Einhvern veginn endar það svo oft þannig að huggulega morgunrútínan (þessi með kaffinu, hafragrautnum, blöðunum og morgunútvarpinu... í rólegheitum) snýst upp í stress og læti við að koma sér út úr húsi, svo maður nái í vinnuna á réttum tíma (hvað þá ef þarf að keyra maka og/eða börn á sína staði í leiðinni).
Hér er sex ráð sem öll eiga það sameiginlegt að geta flýtt fyrir manni á morgnana - með fyrir augum að kría út nokkrar aukamínútur:
Sjampó og blástur fyrir svefninn - Maður getur sparað sér heilmikinn tíma með því að þvo hárið og þurrka fyrir svefninn. Þá nægir bara snögg kroppssturta í morgunsárið og maður getur skellt sér beint í gallann. Ef þú nennir ekki að blása hárið er líka hægt að búa í haginn með því að flétta það blautt (að því gefnu að það sé sítt) og sofa með yfir nóttina - þá vaknar maður með þessar fínu liði í undirbúningi!
Almennileg andlitshreinsun að kvöldi - Það er margsannað að það borgar sig að hreinsa húðina vel fyrir svefninn, ná af öllum farða, óhreinindum og slíku. Með því að bera gott rakakrem á eftir þvottinn gefur manni húðinni færi á að anda endurnýja sig yfir nóttina og vaknar ferskari að morgni. Maður er síðan enga stund að skola andlitið með vatni að morgni og smyrja, áður en maður skutlar á það grímu dagsins.
Andlitsþurrkur til að fríska og kæla - Í dag er auðvelt að nálgast fjöldann allan af mildum andlitsþurrkum með náttúrulegum efnum, sem fríska og kæla húðina. Það er mjög handhægt að notast við þær á morgnana. Þannig getur maður á örskotsstundu frískað upp á sig, náð síðustu leifunum (ef einhverjar) af meiki gærdagsins af og glansinum eftir nóttina.
Þurrsjampó er snilld - Það er klárlega ekki alltaf tími eða nenna fyrir hárþvott að kvöldi. Þá kemur þurrsjampó sterkt inn en það er algjör snilld. Maður sprautar því létt í rótina, lætur bíða aðeins og burstar síðan úr. Feit rót verður mött á örskotsstundu auk þess sem auðvelt er að lyfta flötu hári með smá túberingu. Hárið verður eins og nýtt! (Eitt leyniráð - þurrsjampó er líka snilld í útileguna).
Sláðu margar flugur í einu höggi með lituðu dagkremi - Litað dagkrem getur létt töluvert á baðherbergishillunum hjá manni og stytt morgunrútínuna. Auk þess að næra húðina fær hún á sig ferskan blæ á augabragði notist maður við slíkt, á sama tíma og maður ver hana fyrir skaðlegum geislum sólarinnar. Passið bara að kremið sé klárlega með SPF-vörn (sólarvörn).
Sláðu enn fleiri flugur í fáum höggum - Það er hægt að nota margar snyrtivörur á fleiri en einn máta. Eye-liner í blýantsformi getur t.d. einnig nýst til að skerpa á augabrúnunum, suma varaliti og hyljara má líka nota á kinnar og augnlok (með því að dreifa þeim vel) o.s.frv. Þannig getur maður sloppið út á morgnana án þess að vera með fulla gala-grímu á andlitinu (og að hafa eytt tilheyrandi tíma í hana), en er engu að síður eins og skátarnir, ávallt viðbúinn og getur t.d. með lítilli fyrirhöfn sett upp andlit fyrir drykk á bar með stelpunum eftir vinnu eða annað slíkt skemmtilegt.