„Ástin bankaði heldur betur á dyr, eiginlega bara ruddi þeim niður með látum“

Aníta Briem er komin 36 vikur á leið og hlakkar …
Aníta Briem er komin 36 vikur á leið og hlakkar til vetrarins. mbl.is/Anton Brink

Líf Anítu Briem umturnaðist þegar hún kom til Íslands 2019 til þess að leika í fyrri seríu Ráðherrans. Eftir skilnað fann hún ástina á ný og hlakkar til að taka á móti nýju barni á Bárugötu. Hún er mætt aftur á skjáinn í hlutverki Steinunnar í Ráðherrann 2 og hefur aldrei verið sáttari við hlutskipti sitt í lífinu. Hún prýðir forsíðu Smartlandsblaðsis sem fylgir Morgunblaðinu í dag. 

Tökur á Ráðherranum 2 fóru fram í fyrrasumar. Benedikt og Steinunn flytja úr Arnarnesinu á Bárugötu.

„Það er gaman að segja frá því að nýtt heimili þeirra hjóna í Vesturbænum stendur við sömu götu og ég og kærasti minn keyptum við nokkrum mánuðum seinna,“ segir Aníta en hún fann ástina á ný eftir skilnað þegar hún hitti Hafþór Waldorff.

Þannig að líf þitt hefur umturnast. Nýtt barn á leiðinni, nýr maki og nýtt heimili. Hvernig æxlaðist þetta?

„Já, lífið er stundum óútreiknanlegt. Þegar ég kom til Íslands við tökur á fyrstu seríu af Ráðherranum umturnaðist líf mitt. Mér fannst ég loks vera komin í rétt spor eftir ævintýramennsku sem var ef til vill komin heldur langt frá mínum kjarna. Og í kjölfarið áttu sér stað miklar breytingar. Þetta tímabil hefur bæði verið það besta og það erfiðasta sem ég hef tekist á við. Að ganga í gegnum skilnað tekur held ég alltaf gríðarlega á, sama hversu mikill kærleikur og vinsemd er að leiðarljósi, eins og var í mínu tilfelli. Maður vill fyrst og fremst gera það sem er best fyrir börnin, vernda þau og setja gott fordæmi og ég trúi því að okkur hafi tekist það. Við fyrrverandi maðurinn minn erum sem betur fer góðir vinir og erum hluti af lífi hvort annars. Og svo kemur lífið manni á óvart. Ástin bankaði heldur betur á dyr, eiginlega bara ruddi þeim niður með látum, og ég hef fundið hamingju sem ég var búin að sannfæra sjálfa mig um að væri bara ekki til. Ró í sálinni, bjartsýni, endurvakin forvitni og jafnvægi,“ segir Aníta.

Hvernig kynntust þið Hafþór og hvað var það við hann sem heillaði þig?

„Við unnum saman í tveimur kvikmyndaverkefnum og urðum fyrst góðir vinir. Ég tók strax eftir því hvað hann hefur bjarta nærveru. Það eiginlega geislar af honum. Hann er einstaklega næmur einstaklingur og ljúfur, forvitinn og opinn. Lífið er gott með honum,“ segir hún.

Hægt er að lesa viðtalið í heild sinni í Morgunblaðinu.

Aníta Briem prýðir forsíðu Smartlandsblaðsis sem kom út í dag.
Aníta Briem prýðir forsíðu Smartlandsblaðsis sem kom út í dag.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda