta í sig. Þetta var viðkvæmur aldur og ég að taka mín fyrstu skref en það voru allir bara svo æðislegir á þessu setti,“ segir Katla og ber sérstaklega þeim Ragnari Bragasyni leikstjóra og Helgu Rós V. Hannam búningastjóra söguna vel og segir þau fljótt hafa komið sér í skilning um að þetta væri allt gervi.
„Helga Rós á svo stóran þátt í minni vellíðan á mínum ferli,“ segir Katla. „Hún er svo sæt og var alltaf að koma og segja mér hvað þetta væri perralegt en ég mátti alltaf láta hana vita ef mér þætti eitthvað óþægilegt. Hún gerði þetta fullkomlega, sýndi mér gervityppi sem hún setti á sig sjálfa þannig þetta varð allt bara fyndið. Þá fattaði ég að við værum bara að gera bíó.“
Katla segir umhverfið hafa breyst til hins betra síðustu ár og nú séu nándarþjálfarar alltaf hafðir með á setti þegar viðkvæm atriði eru sviðsett.
„Þetta hefur alltaf verið þegar slagsmálaatriði eru kóreógröfuð af því að slagsmál eru hættuleg þannig það þarf að gera þetta allt rétt og passa það að enginn meiði sig. En það er mjög fyndið að það hafi aldrei verið þannig fyrir til dæmis kynlífssenur því þær eru líka mjög viðkvæmar og hlutir þar geta farið úrskeiðis eða yfir mörk. Það hefur aldrei verið manneskja í því fyrr en núna,“ segir Katla og tekur breytingunum fagnandi.
„Þau koma inn á sett núna ef það eru einhverjar viðkvæmar senur og ræða við leikarana og svona.“
Að sögn Kötlu er hlutverk nándarþjálfara mjög mikilvægt í kvikmyndaheiminum til að ganga úr skugga um að ekkert misjafnt komi til með að eiga sér stað en ekki síður til að viðkvæm og erfið atriði skapi rétt hughrif áhorfenda.
„Bara eins og ef það er verið að fara niður á einhvern þá eru lærðir nándarþjálfarar búnir að fara á námskeið til að vita hvernig það lítur út fyrir að þú sért að fara niður á einhvern án þess að þú sért að því í alvörunni. Svo eru þeir bara með leiðir til þess að láta hluti eins og til dæmis kynlíf og einhverjar ákveðnar snertingar líta út fyrir að vera alvöru en það er það ekki í alvörunni.“