Leikkonan og blaðamaðurinn Lilja Katrín Gunnarsdóttir fer með aðalhlutverkið í þáttunum Makalaus á Skjá Einum. Hún segir að besta leynitrixið sé að taka ekki mark á vigtinni.
Hvað gerir þú til að halda þér í formi?
„Bara þetta klassíska – píni mig í ræktina eldsnemma á morgnana og finnst það alltaf voðalega gott þegar það er búið. Svo reyni ég eins og ég get að komast í brennó á Klambratúni á mánudagskvöldum en það hefur gengið hálfbrösulega upp á síðkastið. Það stendur samt til bóta. Skemmtilegasta líkamsræktin er samt að leika við dóttur mína. Ef ég nenni ekki í ræktina þá reyni ég stundum að gera armbeygjur og magaæfingar þegar hún er að reyna príla upp á mér – það eru heljarinnar átök! Ég mæli líka með hnébeygjum með ellefu kílóa barn í fanginu – það er keppnis!“
Er einhver matur sem þú borðar ekki eða fer illa í þig? „Ég borða voðalega lítið af rauða kjöti, það fer einstaklega illa í mig. Ég er alltof löt í fisknum því mér finnst hann einfaldlega vondur. Kökur og gúmmulaði sem innihalda engan sykur finnst mér líka að ætti að banna.“„Ég gat einu sinni stútað lítra af ís á núll einni en borða voðalega lítið af ís núna. Kannski út af því að hann lætur mig ropa eins og sjóari. Og ef ég verð einhvern tímann neydd til að borða bjúgu eða hjörtu aftur á ævinni þá gubba ég svo ég kafna.“
Hvað gerir þú til að líta betur út? „Ég klæði mig í eitthvað fallegt og dansa aðeins. Það klikkar ekki!“
Hvert er ódýrasta fegrunarráðið? „Að hlæja. Það eru allir svo sjarmerandi þegar þeir skella upp úr. Meira að segja þegar maður fær fruss í kaupbæti!“
Lumar þú á leynitrixum varðandi útlitið?„Ekki taka mark á þessari bévítans vigt!“
Hvað er að finna í snyrtibuddunni þinni?„Baugafelara frá Helenu Rubenstein sem ég keypti mér fyrir minna en ári en get ekki verið án, hræódýrt sólarpúður frá H&M, Maybelline-maskari sem ég fékk gefins, svartur eyeliner úr H&M sem ég nota eiginlega aldrei og augabrúnablýantur, líka úr H&M, sem ég nota enn sjaldnar. Ég keypti mér reyndar tvo varaliti eftir að ég kynntist Lilju Sigurðardóttur í Makalaus en ég held ég sé búin að týna öðrum þeirra, jafnvel báðum.“
Hvaða matar gætir þú ekki verið án?„Ég sagði við móður mína þegar ég var lítil að þegar ég yrði stór ætlaði ég alltaf að hafa kjúkling í matinn – það hefur nánast ræst. Sushi gæti ég borðað í morgunmat og gott súkkulaði getur bjargað verstu dögum.“