Sjónvarpskonan Sigrún Ósk Kristjánsdóttir er þekkt fyrir skelegga framkomu, forkunnarfagurt útlit, einstaka hæfileika og almenn skemmtilegheit. Það vita hins vegar færri að hún þvertekur fyrir að borða kókosbollur, finnst hangikjöt vont og vaknar fyrir allar aldir á hverjum mánudagsmorgni til að arka upp á Akrafjall.
Hvað gerir þú til að halda þér í formi? Ég veit fátt
leiðinlegra en að mæta í ræktina og lyfta. Það deyr smá hluti af mér í hvert
sinn sem ég læt mig hafa það. En jóga, sund, hjólreiðar og fjallgöngur eru í
uppáhaldi. Fyrir stuttu tók ég upp þann sið að vakna kl. 5.30 á mánudagsmorgnum
og labba upp á Akrafjall áður en ég mæti í vinnuna. Ég er ekkert smá montin af
því og finn yfirleitt einhverja leið til að koma því að í samræðum.
Hvað gerir þú til að líta betur út? Ég reyni að ná 7-8 tíma svefni þótt það
gangi ekki alltaf og svo er ég með það á heilanum að nota alltaf sólarvörn.
Hvert er ódýrasta fegrunarráðið? Svefn, vatnsdrykkja og hreyfing. Allt ókeypis
og svínvirkar.
Lumar þú á einhverjum leynitrixum varðandi útlitið? Ég tek lýsi og það er
bjargföst trú mín að það skili einhverju.
Hvað er að finna í snyrtibuddunni þinni? Kanebo púður, maskara, gloss, nokkra
augnskugga frá Mac og svo keypti ég eitthvað lífrænt krem við frjókornaofnæmi í
gær sem ég ætla að gefa séns í sumar..
Hvaða snyrtivöru gætir þú ekki lifað án? Ég myndi líklega ekki drepast þótt
snyrtibuddan yrði hirt af mér eins og hún leggur sig, en ég myndi sakna þess að
eiga gott dagkrem. Núna er ég að nota krem frá Neostrata með sólarvörn, en ekki
hvað?