Þurfti að hætta að nota ADHD-lyfin í Rússlandi

Ragnar Sigurðsson.
Ragnar Sigurðsson. Ljósmynd/Kristinn Steinn

Ragnar Sigurðsson segist alltaf hafa upplifað ofurathygli þegar hann var inni á vellinum í stórum leikjum sem fótboltamaður. Ragnar, sem er nýjasti gesturinn í hlaðvarpsþætti Sölva Tryggvasonar, er greindur með ADHD, en segir það aldrei hafa háð sér þegar kom að stóru augnablikunum:

„Ég var alltaf þannig að ég gat verið með ofurathygli þegar ég var inni á vellinum, þó að ég sé með athyglisbrest og hafi átt erfitt með að einbeita mér fyrir utan völlinn. Inni á vellinum náði ég einhvern veginn yfirleitt alltaf ,,laser-focus” og gleymdi öllu öðru. Það er bara svo gaman að vera undir pressu og ég virka best í þeim aðstæðum. Ég held að athyglisbresturinn birtist stundum þannig að manni leiðist bara mjög mikið og nær þess vegna ekki að halda athygli og dettur bara út. Þegar ég fann fyrir leiki að ég væri stressaður fannst mér það alltaf gott af því að þá vissi ég að ég væri tilbúinn,” segir Raggi, sem er greindur með ADHD og hefur tekið lyf við því í gegnum tíðina:

„Maður fær bara undanþágu til að taka lyfin. Ef þú ert greindur með athyglisbrest færðu leyfi til að nota þessi lyf, sem þú annars mættir ekki nota. Kannski eru enn þá einhver lið eða lönd með fordóma gagnvart þessu og ég þurfti til dæmis að hætta að nota lyfin þegar ég var að spila í Rússlandi. Það skipti engu þó að ég segði að mér liði betur af lyfjunum og ég hætti bara að taka þau. Það þýddi bara að ég var aðeins steiktari en vanalega!”

Í þættinum ræða Sölvi og Raggi um það hve stóran þátt sjálfstraust og hugarfar spila í fótbolta og Raggi segir að rétt hugarfar, trú og vilji sé algjört lykilatriði:

„Það voru allir 100%“

„Það mikilvægasta í fótboltanum er ,,attitude”, trú og vilji. Þú getur ekki unnið neitt ef þú trúir því ekki og lætur hugarfarið taka þig þangað. Auðvitað verður þú að geta eitthvað, en til þess að ná upp stemningu og sjálfstrausti verður viðhorfið að vera í lagi. Það var þetta sem heppnaðist fullkomlega í landsliðinu þegar okkur gekk sem best. Jafnvel þó að það væri einhver sem var ekki besti vinur þinn utan vallar, þá bárum við svo mikla virðingu fyrir því að við værum í stríði saman og það voru allir 100%. Við vorum tilbúnir að gera allt fyrir hvorn annan inni á vellinum. Ég vildi að þeim sem voru að spila í kringum mig liði þannig að ef þeir stigu feilspor, þá væri ég mættur til að redda því í allar áttir. Ég spilaði alltaf minn besta leik þegar ég var algjörlega að spila fyrir liðið. Við vorum tilbúnir að fara í stríð með hvor öðrum. Hlaupa út um allt og vera til staðar ef einhver var að gera mistök,” segir Raggi, sem talar í þættinum um daginn sem Ísland sló út England og hann var valinn maður leiksins:

„Þetta var stærsti leikur okkar allra á ferlinum. Trúin fór aldrei neitt, en ég man þegar við löbbuðum inn göngin fyrir leik hvað mér fannst þeir allir stórir. Ég hafði aldrei hugsað svona áður fyrir neinn leik á ferlinum, en þegar við stóðum þarna við hliðina á þeim hugsaði ég: „Shit hvað þeir eru allir stórir”. Svo byrjar leikurinn og við fáum strax á okkur víti sem þeir skora úr og ég gjörsamlega brjálaðist. Akkúrat á þessu augnabliki hugsaði ég að það væri ekki fræðilegur möguleiki á að við myndum tapa leiknum á einhverju svona dæmi. Ég hef aldrei horft aftur á leikinn, en ef ég man rétt, þá tókum við miðjuna og negldum fram og fengum innkastið sem ég svo skoraði úr. Þetta gerðist eins og það væri í ,,slow motion”. Ég sá að þeir settu Wayne Rooney á Kára Árna, sem var algjört rugl, og sá sem var að dekka mig (Kyle Walker) missti einbeitinguna. Ég er ekki fljótari en hann og ekki sterkari en hann, en ég náði að losa mig og skora. Svo man ég bara að það braust út algjört brjálæði þegar við unnum leikinn og það er engin leið að lýsa því.”

Í þættinum talar Ragnar um hlutverk varnarmannsins sem hann segir á ákveðinn hátt auðveldara en hlutverk þeirra sem þurfa að búa til færi og mörk:

„Það er auðveldara að vera varnarmaður en að vera framar á vellinum, af því að hlutverkið þitt er að eyðileggja sóknir. Að vera skapandi er miklu erfiðara en að skemma. Það er auðveldara að byggja hús en að skemma það og það er auðveldara að eyðileggja sambönd en að byggja upp góð sambönd. Ég held að það sé svolítið þannig í lífinu almennt. En þó að það sé auðveldara að vera varnarmaður af þessari ástæðu, þá er að sama skapi meiri ábyrgð af því að mistökin eru sýnilegri. Ef markmaður gerir mistök sjá það allir og það kostar mark. En því framar sem þú ert á vellinum, því fleiri geta reddað þér ef þú gerir mistök.”

Hefur spilað víða

Ragnar hefur spilað í fjölmörgum löndum og það vakti til dæmis athygli þegar hann fór til Rússlands á hápunkti ferilsins. Hann segir áfangastaðinn skipta máli þegar fótboltamenn skipta um lið og hann hafi til dæmis valið út frá áfangastaðnum þegar hann skipti um lið eftir EM 2016:

„Það spilar alveg þó nokkurn þátt í ákvörðuninni þegar maður er að skipta um lið í hvaða borg maður er að fara. Ég tók á mig töluverða launalækkun til að fara til Fulham af því að mig langaði að vera í London. Ég hefði líklega ekki gert það ef þetta hefði verið önnur borg en London. En þegar þú lendir í því að liðið sem þú ert hjá vill losa sig við þig verður þú eiginlega að fara. Ef þú ert búinn að vera að spila illa ert þú kannski ekki með marga möguleika og þá er oft ekki mikið af möguleikum í stöðunni. En ég held að fólk átti sig ekki alveg á því hvernig þetta gengur fyrir sig. En stundum sér maður eftir á að maður var kannski smeykur við að fara eitthvað af því að maður hafði fordóma fyrir landinu. Ég man til dæmis þegar ég fékk tilboð frá Maccabi Haifa í Ísrael. Það virkaði allt mjög spennandi, en ég var bara hræddur við að fara til Ísraels út af öllum umfjöllununum um stríð og það varð ekkert af því. En eftir því sem ég hef orðið eldri sé ég að maður getur ekki lifað lífi sínu hræddur og oft voru bestu ákvarðanirnar eitthvað sem maður óttaðist fyrst.”

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál