Síðustu ár hafa þröngar gammósíur verið móðins. Því miður getur verið erfitt að finna slíkar buxur sem sitja vel á mjöðmunum og búa ekki til auka hliðarspik þegar þær síga niður. Þess vegna ákvað Theodóra Elísabet Smáradóttir að hanna hinar fullkomnu gammósíur fyrir rúmum tveimur árum. Í dag hannar hún og framleiðir undir nafninu MuffinTopKiller. Í framhaldinu keypti hún lénið MuffinTopKiller.com og stofnaði fyrirtæki. Nokkrum mánuðum síðar kom orðið „MuffinTop“ í Oxford-orðabókina sem heiti á þessum leiðindafellingum sem geta myndast fyrir ofan buxnastrenginn.
Gammósíurnar sitja vel á mjöðmunum og haggast ekki allan daginn, sem er ákaflega mikill kostur. Auk þess eru buxurnar smart enda er hægt að fá þær í þó nokkrum útfærslum.
Theodóra leggur mikinn metnað í góð efni sem hún kaupir að utan. Öll hönnun og framleiðsla fer fram á Íslandi.