Helga Arnardóttir, fréttakona á Stöð 2, er ein glæsilegasta kona landsins. Hún hugsar vel um líkama og sál og prófaði nýverið að taka út sykur og glúten og segir það hafa mikið að segja fyrir bæði húð og þyngd. Auk þess lumar hún á nokkrum snilldar fegrunarráðum sem hún deildi með Smartlandi.
Hvað gerir þú til að halda þér í formi? Ég er nú ekki mikið að pína mig áfram í ræktinni og hef verið ansi löt í sumar en þegar ég er dugleg af og til finnst mér best að fara í góðan hot jóga tíma og taka á því. Róleg og styrkjandi íþrótt er miklu meira mér að skapi en að vera í gargandi eróbikk tíma.
Er einhver matur sem þú borðar ekki eða fer illa í þig? Grænar baunir er eitthvað sem ég hef aldrei getað látið ofan í mig í lífinu og liggur við beygla á mér munninn þegar þær eru bornar á borð. Hins vegar fer gerbrauð, pasta og hvítt hveiti mjög illa í mig og ég reyni alla jafna að sneiða hjá því.
Ertu hætt að borða eitthvað sem þú borðaðir áður? Já aldeilis, eða svona 90% tímans eða kannski 80% tímans, skal reyna að vera heiðarleg. Tók þá ákvörðun að hvíla mig aðeins á glútenvörum og sykri. Það hefur reynst mér mjög vel, bæði fyrir húðina og þyngdina. Hins vegar gæti ég aldrei sleppt því að borða þetta fyrir lífstíð. Aldrei!!
Hvað gerir þú til að líta betur út? Held að gott matarræði og svefn sé lykilatriði. Ég er alveg eins og litlu börnin, verð ómöguleg ef ég er ekki búin að fá átta tíma svefn.
Hvert er ódýrasta fegrunarráðið? Græni djúsinn hennar Sollu hefur hjálpað minni húð mikið og þetta er ekki í fyrsta skipti sem ég nefni hann til sögunnar. Fjórir stönglar af sellerí, eitt lime, hnefi af grænkáli eða spínati, ein agúrka og tveir sentímetrar engifer. Þetta fer allt í djúsvél og svo bætast við tveir bollar af vatni. Þetta er alveg hreint frábær djús og er meiriháttar fyrir húðina og líkamann.
Lumar þú á einhverjum leynitrixum varðandi útlitið? Púff, nei ekkert sem mér dettur í hug í fljótu bragði nema ég keypti mér hárpúður í Aveda (Hair Potion) sem gerir hárið meira umfangs. Ég er ekki með einn sveip í mínu hári og það er hrikalega slétt og púðrið lyftir því upp um nokkra sentímetra. Mæli eindregið með því.
Hvað er að finna í snyrtibuddunni þinni? Meik, hyljara, púður, maskara, fimm augnskugga frá MAC og kinnalit og blýant. Og svo er ég með svona tíu glossa út um allar trissur.
Hvaða snyrtivöru gætir þú ekki lifað án? Ég gæti ekki verið án highlighters sem heitir Reflex Cover light frá Make up Store. Það er bara þannig, langar liggur við að sofa með hann :)