Íslendingar hafa löngum verið þekktir fyrir að láta veðrið ekki stoppa sig og það má með sanni segja að sú staðhæfing hafi átt vel við á laugardagskvöldinu síðastliðna þegar hressilega kaldur vindstrekkingur sem blés um hornið við Klapparstíg og Hverfisgötu kom ekki í veg fyrir að þar færi fram gangbrautartískusýning. Fyrirsæturnar sem spígsporuðu um malbikið sýndu þar vor- og sumarlínu Gamms, nýrrar íslenskrar hönnunar og framleiðslu á kvenfatnaði. Gunnhildur Stefánsdóttir eigandi Gamms segir að borgarumhverfið og þar með gatnakerfið hafi áhrif á hönnun hennar. Hún opnaði verslun í húsnæði Barber Theater á vindasama horninu við Hverfisgötu 37 í febrúar og viðtökur hafa verið afar góðar. Götupartíið fór vel fram eins og myndirnar sýna.