„Ég ætla að skoða hvort íslenskar tónlistarkonur séu róttækar í sinni ímynd hér á landi og kannski aðeins að skoða hvað þær eiga sameiginlegt og hvað er ríkjandi í þeirra ímynd. Íslenskar tónlistarkonur virðast að stærstum hluta sólólistamenn, þær eru sjálfstæðar og sýna sjaldan hold“ segir Ragnheiður Axel Eyjólfsdóttir fatahönnuður og verkefnastjóri hjá Fatahönnunarfélagi Íslands.
Ragnheiður heldur fyrirlestur á Undiröldu; off-venue dagskrá Airwaves í Hörpu á morgun, föstudag, ásamt Guðmundi Oddi Magnússyni prófessor við Listaháskóla Íslands. Goddur mun fjalla um myndmál metalsins í sínum fyrirlestri en Ragnheiður Axel tekur fyrir ímyndir og ímyndanotkun íslenskra tónlistarkvenna.
„Auðvitað er ekki hægt að komast hjá því að skoða Björk en hennar hugmyndaheimur er á slíkum meistaravelli að ég fjalla um ástæðuna að hennar ímynd er svona sterk. Einnig skoða ég hvaða tónlistarkonur eiga sterka framtíð - ímyndarlega séð - og má þar nefna Agnesi Björk í hljómsveitinni Sykur. Hún býr yfir öðrum eiginleikum en flestar þær tónlistarkonur sem við höfum hingað til séð. Hún mögnuð blanda af Grace Jones og Anime karkater.“
Ragnheiður nefnir einnig Svölu Björgvins sem framúrstefnulega í sinni tísku og ímynd. „Enda eiga þær báðar, Agnes og Svala, bakgrunn sem stílistar sem getur verið að hafi áhrif á þeirra ásýnd. Svala og Björk eru þannig að þær virðast geta búið til nýjan karakter jafnóðum og straumar og stefnur breytast í umhverfinu og maður sér það hjá stjörnum sem ná að lifa lengi; svo sem Madonnu, að þær ná að endurfæðast reglulega. Eru breytilegar og taka mið af tíðarandanum og formast með.“