Jakob S. Jónsson jarðsunginn í dag

Jakob S. Jónsson.
Jakob S. Jónsson. Ljósmynd/Eyþór Árnason

Jakob S. Jónsson, leiðsögumaður og leikstjóri, verður jarðsunginn frá Hallgrímskirkju í dag, þriðjudaginn 6. ágúst kl. 13.00. 

Jakob varð bráðkvaddur á heimili sínu í Reykjanesbæ þann 18. júlí síðastliðinn. Aðeins fimm dögum fyrir andlát hans birtist einlægt viðtal á Smartlandi þar sem Jakob ræddi opinskátt um líf sitt. 

Jakob, al­nafni móðurafa síns, var einka­son­ur hjón­anna Jóns Hnef­ils Aðal­steins­son­ar (1927-2010) og Svövu Jak­obs­dótt­ur (1930-2004). Þau voru mik­ils­met­in og virt í ís­lensku sam­fé­lagi enda þekkt fyr­ir störf sín. Jón Hnef­ill var vígður sókn­ar­prest­ur á Eskif­irði árið 1960 en helgaði sig síðar kennslu og skrift­um, hann starfaði meðal ann­ars sem blaðamaður á Morg­un­blaðinu ásamt eig­in­konu sinni og varð dós­ent í þjóðfræði við Há­skóla Íslands og síðar pró­fess­or í þjóðfræði, fyrst­ur Íslend­inga. Svava var rit­höf­und­ur, alþing­is­kona og leik­skáld. Árið 2001 var hún sæmd ridd­ara­krossi hinn­ar ís­lensku fálka­orðu fyr­ir störf í þágu lista og menn­ing­ar.

Jakob ólst upp í Reykjavík, Eskifirði og Stokkhólmi. Hann lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum við Hamrahlíð árið 1976. Að svo búnu fékkst hann helst við blaðamennsku og fór þá þegar orð af vel sömdum og athyglisverðum viðtölum hans og blaðagreinum. Árið 1982 fór hann utan til náms á gamlar heimaslóðir. Jakob lauk námi í kvikmynda- og leikhúsfræðum frá Stokkhólmsháskóla og ílengdist þar í landi við frekara nám og margvísleg störf í leikhúsfræðum í rúma tvo áratugi.

Auk leikstjórnar söng hann og spilaði á gítar og helgaði sig helst vísna- og þjóðlagahefðinni. Jakob vann um tíma í leikhúsi í Stokkhólmi en lengst af bjó hann í Jönköping þar sem hann starfaði m.a. við Jönköpings länsteater. Meginstarf hans þessi árin var að koma á samstarfi bæjarfélaga víða um Svíþjóð um svonefnt byggðaleikhús. Stóð hann að „Teaterresan“ sem var viðamikið og frumlegt verkefni. Þegar til Íslands kom var hann leikstjóri hjá fjölda áhugaleikfélaga. Jakob hefur einnig þýtt fjölda skáldsagna og leikrita.

Frásagnargáfu Jakobs var við brugðið og naut hún sín vel er hann hóf að leggja fyrir sig leiðsögn. Þekkti hann vel til landsins og sögu þess. Hann gat bætt upp norðurljósaferð í sudda með mergjuðum sögum svo fór um ferðamennina í rútunni. Jakob var félagslyndur og gaf sig m.a. að félagsmálum leiðsögumanna og um tíma að félagsskap neytenda og VG – samtökum vinstri-grænna. Hann var áheyrilegur upplesari og var t.d. góður rómur gerður að upplestri hans á Njálu allri í Sögusetrinu í Hvolsvelli. Enn fremur var hann gagnrýnandi leikhúsverka og þóttu dómar hans fróðlegir og sanngjarnir.

Jakob eignaðist fjögur börn. Sonur hans með eiginkonu sinni Hjördísi Guðnýju Bergsdóttur, f. 13. júlí 1945, er a) Jón Hnefill, f. 24. apríl 1981, margmiðlunarhönnuður, búsettur á Gíbraltar. Börn Jakobs með eiginkonu sinni Guðrúnu Antonsdóttur, f. 17. mars 1960, eru b) Svava, f. 5. apríl 1988, starfsmaður Ekhagskóla í Jönköping í Svíþjóð, börn hennar tvö heita Adam Freyr Nygren, f. 2016, og Jakob Jón Loki, f. 2022, c) Anton Freyr, f. 27. mars 1990, leiðbeinandi og tónlistarmaður í Malmö í Svíþjóð, og d) Ásta María, f. 30. október 1992, d. 7. ágúst 2022.

Margir minnast Jakobs í Morgunblaðinu í dag og eru allir sammála um að þar sé genginn góður drengur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda