„Atburður þessi mun aldrei líða mér úr minni“

Hafsteinn Númason hefur gengið í gegnum meira á lífsleiðinni en …
Hafsteinn Númason hefur gengið í gegnum meira á lífsleiðinni en margur annar. mbl.is/Eyþór

Lífssaga Hafsteins Númasonar er um margt sorgarsaga. Hún er ósanngjörn og enginn hér á landi hefur sem betur fer þurft að standa í sömu sporum og hann. Nafn hans hringir án efa bjöllum hjá einhverjum. Hann hefur sagt sögu sína áður, þulið úr henni langa kafla, sem flestir hljóma eins og uppspuni, enda er það ótrúlegt hvað er hægt að leggja á eina manneskju. 

Hafsteinn er gamall sjómaður, óvirkur alkóhólisti og faðir sem hefur þurft að takast á við þá þungu raun að horfa á eftir fjórum barna sinna yfir móðuna miklu. Þrjú þeirra fórust í snjóflóðinu í Súðavík þann 16. janúar 1995. Sá dagur mun seint renna okkur úr minni. Rúmum áratug síðar kvaddi dóttir hans og hálfsystir hinna þriggja, Jóhanna Helga, jarðlífið eftir stutta en átakanlega baráttu við einn mesta vágest okkar tíma, krabbamein. Hún var aðeins 29 ára gömul. Auk þess var Hafsteini vart hugað líf eftir bílslys. Þarna hefur því mikil þrautaganga átt sér stað. 

„Ég var geymdur í grind úti í garði“

Hafsteinn ólst upp í litlu sjávarþorpi á Vestfjörðum, Patreksfirði, þar sem lífið snerist um að lifa á því sem land og sjór gáfu. Hann fæddist að vísu í Reykjavík árið 1951. Líffræðileg móðir Hafsteins, Aðalheiður Halldórsdóttir, átti um sárt að binda og sá sér ekki fært að sinna nýbura, en hún var 24 ára gömul þegar Hafsteinn kom í heiminn og átti fyrir einn son. Hún ákvað því að gefa nýburann til ættleiðingar í von um að hann öðlaðist betra líf en hún taldi sig geta veitt honum. Hjón að vestan, Valgerður Haraldsdóttir húsmóðir og Númi Björgvin Einarsson sjómaður, ættleiddu Hafstein og bjuggu honum gott heimili á Patreksfirði. 

„Barnæskan var góð. Bærinn var leikvöllurinn minn. Ég ráfaði um fjöll, fjörur og firnindi daginn út og inn og eyddi miklum tíma niðri á bryggju, þó svo það væri bannað,“ útskýrir Hafsteinn sem naut þess að dorga á bryggjunni með félögum sínum, á milli þess sem hann þvældist út um allt. 

Hann var ættleiddur af fæðingardeildinni og alinn upp á Patreksfirði.
Hann var ættleiddur af fæðingardeildinni og alinn upp á Patreksfirði. mbl.is/Eyþór

Varstu ærslabelgur?

„Ég var öflugur, ungur maður, hálfgerður Emil í Kattholti, og var gjarnan geymdur í grind úti í garði, öryggisins vegna. Ég var samt klókur, lét fátt stoppa mig og lærði fljótt að losa mig úr prísundinni í bakgarðinum, það tók mig bara eitt gott tilhlaup að velta grindinni á hliðina. Ég gerði sjálfum mér óleik með þessu. Einn daginn velti ég grindinni, hljóp rakleitt að háu hliði og klifraði upp á það.“ Þetta príl hefði getað endað illa. „Ég steyptist á hausinn. Það sem bjargaði mér var að mamma hafði nýlega prjónað á mig húfu með stórum dúski og var það hann sem kom í veg fyrir stórslys, hann gerði lendingu mína mun mýkri en ella hefði orðið og því slapp hausinn á mér óskaddaður frá þessu. Eftir þetta var grindinni fleygt og ég settur í beisli og tjóðraður niður. Ég var eins og geit á beit,“ segir Hafsteinn og hlær. „Já, það má alveg segja að ég hafi verið ærslabelgur.“

Sjórinn kallaði

Eins og fram hefur komið þá snerist lífið á Patreksfirði um sjómennskuna. Hafsteinn kynntist því ungur að árum. 

„Lífið snerist bara um að komast á sjóinn. Þegar þú sigldir út varstu orðinn maður með mönnum. Pabbi var trillusjómaður og tók mig reglulega með sér á sjóinn. Ég man ómögulega hvað ég var gamall þegar ég fór í fyrstu ferðina, ætli ég hafi ekki verið um það bil sjö ára. 

Ég var ekki gerður fyrir sjóinn, bæði sjóhræddur og sjóveikur, en ég var alltaf fljótur að gleyma því þegar kom að því að fara næstu ferð. Ég á helvíti sniðuga sögu af fyrstu alvörusjóferðinni með pabba.

Við feðgarnir vorum á veiðum og þar sem pabbi hafði yfirleitt verið einn á bátnum hafði hann útbúið bátinn þannig að hann gæti stýrt honum þó svo hann væri um leið að gera að aflanum. Þarna kom bandspotti að góðum notum. Þegar leið á daginn fór að hvessa, það var kominn ylgja í sjóinn. Við höfðum tekið stefnuna til hafnar. Pabbi var að gera að aflanum en ég var við stýrið. Hann óttaðist að kröftug alda gæti hent syninum fyrir borð og því ákvað hann að binda mig fastan við þóttuna. Þarna sat ég niðurnjörvaður, stýrði eins og sá sem valdið hefur og þótti ekki lítið til þess koma, ekki síst út af því að skömmu áður höfðum við mætt heljarinnar herskipi en þetta var einmitt á tímum 12 mílna þorskastríðsins.“ Þetta var fyrsta alvörusjóferð Hafsteins af mörgum. 

Hafsteini finnst gaman að rifja upp æskuárin á Patreksfirði.
Hafsteini finnst gaman að rifja upp æskuárin á Patreksfirði. mbl.is/Eyþór

Sökk á bólakaf

Hafsteinn fór ekki í framhaldsnám og gerði sjómennskuna að aðalstarfi sínu ungur að árum. Sjómannslífinu fylgdi svall og fyrr en varði var Bakkus orðinn besti vinur hans. Áfengið endaði á því að rústa hjónabandi Hafsteins og fyrri eiginkonu hans, Salvarar Jóhannesdóttur, en með henni eignaðist hann tvær dætur, Jóhönnu Helgu og Valgerði Björgu. 

„Ég var forfallinn drykkjumaður, byrjaði ungur að drekka og drakk illa. Það voru hæg heimatökin að verða sér úti um áfengi í siglingum. Með árunum ágerðist svo drykkjan, hún eyðilagði margt fyrir mér. Bakkus varð orsökin að skilnaðinum. Það var ekki hægt að búa með manni sem var meira og minna alltaf fullur. Ég taldi mér reyndar trú um að ég hefði fullkomna stjórn á þessu sem var ekkert annað en blekking og lygi. Þarna var ég kominn á botninn, konan farin frá mér með börnin.“

Hafsteinn fór inn á Vog í ársbyrjun 1985 og komst aftur á beinu brautina. 

Af hverju ákvaðstu að fara inn á Vog?

„Ég var búinn á því, algjörlega. Sjálfsvirðingin var farin og vanlíðanin var yfirþyrmandi. Ég stóð á bjargbrúninni og þurfti hjálp.“

Hafsteinn þróaði með sér þunglyndi eftir ítrekuð áföll á fullorðinsárum.
Hafsteinn þróaði með sér þunglyndi eftir ítrekuð áföll á fullorðinsárum. mbl.is/Eyþór

Umturnaði lífi sínu

Hafsteinn fann ástina á ný einu ári eftir að hann varð edrú. Hann kynntist seinni eiginkonu sinni, Berglindi Maríu Kristjánsdóttur, árið 1986. 

„Ég kynntist Berglindi Maríu á balli á Ísafirði. Ég var á sjó frá Bolungarvík á þeim tíma og ákvað að sletta aðeins úr klaufunum, án þess þó að áfengi væri með í spilinu, bara til að sýna mig og sjá aðra. Við Berglind María kolféllum hvort fyrir öðru og fluttum til Súðavíkur stuttu eftir fyrstu kynni. Þar komum við okkur upp heimili, kát með lífið og tilveruna. 

Ekki leið á löngu þar til við áttum von á fyrsta barni okkar saman. Hún Hrefna Björg fæddist þann 10. ágúst 1987. Kristján Númi og Aðalsteinn Rafn fylgdu svo á eftir. Þau létust öll í snjóflóðinu.“

Tilveran hrundi á augabragði

Þann 16. janúar 1995 var Hafsteinn á leið til hafnar í Súðavík ásamt skipverjum togarans Bessa eftir rækjutúr. Það var vont veður, þreifandi bylur, ekkert skyggni og flóð. Togarinn leitaði því vars undir Grænuhlíð í Ísafjarðardjúpi og beið af sér veðrið. Engum skipverjanna datt í hug hvað í vændum var, en klukkan 06.25 féll eitt mannskæðasta snjóflóð Íslandssögunnar sem hrifsaði með sér heimili fólks og hirti líf fjórtán manns, þar af átta barna. 

„Atburður sem þessi mun aldrei líða mér úr minni,“ segir Hafsteinn. „Skipstjórinn kallaði okkur saman um morguninn og tilkynnti okkur að við færum ekki strax í land. Stuttu síðar fengum við þau miklu sorgartíðindi að það hefði fallið snjóflóð á fallega sjávarþorpið okkar. Það sló þögn á hópinn. Við fengum að heyra hvar það kom niður og þegar ég heyrði að það hefði farið langleiðina að frystihúsinu þá stífnaði ég allur. Ég vissi um leið að snjóflóðið hefði lent á húsinu mínu, enda var það staðsett fyrir ofan frystihúsið. 

Biðin um borð var erfið. Ég ráfaði um örvæntingarfullur. Skipstjórinn hringdi í land og náði sambandi við mág minn sem gerði mér grein fyrir alvarleika ástandsins. Ég fékk að heyra að húsið væri gjörónýtt, eiginkonan á lífi en börnin týnd. Heimurinn hrundi, ég stóð eftir brotinn og hágrét.“

Hafsteinn vildi ólmur komast í land eins og hinir skipverjarnir og íhugaði að klæða sig í flotgalla, henda sér í sjóinn og synda í land. Hann vissi þó að sú ákvörðun gæti hindrað eða jafnvel eyðilagt björgunarstarfið. 

„Ég varð bara að bíða,“ útskýrir Hafsteinn sem komst þó að lokum í gúmmíbát, á honum að öðrum báti, sem sigldi með hann og einn skipsfélaga hans að höfninni.

„Hún bar harm sinn í hljóði þrátt fyrir að hafa …
„Hún bar harm sinn í hljóði þrátt fyrir að hafa misst öll börnin sín í snjóflóðinu, en ég var þó það heppinn í þessu öllu saman að eiga tvö börn á lífi þegar þetta gerðist.“ mbl.is/Eyþór

„Hann var þarna bara á bleyjunni“

Aðspurður segist Hafsteinn hafa verið feginn að komast upp á bryggjuna en skelfingu lostinn af því sem hann sá þegar hann gekk inn í bæinn. 

„Ég hélt rakleitt upp í frystihús ásamt félaga mínum, skrefin þangað voru þung. Þegar þangað var komið varð mér strax litið inn í borðsalinn, en þar sá ég yngsta son minn liggjandi á einu borðanna. Björgunarsveitarmenn voru að hætta lífgunaraðgerðum á honum þegar ég nálgaðist hann. Það var skrýtið að sjá hann, elsku fallega Aðalstein Rafn. Hann var þarna bara á bleyjunni, hrímhvítur og ískaldur. Systkini hans voru með þeim síðustu sem fundust. Hrefna Björg og Kristján Númi fundust niðri á Aðalgötu daginn eftir.“

Berglind María, eiginkona Hafsteins, hlaut áverka á öxl, missti allar tennur úr efri góm og varð að fara suður til lækninga vegna þess.

„Við fórum suður vikuna á eftir. Okkur var bara hent upp í farþegaflugvél og líkin fóru með varðskipinu.“

Nýr raunveruleiki tók við

Börn Hafsteins og Berglindar Maríu voru jarðsungin í Dómkirkjunni í Reykjavík örfáum dögum eftir snjóflóðið og í framhaldinu byrjuðu hjónin að vinna úr þessu mikla áfalli með það að markmiði að takast á við nýjan raunveruleika. Þau eignuðust tvær dætur, Írisi Hrefnu og Birtu Hlín, með 18 mánaða millibili, en sú fyrrnefna kom í heiminn tæpum tveimur árum eftir snjóflóðið. 

„Ég var fimm barna faðir og búinn að láta taka mig úr sambandi,“ segir Hafsteinn. „Þegar umræðan um annað barn kom upp á borðið hjá okkur þá kannaði ég möguleikann á því að láta tengja mig aftur, það tókst. Okkur gekk ætlunarverk okkar í fyrstu illa en örlögin gáfu okkur þó tvær dásamlegar dætur.“

Leiðir Hafsteins og Berglindar Maríu skildi árið 2014. 

„Berglind María er og verður ávallt hetja í augum mínum. Ég er óendanlega þakklátur fyrir hana og allan þann kærleika sem hún sýndi í þessum hörmungum,“ segir Hafsteinn. „Hún bar harm sinn í hljóði þrátt fyrir að hafa misst öll börnin sín í snjóflóðinu, en ég var þó það heppinn í þessu öllu saman að eiga tvö börn á lífi þegar þetta gerðist.“

„Það var bara tvennt sem kom til greina“

Sex árum eftir Súðavíkurflóðið lenti Hafsteinn í alvarlegu bílslysi og var vart hugað líf. 

„Á þessum tíma var ég á fullu að keyra leigubíl og hafði kvatt sjómannslífið. Ég átti ljúfan dag fram undan og ætlaði að eyða honum í veiði í Rangánni. Ég hafði boðið kunningja mínum þangað með mér. Við vorum seint á ferð og ætluðum okkur að vera mættir í ána morguninn eftir. Ég var að keyra eftir Suðurlandsvegi þegar hvellspringur hjá mér, annað framdekkið fór í tætlur. Bíllinn kastaðist til á veginum. Stór flutningabíll var óðum að nálgast. Það var bara tvennt sem kom til greina, annaðhvort að lenda framan á flutningabílnum eða að taka sjénsinn á hrauninu, ég valdi hraunið. 

Hafsteinn hlaut varanlega skaða af bílslysinu. 

„Það er hausinn, hann fór allur í mask. Minnið er lélegt, ég missti annað augað og braut hnjálið. Það urðu einnig miklar persónubreytingar á mér. Ég varð þyngri í skapi og með mun styttri kveikiþráð. Ég er búinn að ná stjórn á skapinu en sit uppi með þunglyndi, það kom í kjölfarið á áföllunum. 

Þegar þú lítur yfir farinn veg, verður þú aldrei reiður?

