Ragga Nagli lætur nettröllin heyra það

Fögnum hæfileikum þessara mögnuðu kvenna.
Fögnum hæfileikum þessara mögnuðu kvenna. Samsett mynd

Ólympíuleikarnir eru í fullu fjöri þessa dagana. Heimurinn fylgist spenntur með öllu besta íþróttafólki heims og hvetur það til dáða. Bandaríska fimleikakonan Simone Biles hefur enn og aftur sannað mátt sinn eftir magnaðan árangur á leikunum síðustu daga.

Þrátt fyrir magnaðan árangur hefur Biles orðið fyrir barðinu á óforskömmuðum netverjum sem gagnrýnt hafa útlit hennar sem og annarra kvenna á leikunum.

Ragnhildur Þórðardóttir, jafnan kölluð Ragga Nagli, er alltaf með puttann á púlsinum og birti pistil á Facebook-síðu sinni fyrr í dag þar sem hún ræðir félagslegan þrýsting á kvenfólk og útlitsdýrkun.

„Krumpaðar sálir vopnaðar lyklaborði“

„Simone Biles er 27 ára fimleikakona sem varla þarf að kynna fyrir nokkru mannsbarni, enda hefur hún unnið nær allt sem hægt er að vinna í sinni grein.
Þrír Ólympíuleikar og 30 medalíur um hálsinn.
Stórkostleg endurkoma eftir að hafa dregið sig úr keppni á síðustu Ólympíuleikum.
Mikil sjálfsvinna og opinská um sína geðheilsu.

En krumpaðar sálir vopnaðar lyklaborði beina athugasemdum að allt öðru en gullmedalíu, afrekum og frammistöðu á gólfinu.

Nefnilega hárgreiðslunni.
HÁRINU!!!

Hún er ekki nógu ondúleruð að þeirra mati.
„Það ætti að reka hársnyrtinn hennar.“
„Ætti að nota meira hárgel.“
„Vanvirðing við ÓL að vera með tættan hársnúð.“

Svört kona sem hefur verið mjög opinská um samband sitt við hárið sem lætur yfirleitt ekki að stjórn og í röku lofti er vonlaust við að eiga.

Í Bandaríkjunum er CROWN act (Creating a Respectful and Open World for Natural Hair) þar sem ekki má meina fólki menntun eða atvinnu á grunni hárgreiðslu, fléttur, dreddar og fleira.

Þegar Naglinn lyftir lóðum er hárið í einhverjum drasl hnút og má ekki vera eitt einasta strá í smettinu.

Það má ímynda sér að þegar kona er að gera sjöfalda skrúfu, sveifla sér á tvíslá eða hoppa á jafnvægisslá sé henni nokkuð DRULL hvernig hárið lítur út.

Spretthlauparinn Sha'Carri Richardson er þekkt fyrir að vera með langar skrautlegar neglur og mætti til leiks í París með ameríska fánann og fleira á nöglunum.

Og auðvitað krepptust tær í kommentakerfunum sem minntust ekki á frammistöðu hennar.... ónei Jósei..... neglurnar voru of langar. Of skrautlegar. Of mikið bling, bling.

„Eru ekki reglur um neglur??“

Hraðasta kona heims og hún er gagnrýnd fyrir neglurnar... NEGLURNAR ???

Celine Dion hefur glímt við erfið veikindi undanfarin ár og um tíma var nær dauða en lífi.
En hún átti stórkostlega endurkomu á opnunarhátíð Ólympíuleikanna þar sem hún flutti lag Edith Piaf og ekki þurrt auga á þeim sem fylgdust með.

Daginn eftir hátíðina spígsporaði Celine um París sultuslök í þægilegum fatnaði og eyddi núll mínútum í greiðslu og meiköpp.

En það kostaði athugasemdir um smetti, spjarir og hár.

„Hún þarf að komast í meikóver.“
„Hún á miljarða. Getur hún ekki klætt sig almennilega?“

Naglinn hefur ekki séð athugasemdir um hárgreiðslu, fataval, útlit né neglur á einum einasta karlmanni á ÓL 2024.

Hvenær ætlar ákveðið fólk að hætta að fleyta sínu óöryggi og óunnum sálrænum vandamálum í að höggva í útlit kvenna frekar en að hrósa fyrir frammistöðu, afrek og innræti?

Ranti lokið... farin á ströndina,“ skrifar Ragga Nagli. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda