Ásdís Rán Gunnarsdóttir leggur mikið upp úr því að líta vel út. Til þess að það takist neitar hún sér um skyndibitamat. Ef hún fitnar snýr hún strax vörn í sókn með því að æfa oftar, borða minna og fara í LPG-tækið, sem er ákaflega vinsælt hjá stjörnunum í Hollywood. Madonna fer til dæmis ekki á tónleikaferðalög nema tækið sé með í för. „Þegar ég fitna breyti ég um takt, fer að æfa meira og borða minna. Þá æfi ég sirka 5-6 sinnum í viku og reyni að halda mataræðinu í röð og reglu. Borða meira prótein og minna af kolvetnum,“ segir Ásdís Rán sem er ennþá búsett í Búlgaríu. Hún segir að það sé svo heitt hjá sér á sumrin sem kalli á léttan mat. „Ég borða mikið af léttum mat, mikið af salati, ávöxtum, grilluðu kjöti og fiski. Auk þess er ég hrifin af sushi, það er sérstaklega gott hérna í Búlgaríu.“
Neitar þú þér um eitthvað þegar kemur að mat? „Ég borða sjaldan eða nánast aldrei skyndibitamat eins og hamborgara, pítsur og þannig. Mér finnst það voða óspennandi matur.“
Ásdís Rán segist ekki vera neitt öðruvísi en aðrar konur. Ef hún slakar á í líkamsræktinni og leyfir sér meira fitnar hún um 3-4 kíló. „Það fer alveg eftir því hvað ég er dugleg í ræktinni, ef ég slaka á og tek eitthvert letitímabil er ég fljót að blása út.“
Þegar Ásdís Rán er spurð út í líkamsrækt sína segist hún lyfta lóðum. „Ég hef bara verið í æfingasalnum síðustu ár og í brennslutækjunum. Ég fer aldrei í leikfimitíma, fyrir utan spinning. Það er gott fyrir lærin og rassinn.“
Á hvaða tíma dagsins æfir þú? „Yfirleitt í kringum hádegi, en er að reyna að manna mig upp í að byrja fara snemma á morgnana. Ég er búin að vera í sumarfríi núna og hef ekkert æft að ráði síðan í júní, en er að byrja aftur í dag!“
Til að ná sem mestum árangri hefur Ásdís Rán stundað LPG-tækið, bæði hérlendis í Líkamslögun og í Búlgaríu. „LPG-tækið hefur reynst mér vel í gegnum tíðina. Það hjálpaði mér mikið að koma mér í form aftur eftir barnsburð, bæði þá við að strekkja húðina, grenna og vinna á appelsínuhúð. Tækið hefur fleiri góða eiginleika en það örvar til dæmis blóðrásina um allan líkamann sem er alveg nauðsynlegt fyrir fólk sem er mikið heima, hreyfir sig ekki nógu mikið eða vinnur fyrir framan tölvu. Tækið losar líka um bjúg, vinnur á vöðvabólgu og meiðslum,“ segir Ásdís Rán.
Ásdís Rán skildi fyrr á árinu við eiginmann sinn, Garðar Gunnlaugsson. Þegar hún er spurð að því hvort hún sé komin með kærasta neitar hún því. „Ég tek þessu öllu voðalega rólega. Ég er búin að vera á föstu síðan ég var 15 ára þannig að ég sé enga ástæðu til að flýta mér strax í fast samband. Ég held að það sé gott eftir svona langan tíma að læra að njóta þess að vera ein.“