Laufey er manneskja ársins

Laufey Lín Jónsdóttir er manneskja ársins að mati lesenda Smartlands.
Laufey Lín Jónsdóttir er manneskja ársins að mati lesenda Smartlands.

Árið hjá íslenska tónlistarundrinu Laufeyju Lín Bing Jónsdóttur hefur verið viðburðaríkt og mörgum stórum áföngum náð. Hún er manneskja ársins að mati lesenda Smartlands.

Laufey hefur náð stórkostlegum árangri í tónlistarheiminum síðustu ár og var þetta ár sérstaklega viðburðaríkt. Hún prýddi meðal annars forsíðu Billboard-tímaritsins, vann Grammy-verðlaun, birtist á hvíta tjaldinu og var á lista Forbes. Laufey ólst upp á tónelsku heimili, en móðir hennar er fiðluleikari og afi hennar og amma voru bæði fiðlu- og píanókennarar. Hún sagði í viðtali á árinu að heimili hennar hefði verið ævintýralegur staður þar sem tónlist barst úr öllum hornum. Það er þó íslenskum föður Laufeyjar að þakka að hún uppgötvaði djassinn, sem leiddi hana í frekara tónlistarnám við hinn virta Berklee College of Music í Boston.

Laufey prýðir forsíðu Smartlandsblaðsins sem kom út í dag.
Laufey prýðir forsíðu Smartlandsblaðsins sem kom út í dag.

Forsíða Billboard

Í upphafi ársins prýddi hún forsíðu stafrænnar útgáfu Billboard sem er eitt þekkasta tónlistartímarit heims. Djasssöngkonan ræddi meðal annars um uppruna sinn og tónlistaráhrif í viðtali við blaðamann tímaritsins. Sá forvitnaðist um hvort Laufey sæi fyrir sér að semja tónlist fyrir kvikmyndir. „Draumurinn væri að semja titillagið fyrir James Bond-mynd,“ sagði söngkonan, sem ætlar sér að gera allt til að láta þann draum rætast.

Laufey á forsíðu stafrænnar útgáfu Billboard-tímaritsins.
Laufey á forsíðu stafrænnar útgáfu Billboard-tímaritsins.

Hlaut Grammy-verðlaun

Laufey hlaut Grammy-verðlaun fyrir plötu sína Bewitched í flokki hefðbundinna söngpoppplatna (e. traditional pop vocal album). Sex hlutu tilnefningu í flokki Laufeyjar en á meðal þeirra voru Bruce Springsteen með plötuna Only the Strong Survive, hljómsveitin Pentatonix með plötuna Holidays Around the World og Rickie Lee Jones með plötuna Pieces of Treasure. „Vá, takk kærlega fyrir öllsömul. Þetta er ótrúlegt. Ég hefði ekki trúað því að þetta gæti gerst,“ sagði Laufey Lín þegar hún steig á svið í Crypto-höllinni í Los Angeles til þess að taka við verðlaununum.

Kvöldið var viðburðaríkt hjá tónlistarkonunni en áður en hún fékk verðlaunin afhent flutti hún lagið From the Start af plötu sinni. Það var þó ekki eini flutningur hennar um kvöldið því að hún lék á selló í sögulegum flutningi tónlistarmannsins Billy Joel, sexfalds Grammy-verðlaunahafa. Flutningurinn var merkilegur fyrir þær sakir að Joel hafði ekki stigið á svið á Grammy-verðlaunahátíð og flutt tónlist sína í 30 ár.

AFP

Laufey fékk heiðursviðurkenningu

Útflutningsverðlaun forseta Íslands 2024 voru veitt í byrjun marsmánaðar og var Laufey heiðruð fyrir störf sín á alþjóðavettvangi. Heiðursviðurkenning er veitt árlega manneskju sem þykir með starfi sínu og verkum hafa borið hróður Íslands víða um heim. „Fjögurra ára byrjaði Laufey að læra á píanó og átta ára á selló. Hún kom fyrst fram á stóra sviðinu þegar hún spilaði einleik á jólatónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands, þá 15 ára. Söngurinn blundaði alltaf með henni og fór hún að koma fram sem söngkona á unglingsaldri meðal annars í Iceland Got Talent og The Voice þar sem hún náði í úrslitakeppnina,“ sagði í tilkynningu, en Laufey er fædd árið 1999.

Guðni Th. Jóhannesson, fyrrverandi forseti Íslands, heiðraði Laufeyju fyrir störf …
Guðni Th. Jóhannesson, fyrrverandi forseti Íslands, heiðraði Laufeyju fyrir störf sín á alþjóðavettvangi. Ljósmynd/Íslandsstofa

Fyllti Eldborg í þrígang

Mikill áhugi var á tónleikum Laufeyjar í Eldborgarsal Hörpu en hún hélt þrenna tónleika í mars. Það seldist upp á tvenna tónleika aðeins á nokkrum mínútum og var þá aukatónleikum bætt við. Það seldist einnig hratt upp á þá en þeir voru hluti af tónleikaferðalagi hennar um heiminn.

Hélt stærstu tónleikana í Indónesíu

Laufey steig á svið í Djakarta í Indónesíu og söng fyrir framan 7.500 tónleikagesti. „Takk, Djakarta! Þetta voru stærstu tónleikarnir mínir hingað til, öll 7.500 ykkar sunguð hvern einasta texta af fullum krafti með mér. Takk fyrir að bjóða mig velkomna í fallegu menninguna ykkar, sjáumst næst! Terima Kasih,“ skrifaði Laufey í færslu sem hún birti á Instagram-síðu sinni eftir tónleikana.

Laufey fann ástina á árinu í örmum Charlie Christie.
Laufey fann ástina á árinu í örmum Charlie Christie. Ljósmynd/Instagram

Fann ástina í Kaliforníu

Það voru líkar góðar fréttir úr einkalífi Laufeyjar á árinu en hún fann ástina í örmum Charlie Christie. Sá heppni starfar í markaðsteymi hjá útgáfufyrirtækinu Interscope Records. Fyrirtækið gefur út tónlist Lady Gaga, Elton John, Billie Eilish og Maroon 5, svo að einhverjir tónlistarmenn séu nefndir, og er með skrifstofur í Santa Monica í Kaliforníu. Það er því kannski ekki skrýtið að hann hafi fallið fyrir Grammy-verðlaunahafanum Laufeyju.

Lék fyrir þúsundir í Hollywood Bowl

Í ágúst síðastliðnum þakkaði Laufey aðdáendum sínum, sem ganga undir nafninu Lauvers, fyrir ógleymanlegt kvöld í Hollywood Bowl. „Kæra 13 ára Laufey, þú seldir upp Hollywood Bowl. Takk öllsömul fyrir besta kvöld lífs míns,“ skrifaði söngkonan við aðra færsluna á Instagram. Tónleikasvæðið getur tekið við 17.500 gestum svo að það var mikið afrek að uppselt var á tónleikana.

Á tónleikunum steig hún á svið ásamt Sinfóníuhljómsveitinni í Los Angeles. Tónleikarnir komu henni á hvíta tjaldið en þeir voru sýndir í útvöldum kvikmyndahúsum í nú í desember.

Tilnefnd til VMA-verðlauna

Í lok ágúst hlaut hún tilnefningu til MTV VMA-verðlauna. Á hátíðinni eru bestu tónlistarmyndbönd, listamenn og lög ársins heiðruð og var lag Laufeyjar, Goddess, tilnefnt í flokki sem kallast „PUSH Performance of the Year“. Alls voru 11 framúrskarandi tónlistarmenn tilnefndir í flokknum.

Á fremsta bekk hjá Chanel

Franska tískuhúsið Chanel frumsýndi vor- og sumarlínuna fyrir árið 2025 á tískuvikunni í París í október. Sýningin fór fram í Grand Palais sem hefur verið einn aðalsýningarstaður Chanel um árabil. Laufey sat ásamt systur sinni, Júníu Lín, í einni af fremstu röðunum á tískusýningunni. Þetta er einn stærsti viðburðurinn á tískuvikunni og yfirleitt stjörnum prýddur. Franska tískuhúsið hefur klætt Laufeyju fyrir nokkra viðburði þessa árs en hún hefur verið þekkt fyrir kvenlegan og klassískan fatastíl.

Franska hátískuhúsið Chanel vildi að Laufey klæddist fatnaði frá því …
Franska hátískuhúsið Chanel vildi að Laufey klæddist fatnaði frá því á árinu. Ljósmynd/Chanel

Ný skartgripalína frá Laufeyju

Þá lét hún einnig til sín taka í heimi skartsins en hún hannaði skartgripalínu í samstarfi við amerísku skartgripaverslunina Catbird. Í línunni eru sex mismunandi skartgripir, allt frá armböndum yfir í hringa, eyrnalokka og hálsmen. Laufey sagði þetta vera skartgripi drauma sinna.

„Ég bjó þetta til fyrir þig og mig. Gullkanínur æsku minnar, slaufur, bláir tónar og hringar fyrir brotið hjarta og gleði. Líka eitt sérstakt hjarta fyrir Lauvers,“ skrifar hún á Instagram. „Hver gripur er búinn til með svo mikilli ást og er til í 100% endurunnu gulli og silfri.“

Á lista Forbes

Í desember skipaði Laufey sæti á lista Forbes yfir einstaklinga, 30 ára og yngri, sem skarað hafa fram úr í tónlistarheiminum á árinu sem er að líða. Á listanum er einnig að finna heimsþekkta tónlistarmenn á borð við Chappel Roan, Tyla, Shaboozey og Zach Bryan.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda