Inga Rósa Harðardóttir innkaupastjóri hjá NTC hugsar vel um heilsuna og útlitið. Hún segir að allt sé gott í hófi.
Hvað gerir þú til að halda þér í formi?
„Börnin mín halda mér í ágætisformi, annars reyni ég að fara í göngutúra, stundum skokka ég og nú síðast var ég að uppgötva námskeið í Baðhúsinu sem heitir Jógafitness, það er frábær tími.“
Ertu hætt að borða eitthvað sem þú borðaðir áður? „Nei, ég leyfi mér allt, en allt er gott í hófi.“
Hvað borðar þú þegar þú vilt dekra við þig? „Það er spaghetti Carbonara með extra parmesan-osti sem maðurinn minn er búinn að mastera.“
Hvað gerir þú til að líta betur út? „Drekk mikið af vatni, tek lýsi og passa upp á að fá góðan svefn.“
Besta leynitrixið? „Vera sátt við það sem ég á og hafa því sjálfsöryggi er besta trixið.“
Hvað er að finna í snyrtibuddunni þinni? „Litað dagkrem frá Oil of Olay er ómissandi í mína buddu! Studio Tech frá Mac er nýjasta uppgötvunin mín, það er alger snilld. Lancome hypnose maskari og augnhárabrettari og nokkur gloss til skiptanna.“
Hvað finnst þér um fegrunaraðgerðir? „Ég er hlynnt þeim, en allt er gott í hófi. Ef manneskjunni líður betur fyrir vikið þá er það bara gott mál.“
Þekkir þú einhverja manneskju sem hugsar ekki um útlitið? „Nei, ekki sem ég hef tekið eftir.“