Alma Geirdal, verslunarstjóri í Oasis í Smáralind, er mikið fyrir fylgihluti og finnst fallegt að nota skargripi og klúta við einfaldan klæðnað, sér í lagi þegar hún vill punta sig. Aðspurð hvort það séu einhver tískuslys í fataskápnum hennar segir hún svo ekki vera.
„Eins og er eru engin söguleg tískuslys í skápnum mínum. Ég rótera í skápnum eins oft og hugsast getur. Ég gef það sem ég nota ekki og passa mig á að eiga engin föt sem eru of lítil, þannig að tískuslysin eru ekki lengi til staðar,“ segir Alma Geirdal.
Hvaða föt myndir þú taka með þér á eyðieyju? „Ég færi með „mömmudressið“ eins og ég kalla það.“
Uppáhaldsflíkin? „Það er bleikur biker-jakki úr Oasis. Ég er þeirrar skoðunar að hver kona þurfi að eiga biker-jakka, enda passa þeir við allt og lifa að eilífu.“
Í hvað myndir þú aldrei fara?
„Ég færi aldrei í flíspeysu. Mér þykir efnið erfitt og svo eyðileggur það allan píuskap.“
Uppáhaldshönnuður? „Andrea.“
Tískufyrirmynd? „Ég spái nú ekki mikið í það, en ef ég velti því fyrir mér þá finnst mér alltaf gaman að fylgjast með Lönu Del Ray. Og svo finnst mér margir íslenskir hönnuðir til fyrirmyndar.“
Hvað eyðir þú miklu í föt á mánuði? „Ég eyði ekki miklu í föt, alls ekki.“
Besta bjútíráðið: „Dekraðu við þig eins og drottningu, klæddu þig eins og bestu vinkonu þína og kíktu oft í spegil.“