„Nei, ég var það fyrst. Það voru margir eftir snjóflóðið sem spurðu mig hvort ég væri ekki reiður guði fyrir að taka börnin af mér. Ég svaraði alltaf nei. Þetta hafði ekkert með guð að gera, þetta voru mannana verk. Ég er ennþá reiður út í kerfið, það brást. 

Ég valdi mér helvíti erfiðan pakka en kýs að líta á lífið sem stuttan tíma í tilverunni. Þetta er stutt ferðalag og í raun og veru er þetta bara prófverkefni. Þú færð niðurstöðurnar þegar þú deyrð.“

Baráttunni ekki lokið

Hafsteinn er reiður stjórnvöldum fyrir að hafa ekki reynt að komast til botns á því sem gerðist í Súðavík þennan örlagaríka dag. 

Ertu enn að berjast öllum þessum árum síðar?

„Já. Í fyrra var sent bréf til forsætisráðherra með beiðni um rannsókn á öllum þáttum snjóflóðsins, meðal annars því hvort rétt hafi verið staðið að öryggismálum í þorpinu í ljósi þeirra aðstæðna sem þarna voru. Það var vel tekið í þetta. Umhverfis- og samgöngunefnd samþykkti fyrr á árinu, með öllum atkvæðum, að sett yrði á laggirnar rannsóknarnefnd sem myndi fara heildstætt yfir málið og skila um það skýrslu. Nú eru liðnir ríflega þrír mánuðir og það hefur ekkert gerst, engin nefnd hefur verið skipuð. Á hverju strandar þetta? Ef að stjórnvöld hysja upp um sig buxurnar og láta rannsaka þetta á hlutlausan hátt þá getum við ef til vill lært af þessu en með því að sópa þessu undir teppið lærum við ekki neitt,“ segir Hafsteinn. 

Hafsteinn er reiður stjórnvöldum fyrir að hafa ekki reynt að …
Hafsteinn er reiður stjórnvöldum fyrir að hafa ekki reynt að komast til botns á því sem gerðist í Súðavík þennan örlagaríka dag. mbl.is/Eyþór

Fjallið það öskrar

Heimildamynd um Súðavíkurflóðið, Fjallið það öskrar, var frumsýnd á hátíð íslenskra heimildamynda, Skjaldborg, á Patreksfirði í vor. Myndin vann áhorfendaverðlaun Skjaldborgar 2024.

Hafsteinn var einn þeirra sem Daníel Bjarnason kvikmyndagerðamaður ræddi við. 

„Ég var mjög efins og hafði enga trú á þessu verkefni þegar hann hafði samband í fyrstu, en myndin er virkilega vel gerð og mikilvægur minnisvarði um fólkið sem dó. Myndin mun án efa hreyfa við fólki og vonandi einnig stjórnvöldum sem þurfa að gera hreint fyrir sínum dyrum í þessu máli. Það stendur ýmislegt upp á þau.“

Hvernig var að horfa á myndina?

„Það var mjög erfitt að horfa á myndbönd af börnunum mínum. Að sjá þau aftur eftir öll þessi ár tók rosalega á. Mér fannst erfitt að sætta mig við hversu lítið ég þekkti börnin mín, það var erfið uppgötvun og algjör skellur. Ég var aldrei heima, alltaf að vinna.“

Hver er stærsta lífslexían sem þú hefur lært?

„Sko, maður heldur bara ótrauður áfram og tekur einn dag í einu. Ég hef engar áhyggjur af dauðanum, hann er það eina sem er öruggt í lífinu.“

Hafsteinn fer reglulega utan og eyðir myrkustu mánuðunum á bjartaði stöðum. 

„Mér líður betur í birtunni, finn minna fyrir þunglyndinu. Myrkrið á Íslandi fer illa með mig. Ég er á leið til Filippseyja núna og hlakka mikið til. Það er mikilvægt að hafa eitthvað til að hlakka til, þá líður mér betur,“ segir Hafsteinn að lokum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda