Kastljósstjarnan Helgi Seljan brosir aldrei meira en til hálfs því annað finnst honum vera asnalegt. Hann hleypur þegar enginn sér til og segist ekki getað lifað án augnblýantsins hennar Rögnu Fossberg.
Hvað gerir þú til að halda þér í formi?
Ég hleyp, þegar engin sér til og svo er ég nýbúinn í fyrsta Víkingaþrekstímanum í Mjölni. Þeir verða fleiri.
Er einhver matur sem þú borðar ekki eða fer illa í þig?
Ég borða allan mat. Vandamálið er að ég borða hann oftast allan í einu og mikið. En ég fer varlega í saltkjöt, þó að ég vildi helst borða saltkjöts-ragúið hans Bjarna snæðings í hvert mál. En það er með þetta eins og flest annað gott í þessum heimi, það má víst ekki gera of mikið af því.
Ertu hættur að borða eitthvað sem þú borðaðir áður?
Nei, ég held ekki. Kannski frekar farinn að borða eitthvað sem ég borðaði ekki áður.
Hvað gerir þú til að líta betur út?
Ég færi flatan lófa, lárétt, upp að enninu á mér, þannig að þumalfingur beri við svæðið ennið. Svoleiðis lít ég mun betur út.
Lumar þú á einhverjum leynitrixum varðandi útlitið?
Stjúri segir að maður eigi ekki að þvo sér með sjampói eða hárnæringu. Nema ef maður er með eitthvað svona feitt hárdót í því alla daga. Þá á maður bara að nota uppþvottalög. Helst Yes. Guðbrandur kaupmaður segir að buxur eigi alls ekki að ná niður á ökkla, ég fellst ekki á það. Fáir vita það en ég nota til dæmis alltaf keytu í hárið á mér til að halda því ljóslu, en konan mín þolir það ekki. Svo reyni ég að brosa aldrei meira en til hálfs, annað er asnalegt.
Hvaða snyrtivöru gætir þú ekki lifað án?
Augnblýantsins hennar Rögnu Fossberg. Ég efast reyndar um að ég bæri beinin ef hans nyti ekki við, en hann dregur vissulega fram dökkbláa litinn í augunum á mér. Svo finnst mér gloss gott á bragðið, en það er reyndar ógeðslega lítil næring í því.